Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Lífið sjálft felur í sér áhættu. Sá sem vill enga áhættu taka hreyfir sig aldrei, gerir eins lítið og hægt er, heldur sig heima við, fer ekki út úr húsi, skapar ekkert, takmarkar samskipti við aðra eins og mögulegt er. Hægt en örugglega veslast viðkomandi upp andlega og líkamlega – verður lifandi dauður. Dauðinn einn tryggir að hægt sé að koma í veg fyrir áhættu lífsins.
Hið sama á við um samfélög og einstaklinga. Samfélag sem lokar á eða takmarkar til lengri tíma mannleg samskipti, slekkur ljósin og stöðvar hjól atvinnulífsins, molnar með tímanum að innan – hættir að vera samfélag frjálsra borgara.
Í nauðsynlegri baráttu við skæða veiru erum við flest ef ekki öll fús að færa fórnir. Reiðubúin til að sætta okkur við skert athafnafrelsi og skert lífsgæði í ákveðinn tíma. Við viljum sýna árvekni en ætlum okkur ekki að fórna samskiptum við vini og fjölskyldu eða glata möguleikanum að eignast nýja vini. Okkur er nauðsyn að eiga aðgang að kryddi lífsins; listum og menningu, lifandi tónlist, leikhúsi, myndlist, upplestri ögrandi skálda. Við viljum koma saman á vellinum til að hvetja okkar karla og konur áfram í hörðum leik, styðja við bakið á börnunum okkar á vel skipulögðum íþróttamótum. Við viljum hitta vini á góðum veitingastað, fagna með þeim á yndislegum brúðkaupsdegi, halda glaðan dag á afmælisdegi, gleðjast á fjölskylduhátíðum og að leiðarlokum kveðja og þakka fyrir dýrmæta samfylgd. Við lítum á það sem helgan rétt að ferðast, fá að sjá nýja staði, kynnast mannlífi í öðrum landshlutum, í öðrum löndum og öðrum heimsálfum. Við eigum stjórnarskrárvarinn rétt til að koma saman og stunda viðskipti í krafti athafnafrelsis enda frjálsir borgarar. Þessi réttindi komu ekki af sjálfu sér, ekki fremur en mál- og prentfrelsi eða rétturinn til að ganga að kjörborði og velja án þvingana fulltrúa á löggjafarsamkomu og í sveitarstjórnir.
Margþættur vandi
Hæsta almannavarnarstigi – neyðarstigi – var lýst yfir 6. mars síðastliðinn vegna kórónuveirufaraldursins. Aðdragandinn var nokkur en undir lok janúar var ljóst að heimurinn stæði frammi fyrir alvarlegri heilbrigðisvá. Fyrsta smitið hér á landi greindist 28. febrúar. Að tillögu sóttvarnalæknis ákvað heilbrigðisráðherra 13. mars að virkja heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur í fjórar vikur frá miðnætti 15. mars. Þar með voru viðburðir þar sem fleiri en 100 manns komu saman bannaðir. Samhliða var skólahald takmarkað. Fjórum dögum síðar voru öll lönd skilgreind sem áhættusvæði. Öllum íslenskum ríkisborgurum og fólki með búsetu á Íslandi sem kom til landsins eftir dvöl erlendis var gert að sæta fjórtán daga sóttkví. Frá því í febrúar höfðu þeir sem komu til landsins frá ákveðnum áhættusvæðum (s.s. Norður-Ítalíu) þurft að fara í fjórtán daga sóttkví.
22. mars var talið nauðsynlegt að ganga enn lengra. Tveggja metra reglan var innleidd, ekki var leyft að fleiri en 20 manns kæmu saman hvort heldur í opinberum rýmum eða einkarýmum. Takmarkanir voru settar á fjölda viðskiptavina í verslunum o.s.frv. Sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, spilasölum, spilakössum og söfnum var lokað. Hið sama var gert varðandi starfsemi og þjónustu sem krefst mikillar nálægðar milli fólks, m.a. allt íþróttastarf og allar hárgreiðslustofur, snyrtistofur, nuddstofur og aðra sambærilega starfsemi.
