Þurfum að skrúfa frá súrefninu
'}}

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Hægt og bít­andi verður mynd­in skýr­ari. Efna­hags­leg­ar af­leiðing­ar kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins eru for­dæma­laus­ar. Í lönd­um Evr­ópu­sam­bands­ins dróst lands­fram­leiðsla milli ára sam­an um 11,9% á öðrum árs­fjórðungi eft­ir 3,2% sam­drátt á þeim fyrsta. Þetta er mesti efna­hags­sam­drátt­ur í ára­tugi og miklu meiri en í eft­ir­leik fjár­málakrepp­unn­ar 2008.

En staðan er mis­jöfn. Verst er staðan á Spáni, Ítal­íu og í Frakklandi. En jafn­vel Þýska­land glím­ir við erfiðleika. Efna­hags­sam­drátt­ur hef­ur aldrei verið meiri í ein­um fjórðungi en apríl til júní síðastliðnum – yfir 10% miðað við sömu mánuði á síðasta ári. At­hygl­is­vert er að evru­rík­in glíma við meiri sam­drátt en önn­ur lönd. Sam­drátt­ur­inn er ekki aðeins meiri á evru­svæðinu held­ur eru rík­is­skuld­ir sem hlut­fall af lands­fram­leiðslu hærri. Evru­lönd­in glíma við meira at­vinnu­leysi en þau ríki Evr­ópu­sam­bands­ins sem standa utan við mynt­banda­lagið.

9,7% af heims­fram­leiðslunni glat­ast

Öll stærstu hag­kerfi heims­ins hafa orðið fyr­ir þungu höggi vegna Covid-19. Kína glím­ir við erfiðleika. Í fyrsta skipti frá því að hag­skýrslu­gerð hófst þar í landi minnkaði lands­fram­leiðsla á milli árs­fjórðunga. Janú­ar til mars var sam­drátt­ur­inn 6,8%. Kín­versk stjórn­völd hafa hins veg­ar gefið út að dæmið hafi snú­ist við og hag­vöxt­ur á öðrum fjórðungi hafi verið 3,2%. Hag­fræðing­ar hafa deilt á op­in­ber­ar hag­töl­ur kín­verskra stjórn­valda – segja þær ýkt­ar til að draga upp betri mynd af efna­hags­legri frammistöðu. En óháð slík­um deil­um reikn­ar Alþjóðabank­inn með að hag­vöxt­ur í Kína falli niður í 2% á þessu ári frá 6% á síðasta ári og jafn­vel verði vöxt­ur­inn eng­inn.

Í Banda­ríkj­un­um er staðan verri. Sam­drátt­ur­inn á öðrum árs­fjórðungi var tæp­lega 9,5%. Um 15 millj­ón­ir starfa hafa glat­ast í efna­hags­leg­um hremm­ing­um vegna Covid-19. Þjóðskrá Banda­ríkj­anna tel­ur að meira en helm­ing­ur heim­ila hafi orðið fyr­ir tekjum­issi. Hag­fræðing­ar vara við að það taki mörg ár að vinna upp þann skaða sem vírus­inn hef­ur valdið fyr­ir­tækj­um og heim­il­um.

Í Suður-Kór­eu féll lands­fram­leiðslan um 2,9% á öðrum árs­fjórðungi. Efna­hags­sam­drátt­ur­inn í Jap­an var 3,4% á fyrstu þrem­ur mánuðum árs­ins. Þannig er hægt að fara yfir heim­inn. Ekk­ert land kemst hjá því að tak­ast á við efna­hags­leg áföll vegna Covid.

Þró­un­ar­banki Asíu taldi í maí að efna­hags­leg­ur kostnaður heims­ins af Covid-19 gæti orðið allt að 8,8 bill­jón­ir doll­ara eða 9,7% af heims­fram­leiðslunni. Frá því að sér­fræðing­ar bank­ans lágu yfir töl­um hef­ur út­litið aðeins versnað. Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn [AGS] tel­ur að alþjóðleg­ur hag­vöxt­ur verði nei­kvæður um 4,9%. Sam­drátt­ur­inn verður mest­ur hjá iðnríkj­un­um eða 8% gangi spár sjóðsins eft­ir.

Góðu frétt­irn­ar eru þær að þreng­ing­arn­ar eru tíma­bundn­ar. Efna­hag­ur heims­ins ætti, að öðru óbreyttu, að fá góðan byr í segl­in á næsta ári. AGS spá­ir 5,9% hag­vexti. En hagspár eru brot­hætt­ar. Þró­ist heims­far­ald­ur­inn á verri veg hef­ur það nei­kvæð áhrif á bú­skap heims­ins. Það þarf ekki hag­fræðinga til að átta sig á því.

