Vilhjálmur Bjarnason skrifar:
Lengi vel taldi ég að hugtakið nýfrjálshyggja væri heiti á einhverri grýlu, sem á það sameiginlegt með þeirri Grýlu, sem talin er starfa í desember, að vera ekki til.
Stundum er orðið »nýfrjálshyggja« haft um íhaldsfrjálshyggju, sem sameinar félagslega íhaldssemi hefðbundinnar íhaldsstefnu annars vegar og einstaklingshyggju, trú á frjálsan markað og takmörkuð ríkisafskipti hins vegar.
Það eru fyrst og fremst hugsjónamenn á vinstri væng stjórnmála sem hafa verið iðnir við að fjalla um »nýfrjálshyggju«. Það er ef til vill vegna grautarlegrar hugsunar vinstrimanna að fátt er hönd á festandi við að skilgreina »nýfrjálshyggju«. Þó má reyna að fara í kringum grautinn þegar íslensk verkalýðshreyfing vill breyta leikreglum á íslenskum vinnumarkaði.
Leikreglur á íslenskum vinnumarkaði
Leikreglur á íslenskum vinnumarkaði grundvallast á »Lögum um stéttarfélög og vinnudeilur« nr. 80/1938 með áorðnum breytingum. Í þeirri löggjöf er fjallað um rétt manna til þess að stofna stéttarfélög og stéttarfélagasambönd í þeim tilgangi að vinna sameiginlega að hagsmunamálum verkalýðsstéttarinnar og launtaka yfirleitt.
Í lögum þessum er hvergi getið um rétt atvinnurekenda til að stofna með sér félög eða samtök. Sá réttur stofnast með félagafrelsi stjórnarskrárinnar. Ekki verður séð að í fyrrnefndum lögum sé kveðið á um skyldusamningssamband verkalýðsfélaga og atvinnurekenda. Það samningssamband hefur þróast á liðinni öld með þeim hætti að komin eru forgangsákvæði í kjarasamninga, þrátt fyrir félagafrelsi stjórnarskrárinnar.
Komið getur til álita hvað gerist þegar samningar milli atvinnurekenda og launtaka takast ekki. Á það gat reynt í liðnum mánuði þegar ekki samdist með Icelandair og flugþjónustufólki.
Lögspekingar töldu að gildandi kjarasamningur væri fallinn úr gildi og réttarsambandi aðila lokið felldi annar hvor aðila tillögur um breytingar. Með því væri réttarsambandi kjarasamnings lokið og með því að öllu flugþjónustufólki hefði verið sagt upp og vinnuframlags ekki krafist væri ekki hægt að koma á vinnustöðvun.
Var uppsögn flugþjónustufólks þvingunaraðgerð eða viðbrögð við því að samningar tókust ekki?
Forysta ASÍ taldi að Icelandair hefði með uppsögn flugþjónustufólks farið gegn 4. grein áðurnefndra laga:
„Atvinnurekendum, verkstjórum og öðrum trúnaðarmönnum atvinnurekenda er óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum með:
- uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn,
- fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum.“
Það er langsótt túlkun að atvinnurekandi, sem rær lífróður, eigi þann kost einan að gera kjarasamning úr takti við samkeppnisaðila í sömu atvinnugrein og úr takti við til þessa ásættanleg innbyrðis launahlutföll innan fyrirtækisins.
Leikjafræði
Það er áhugavert að velta fyrir sér samskiptum aðila á vinnumarkaði í ljósi leikjafræðinnar. Leikjafræðin gefur fjórar hugsanlegar niðurstöður þegar A og B takast á;
Að A vinni og B farist
Að B vinni og að A farist
Að A og B hafi báðir ávinning
Að A og B farist báðir
Kjarasamningur sem er úr takti við það sem gerist hjá samkeppnisaðilum leiðir til þess að bæði A og B farast.
Hugsum sem svo að A sé flugrekandi. A býður starfskjör sem eru vel samkeppnisfær á íslenskum vinnumarkaði. Hugsum jafnframt svo að B, samtök flugþjónustufólks, hafni slíkum samningi. Hvað gerist þá í landi félagafrelsis og samningafrelsis? Þá ferst B, en annar aðili, C, lifnar við.
