Vilhjálmur Árnason alþingismaður:
Sérkennileg þróun hefur orðið í samfélagsumræðu undanfarin ár. Þeir sem hafa lagt á sig mikla vinnu, fórnir og tekið áhættu með sparifé sitt við að byggja upp atvinnurekstur fá auðveldlega á sig glæpamannastimpil fyrir það að leysa út árangur erfiðisins og áhættunnar. Sérstaklega ef viðkomandi starfar í heilbrigðiskerfinu, sjávarútvegi eða í fjármálakerfinu.
Atvinnurekstur er undantekningarlaust settur á fót til að finna lausn á verkefni sem þarf að leysa, þjónustu sem þarf að veita eða bæta líf almennings með öðrum hætti. Einstaklingar eru drifnir af hugsjón fyrir því sem þá langar að starfa við og vænta þess að fá tekjur af atvinnurekstrinum til að framfleyta sér og fjölskyldu sinni.
Umfjöllun um þetta öfluga og mikilvæga fólk sem tekur þátt í atvinnurekstri er sjaldan um þau störf sem það skapar fyrir aðra til að fá tekjur til að reka sína fjölskyldu, þær lausnir sem atvinnureksturinn skapar við rekstur samfélagsins, fjárfestingarnar og annað sem styrkir samfélagið okkar.
Þá að glæpaatriðinu, arðgreiðslunum. Læknirinn sem hefur sett ævisparnaðinn í að setja upp öfluga læknisþjónustu og veita fjölda fólks lausn meina sinna leggur væntanlega af stað til að geta starfað við það sem hann hefur menntað sig til. Læknirinn leggur sig svo allan fram um að veita betri þjónustu en aðrir svo fólk vilji nýta þjónustu hans. Þannig fær hann tekjur til að framfleyta sinni fjölskyldu. Takist þetta verður vonandi til hagnaður. Áður hefur rekstur læknisins þó þurft að greiða virðisaukaskatt af ýmsu sem tengist rekstrinum, launatengd gjöld af launum hans sjálfs og starfsfólksins og önnur opinber gjöld. Skatttekjurnar eru einmitt það sem greiðir fyrir heilbrigðiskerfið, innviðauppbygginguna, örorku- og ellibætur, menntakerfið, lögregluna og allt annað sem fjármagnað er úr ríkissjóði og sveitarfélögum.
Til viðbótar þarf að greiða 20% tekjuskatt af hagnaðinum. Vilji viðkomandi svo greiða sér út arð þarf hann einnig að greiða 22% fjármagnstekjuskatt af arðgreiðslunni. Þessar skatttekjur nýtast í frekari uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Ef læknirinn getur starfað við sitt fag hér á landi og nýtir tekjur sínar í íslensku samfélagi koma enn frekari tekjur í ríkiskassann til að byggja upp heilbrigðiskerfið. Getum við ekki verið sammála um að öflugt atvinnulíf sem skilar hagnaði er grundvöllur uppbyggingar öflugs velferðarsamfélags?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. júlí 2020.