Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:
Hertar aðgerðir vegna skimunar á landamærum hafa nú tekið gildi. Eins og fram hefur komið er ráðist í þær aðgerðir af illri nauðsyn og vonandi til skamms tíma. Við vitum þó að sá faraldur sem nú geisar mun ganga yfir í bylgjum og aðgerðirnar nú eru áminning um það.
Kórónuveiru-faraldurinn hefur valdið gífurlegu tjóni á heimsvísu, bæði félagslegu og efnahagslegu, frá því hann gerði vart við sig í byrjun árs. Við vitum ekki enn hversu miklu tjóni hann mun valda en það er þó ljóst að við munum þurfa að endurhugsa og endurmeta marga þætti samfélagsins til lengri tíma. Þar er allt undir, ekki síst ríkisfjármálin.
Við vorum, sem betur fer, vel í stakk búin til að takast á við djúpa niðursveiflu þökk sé ábyrgri hagstjórn síðustu ára. Það liggur þó fyrir að við þurfum að endurmeta hvort í senn, tekjumódel og útgjöld hins opinbera. Ríkissjóður þolir tímabundin áföll en það segir sig sjálft að við getum ekki aukið skuldir ríkisins út í hið óendanlega. Fyrr í þessari viku var greint frá því að skuldir ríkisins hefðu aukist um milljarð króna á dag frá því faraldurinn hófst.
Fram undan eru miklar áskoranir við að aðlaga útgjöld ríkisins breyttum veruleika. Það er verkefni sem bíður allra stjórnmálamanna. Aðgerðir ríkisins á undanförnum mánuðum fela í sér sértæk útgjöld til ýmissa verkefna í þeim tilgangi að milda höggið fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Flest þessara verkefna eru tímabundin og munu ein og sér ekki skaða stöðu ríkissjóðs til lengri tíma.
Aftur á móti mun veikari staða fyrirtækja og heimila veikja fjárhagsstöðu hins opinbera og rýra möguleika þess í að viðhalda öflugu velferðarkerfi, framsæknu menntakerfi, ráðast í innviðauppbyggingu og veita almenningi betri þjónustu. Fjármagn ríkisins vex ekki á trjánum heldur verður það til með dugnaði og framtakssemi einstaklinga og fyrirtækja sem á hverjum degi framleiða verðmæti fyrir samfélagið og fjármagna þannig fyrrnefnda þætti.
Ríkið getur eftir tilvikum reynt að milda höggið eins og gert hefur verið hér á landi. Til lengri tíma litið getur ríkið þó ekki skattlagt heimili og fyrirtæki í þeim tilgangi að bæta stöðu sína. Góður maður sagði eitt sinn að það að ætla að skattleggja sig út úr kreppu væri eins og standa ofan í fötu og reyna að lyfta henni upp. Vissulega einföld samlíking, en varpar þó mynd á þann vanda sem við stöndum öll frammi fyrir.
Eina ráðið til að tryggja sterka stöðu hins opinbera í fjárhagslegum skilningi er að ýta undir einstaklingsframtak, nýsköpun, valfrelsi og aðra þætti sem hvetja til framtakssemi og aukinnar verðmætasköpunar einkageirans. Við þurfum að tryggja að hagkerfið búi til ný störf og að Ísland sé samkeppnishæft við önnur ríki þannig að útflutningsgreinar okkar dafni.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. ágúst 2020.