Pólitísk ákvörðun
Í baráttunni gegn veirunni voru það sóttvarnarsjónarmið sem réðu ferðinni. Efnahagslegir þættir og mikilvæg borgaraleg réttindi voru sett í annað og þriðja sæti. Óhætt er að fullyrða að um þetta hafi verið ágæt sátt, jafnt meðal stjórnmálamanna og almennings. Það var pólitísk ákvörðun undir forystu ríkisstjórnarinnar sem lá að baki því að fylgja skyldi ströngum reglum sóttvarna til að verja heilbrigði landsmanna. Ábyrgðin hvílir ekki á herðum sóttvarnalæknis, landlæknis eða almannavarna. Ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar og a.m.k. þeirra þingmanna sem standa að baki hennar.
Aðgerðirnar skiluðu árangri. Hægt en örugglega voru stigin skref í að losa um hömlur, lífið var að færast í eðlilegar skorður og þau hjól sem höfðu stöðvast voru farin að snúast aftur. En svo kom bakslag. Stjórnvöld hafa aftur talið nauðsynlegt að ganga á réttindi borgaranna og þó í orði sé ferðafrelsi til og frá landinu er það í raun verulega skert. Við ákveðnar ástæður skal nota andlitsgrímur, fjöldatakmarkanir eru enn í gildi og tveggja metra nálægðarmörk eru meginregla. Atvinnufrelsi er skert.
Ákvörðun um takmörkun á athafnafrelsi er pólitísk en byggð á ráðleggingum sóttvarnayfirvalda. En hún hefur afleiðingar, sumar hverjar eru ófyrirséðar, ekki síst efnahagslega. Sú viðspyrna sem flestir vonuðust eftir næst ekki á næstu mánuðum og hún verður að líkindum ekki jafn kröftug og reiknað var með. Efnahagsleg gæði glatast og fjöldi einstaklinga mun missa atvinnuna. Fjárhagsleg staða ríkissjóðs versnar og bolmagn ríkisins til að veita nauðsynlega þjónustu veikist. Hið sama á við um sveitarfélög. Möguleikar fyrirtækja til að standa undir góðum launum, fjölga starfsmönnum, ráðast í ný verkefni verða takmarkaðir og í mörgum tilfellum engir. Sum sigla í strand.
„Frelsið glatast sjaldan allt í einu“
Þetta er sá efnahagslegi fórnarkostnaður sem er færður í baráttunni við veiruna. Félagslegur fórnarkostnaður samfara auknu atvinnuleysi og þar með verri almennri lýðheilsu verður seint metinn. Íslenskt samfélag hefur aldrei þolað félagslegan og efnahagslegan kostnað atvinnuleysis.
Efnahags- og félagslegur fórnarkostnaður er eitt, frelsisfórnin sem almenningur hefur fært er annað. Sem betur fer hafa íslensk stjórnvöld gætt meiri hófsemdar í þeim efnum en ríkisstjórnir margra annarra lýðræðisríkja.
„Frelsið glatast sjaldan allt í einu“ voru varnaðarorð skoska heimspekingsins David Hume. Tímabundnar aðgerðir sem skerða borgaraleg réttindi kunna að vera réttlætanlegar í nafni almannaöryggis. Slíkar ráðstafanir eru neyðaraðgerðir á tímum mikillar óvissu. En þegar stjórnvöld skerða frelsi einstaklinga meira en hálfu ári eftir að óvissustigi var lýst yfir hér á landi vegna kórónuveirunnar, þá dugar ekki lengur einföld tilvísun í lög um sóttvarnir. Heimildin verður að vera skýr og afdráttarlaus í lögum og hún fæst ekki án aðkomu löggjafans.
Kannski gefa ljóðlínur stjórnvöldum, þingmönnum og ekki síður einhverjum hagfræðingum innblástur. Erin Hanson, ljóðskáld frá Ástralíu, orti þegar hún var aðeins 18 ára:
Og þú spyrð; en ef ég hrapa?
Ó, mín kæra,
en ef þú flýgur?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. ágúst 2020.