Ríkisvald á vinnumarkaði
Ekki er hægt krefjast þess að ríkisvaldið beiti sér gegn fyrirtækjum sem ekki fara að geðþótta og hugmyndafræði verkalýðsrekenda.
Hvar eru þá frjálsir samningar?
Hvað gerist ef þess verður krafist að ríkisvaldið fari gegn verkalýðsfélögum? Löggjafarvaldið hefur það hlutverk eitt að lögfesta almennar reglur á vinnumarkaði, en ekki að koma að vinnudeilum nema þegar deilendur eru komnir í þrot. Sú aðkoma verður á jafnræðisgrundvelli með gerðardómi.
Viðbrögð verkalýðshreyfingar í leikjafræði
Það er brenglun í nýfrjálshyggju verkalýðshreyfingarinnar.
Nýir verkalýðsrekendur virðast hafa sérstaka auðhyggju að leiðarljósi. Sem betur fer er íslensk verkalýðshreyfing ekki illa á vegi stödd fjárhagslega. En þá koma hótanir verkalýðsrekenda um að þeir muni beita auðmagni hreyfingarinnar, ekki sínu auðmagni, til þess að ná sínum persónulegu markmiðum. Verkalýðshreyfingin hefur auðsleikjur úr háskólasamfélagi og samfélagi misheppnaðra blaðasala í sinni þjónustu.
Tekið skal fram að verkalýðsrekendur eru kjörnir til forystu með mjög fáum atkvæðum í allsherjaratkvæðagreiðslum, og því ekki hægt að tala um sterkt lýðræðislegt umboð.
Verst er þó þegar verkalýðsrekendur vilja nota fjáreignir lífeyrissjóða í sínu valdaspili. Lífeyrissjóðir urðu til í frjálsum samningum verkalýðsfélaga og atvinnurekenda. Lífeyrissjóðir eru eign sjóðsfélaga en ekki verkalýðsrekenda. Löggjafinn hefur skapað ramma um starfsemi lífeyrissjóða með löggjöf. Lífeyrissjóðir hafa aðeins eitt markmið og tilgang; það er að tryggja sjóðsfélögum eftirlaun eftir að starfsævi lýkur.
Upplýst ákvörðun
Ef stjórn lífeyrissjóðs tekur ákvörðun um kaup á hlutabréfum er það vonandi upplýst ákvörðun á grundvelli gildandi löggjafar. Stjórnarmenn í lífeyrissjóðum eru aðeins bundnir af gildandi löggjöf og samþykktum lífeyrissjóðanna, sem eiga sér stoð í lögum.
Það að lífeyrissjóðir eigi að tryggja fulla atvinnu og lífeyrissjóðir hafi »siðferðilega skyldu« til að standa undir hagvexti er sambland af óskhyggju og brjálsemi.
Það kann að vera að stjórnarmenn lífeyrissjóða skapi sér persónulega bótaskyldu með því að fara gegn ákvæðum laga eða láta undan þrýstingi skuggastjórnenda.
Siðrof?
Siðrof er hugtak sem vísar til upplausnar samfélags þar sem samheldni og hefðbundið skipulag, sérstaklega það sem tengist viðmiðum og gildum, hefur veikst og við tekur lögleysa.
Margt í hugmyndafræði og gerðum nýfrjálshyggju verkalýðsrekenda hefur einkenni siðrofs og er ekki til að bæta kjör fólks á vinnumarkaði.
Það er dauðadómur verkalýðsfélags að fara í pólitískt framboð.
Hvað segir skáldið?
Skáldið Steinn Steinarr orti;
Já, viðsjált er hlutskipti velstæðra manna,
og von er að margur upp hafi flosnað,
þegar ræflarnir lifa og ræflarnir deyja
og jarðast á þeirra kostnað.
Grein þessi birtist fyrst í Morgunblaðinu, þann 30. júlí 2020.