Sögu­leg­ur sam­drátt­ur

Í þjóðhags­spá sem birt var und­ir lok júní ger­ir Hag­stof­an ráð fyr­ir að lands­fram­leiðslan hér á landi drag­ist sam­an um 8,4% á þessu ári. Gangi spá­in eft­ir er þetta mesti sam­drátt­ur í lýðveld­is­sög­unni og þarf raun­ar að fara aft­ur til árs­ins 1920 til að finna verra dæmi. Sér­fræðing­ar Hag­stof­unn­ar reikna hins veg­ar með „snörp­um viðsnún­ingi á næsta ári og að vöxt­ur lands­fram­leiðslunn­ar verði 4,9%“ og að á næstu árum þar á eft­ir verði hag­vöxt­ur 2,5%-2,9%.

Af­leiðing­ar Covid á ís­lenskt efna­hags­líf eru í mörgu al­var­legri en hjá öðrum lönd­um og skipt­ir þar mestu hve mik­il­væg ferðaþjón­ust­an er orðin eft­ir ótrú­lega upp­bygg­ingu á síðustu árum. Aug­ljóst er að veru­leg­ur sam­drátt­ur verður í út­flutn­ingi vöru og þjón­ustu. Hag­stof­an býst við yfir 30% sam­drætti og þá mest í þjón­ustu­út­flutn­ingi ferðaþjón­ust­unn­ar. En einnig er reiknað með sam­drætti í út­flutn­ingi sjáv­ar­af­urða.

Í grein 15. apríl síðastliðinn bendi ég á að ekk­ert hag­kerfi fái staðist til lengri tíma ef komið er í veg fyr­ir efna­hags­lega starf­semi borg­ar­anna. Engu skipti hversu öfl­ugt og stórt hag­kerfið er. Und­ir­stöðurn­ar byrji hægt en ör­ugg­lega að molna – „vel­sæld breyt­ist í fá­tækt og ör­birgð, öfl­ugt heil­brigðis­kerfi brotn­ar niður, al­manna­trygg­ing­ar kom­ast í þrot“. Fylgi­fisk­ar efna­hags­legra þreng­inga eru póli­tísk­ur órói og sundr­ung.

Súr­efni í fjár­lög­um

Í flestu hafa aðgerðir ís­lenskra stjórn­valda verið áhrifa­rík­ar þótt á stund­um hafi tekið of lang­an tíma að hrinda þeim í fram­kvæmd að fullu. Fyr­ir því eru marg­ar ástæður – sum­ar kerf­is­læg­ar sem er áminn­ing um hve þung­lama­legt og svifa­seint reglu­vætt þjóðfé­lag er orðið.

En mark­mið ráðstaf­ana í efna­hags­mál­um – rík­is­fjár­mál­um og pen­inga­mál­um – hef­ur verið skýrt: Að verja fyr­ir­tæk­in og lífsaf­komu al­menn­ings. Líkt og ég benti á í apríl var gripið til rót­tækra aðgerða til að „koma okk­ur í gegn­um fyrsta leik­hluta af nokkr­um“.

Frétt­ir síðustu daga um að lík­lega sé seinni bylgja hins ill­víga víruss skoll­in á und­ir­strika enn frek­ar þá staðreynd að við vit­um ekki hversu lengi stríðið mun standa. Aug­ljóst er að stjórn­völd verða að grípa til enn frek­ari ráðstaf­ana til koma í veg fyr­ir að efna­hags­leg­ur skaði verði meiri.

Alþingi kem­ur sam­an síðar í mánuðinum til að af­greiða nýja fjár­mála­stefnu en 1. októ­ber kem­ur nýtt þing sam­an og þá legg­ur fjár­málaráðherra fram fjár­laga­frum­varp fyr­ir kom­andi ár. Eng­um dylst að rík­is­stjórn og þing­menn standa frammi fyr­ir vanda­sömu verk­efni og erfiðum ákvörðunum við fjár­laga­gerðina. En und­an þeim verður ekki vikist, þótt kosn­ing­ar séu eft­ir rúmt ár.

Það vit­laus­asta sem þingið get­ur gert við nú­ver­andi aðstæður er að freista þess að auka tekj­ur rík­is­ins með þyngri álög­um á fyr­ir­tæki og/​eða heim­ili. Í þeim leik tek ég ekki þátt. En að opna fyr­ir súr­efniskr­ana skatta og gjalda er ekki aðeins skyn­sam­leg leið held­ur arðbær fjár­fest­ing til framtíðar fyr­ir rík­is­sjóð og al­menn­ing. Tekju­grunn­ur rík­is og sveit­ar­fé­laga verður styrk­ari til lengri tíma og ráðstöf­un­ar­tekj­ur launa­fólks meiri. Þetta er ekki flókn­ara.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. ágúst 2020.