Vilhjálmur Árnason og Njáll Trausti Friðbertsson skrifa:
Undanfarið hafa spurningar vaknað um aðgengi sjúkraflugs á Suðausturlandi eftir röð slysa á svæðinu síðustu vikur og mánuði þar sem enginn þjónustaður flugvöllur er á 450 kílómetra akstursleið á milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði. Þessar spurningar og áhyggjur eru þó ekki eingöngu bundnar við Suðurlandið því einungis nokkrir dagar eru síðan bílvelta varð í Austur-Húnavatnssýslu þar sem hinum slasaða var ekið með sjúkrabifreið, nærri 60 km leið yfir Þverárfjall og inn á Sauðárkrók, og þaðan með sjúkraflugi á Landspítalann, þrátt fyrir að slysið hafi átt sér stað einungis 11 km frá flugvellinum á Blönduós. Í viðtali við Leif Hallgrímsson, flugrekstrarstjóra Mýflugs sem birtist í Morgunblaðinu 1. september sl., kom fram að þrátt fyrir að þyrlur séu mikilvirk tæki í sjúkraflutningum verði ekki öll verkefni leyst með þeim. Flugvélar séu á sinn hátt afkastameiri og fljúgi t.d. á meiri hraða og við aðrar aðstæður. En eitt sjúkraflutningstæki kemur ekki í staðinn fyrir annað heldur styrkja þau öll öryggisviðbragðið og styðja við hvort annað. En óháð því hversu öflugan flugflota við munum búa við, koma tækin ekki að gagni nema aðgengi sé tryggt að góðum og öruggum lendingastöðum.
Torveld svæði í sjúkraflugi
Í samgöngu- og innviðaáætlun Norðurlands vestra sem stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra samþykkti í júní 2019, er lögð áhersla á að Blönduósflugvöllur verði skilgreindur fyrir sjúkraflug og tryggt að hann geti þjónað flugi með viðunandi hætti. Hið sama á við um Alexandersflugvöll á Sauðárkrók en svæðið getur verið torvelt, sérstaklega á vetrum og því er mikilvægt að flugvellirnir geti þjónað sjúkraflugi með viðunandi hætti.
Við vinnslu nýsamþykktrar samgönguáætlunar gerði umhverfis- og samgöngunefnd það að tillögu sinni að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefði forystu um samstarf við önnur ráðuneyti og hagaðila um flokkun flugvalla, að teknu tilliti til hlutverks þeirra; endurskoðaði og setti reglugerð um lágmarksskilyrði fyrir hvern flokk hvað varðar útlit, búnað og flugtæknileg atriði. Jafnframt yrði horft til þess markmiðs í flugstefnu um öruggar flugsamgöngur sem meðal annars kveður á um að lagt sé mat á lendingarstaði með hliðsjón af öryggishlutverki þeirra.
Alþjóðaflugvellir og áætlunarflugvellir innanlands nýtast vissulega vel fyrir öryggis- og sjúkraflug. Það er hins vegar mikilvægt í upphafi slíkrar vinnu að skilgreina hvaða flugvellir eru hafðir til reiðu fyrir sjúkraflug og flug sem tengist þjóðaröryggi og náttúruvá, en eru ekki nýttir fyrir reglubundið farþegaflug í grunnnetinu. Dæmi um slíka flugvelli eru, fyrrnefndur Blönduósflugvöllur, Norðfjarðarflugvöllur og ýmsir valkostir á Suðausturlandi, og þá sérstaklega í Skaftafelli þar sem allur búnaður sé til staðar og því lítill kostnaður að koma vellinum í það horf að hann geti þjónað sem neyðar og sjúkraflugvöllur á þessu víðfeðma svæði sem Suðurlandið er.
Flugið og almannavarnir
Flugför sem nýtt eru til almannavarna, svo sem þyrlur og flugvél Landhelgisgæslunnar, þurfa að hafa greiðan aðgang að þessum flugvöllum, einkanlega við erfiðar aðstæður. Kortleggja þarf viðbragstíma og skilgreina þessa flugvelli með aðstoð heilbrigðisráðuneytisins, flugrekenda sem sinna sjúkraflugi, Landhelgisgæslunnar og Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra. Við þingmennirnir sem höfum látið okkur þessi málefni varða, teljum að með því að styrkja öryggisviðbragðið styðjum við hvert við annað og gerum öllum kleift að nýta sér þá opinberu þjónustu sem er til staðar, óháð því hvar slys ber að höndum.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 5. september 2020.
Höfundar eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins.
Njáll Trausti Friðbertsson er 6. þingmaður Norðaustur og situr í atvinnuveganefnd og fjárlaganefnd Vilhjálmur Árnason er 9. þingmaður Suðurkjördæmis og situr í umhverfis- og samgöngunefnd og velferðarnefnd.