Nú standa fyrir dyrum sveitarstjórnarkosningar í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi en kosið verður þann 19. september næstkomandi. Gauti Jóhannesson sveitarstjóri og fyrrverandi skólastjóri á Djúpavogi leiðir Sjálfstæðisflokkinn í komandi sveitarstjórnarkosningum og hann var gestur Guðfinns Sigurvinssonar í Pólitíkinni á hlaðvarpi Sjálfstæðisflokksins. Hlusta má á þáttinn hér.
Gauti segir það gríðarlega spennandi að fá að taka þátt í móta nýtt sveitarfélagi þótt það sé reist á gömlum stoðum og óttast ekki að hrepparígur muni trufla sameininguna, eins og stundum gerist þegar sveitarfélög eru sameinuð. Nýtt sveitarfélag sem líklegt má telja að hljóti nafnið Múlaþing samanstendur af Borgarfjarðarhreppi, Djúpavogshreppi, Fljótsdalshéraði og Seyðisfjarðarkaupstað en nafnið Múlaþing varð efst í ráðgefandi nafnakosningu meðal íbúa sem fór fram samhliða forsetakosningum í sumar.
Framboð Sjálfstæðisflokksins hefur gefið út glæsilega stefnuskrá en stefnan er að nýta tækifærið í nýju sameinuðu sveitarfélagi til þess að bæta samgöngur, efla atvinnulíf og stuðla að betra mannlífi með bættri félagsþjónustu og skilvirku stjórnkerfi. Gauti ræddi stefnumálin og kosningarnar en líka um sitt persónulega líf og sagði frá því hvað það var sem dró hann austur á land í leit að nýju lífi.
https://open.spotify.com/episode/7BtTEwZ8eZu7L6U8QvEEsE?si=78mLjPFsTh-BS4L6kR46hQ