Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:
Borgarstjórinn í Reykjavík er enn við sama heygarðshornið sem ég gerði reyndar að umtalsefni í grein í Morgunblaðinu 10. júní sl.: Hann ætlar sér að koma Reykjavíkurflugvelli úr Vatnsmýrinni með góðu eða illu.
Þráhyggja borgarstjóra í boði skattgreiðenda
Borgarstjórinn veit, jafnvel og við hin, að nái hann þessu markmiði sínu, munu skattgreiðendur þurfa að byggja nýjan flugvöll sem mun kosta þá einhvers staðar á bilinu 300 til 400 milljarða króna, eða sem nemur 5 nýjum Landspítölum, þ.e.a.s. ef heppilegt flugvallarsvæði finnst í nágrenni höfuðborgarinnar, sem er engan veginn sjálfgefið.
Í greininni nefndi ég nokkur dæmi um hvernig borgarstjórnarmeirihlutinn hefur lagt flugvöllinn í einelti á undanförnum árum, vegna þessa markmiðs. Í rauninni er hvert og eitt þeirra dæma sem ég tók í greininni, efni í kennslubók um það hvernig ekki á að beita stjórnvaldi gegn hagsmunum og vilja þegnanna: ekki pukrast með skipulagsáform, ekki beita fordæmalausum stjórnsýsluafbrigðum, ekki hafa í alvarlegum hótunum við fyrirtæki, ríkisvaldið og íslenskt samfélag í heild, ekki grípa til ósanninda og villandi umsagna og ekki brjóta samninga.
Nýtt skipulag fjórfaldar íbúafjölda Skerjafjarðar
Hugum að nýjustu aðförinni að flugvellinum sem jafnframt er aðför að íbúum Skerjafjarðar, sunnan flugbrautar. Það eru áform meirihlutans um að byggja 3.250 manna íbúðabyggð á suðvesturenda Neyðarbrautarinnar, austur af núverandi 800 íbúa byggð í Skerjafirði. Enn hefur ekki verið samþykkt deiliskipulag fyrir þessi áform en á síðasta borgarráðsfundi var samþykkt að setja slíkt deiliskipulag í auglýsingu. Þessi skipulagsáform eru fáránleg og verða með engu móti skilin nema í samhengi við flugvallarfóbíu borgarstjórans.
Í Aðalskipulaginu 2001-2024 sem tók gildi 2003 var gert ráð fyrir tæplega 700 manna byggð í 275 íbúðum, á 11 hektara svæði á þessum slóðum. Sú byggð varð aldrei að veruleika og þáverandi forstöðumaður Borgarskipulagsins lét hafa eftir sér að svo mikil fjölgun íbúa í Skerjafirði myndi sprengja allar umferðarforsendur.
Mun fjórföldun íbúa tvöfalda umferð?
Nú er hins vegar gert ráð fyrir 3250 manna byggð þarna, í 1300 íbúðum á 23 hektara svæði. Hafi einhver áhyggjur af því að slík íbúafjölgun sprengi umferðarforsendur getur sá hinn sami huggað sig við það að borgarstjórnarmeirihlutinn hefur látið sérhanna „umferðakönnun“ sem kemst að þeirri „niðurstöðu“ að ef íbúafjöldi Skerjafjarðar fjórfaldast, mun umferð um Suðurgötu og Einarsnes aukast úr 2800 ökutækjum á sólarhring í 6100 ökutæki. Að vísu segir almenn skynsemi okkur að ef íbúafjöldinn fjórfaldast, þá fjórfaldist jafnframt fjöldi ökutækja inn og út úr hverfinu, úr 2800 ökutækjum í 13.200. En borgarstjórnarmeirihlutanum er flest betur gefið en brjóstvitið og hefur hingað til ekki haft áhyggjur af því að fólk komist leiðar sinnar innan borgarmarkanna.
Nýtt íbúðahverfi – sömu bellibrögðin
Þegar kemur að vinnubrögðum við þessi skipulagsáform hefur meirihlutinn engu gleymt og ekkert lært: Pukrið felst m.a. í því að velja hásumarleyfistíma í að auglýsa skipulagið í því skyni að sem fæstir verði þess varir. Auk þess hefur ekkert samráð verið haft við núverandi íbúa Skerjafjarðar. Furðuleg stjórnsýsluafbrigði felast m.a. í því að lóðir voru auglýstar á þessu svæði án þess að samþykkt deiliskipulag lægi fyrir. Slík stjórnsýsla brýtur í bága við anda skipulagslaga og er án fordæma. Flugfélaginu Erni var hótað að lagður yrði vegur í gegnum flugvélaverkstæði þeirra, án þess að þeim yrðu greiddar skaðabætur, og með því að flýta þessum framkvæmdum eins og kostur er, án viðeigandi rannsókna, eru borgaryfirvöld að brjóta samning sem þau gerðu við ríkisvaldið sl. haust, um að borgaryfirvöld létu Reykjavíkurflugvöll í friði meðan verið væri að huga að hugsanlegu nýju flugvallarsvæði.
Þvermóðskan hafnar faglegum vinnubrögðum
Öll vinnubrögð við þetta skipulag eru vísbendingar um þá þráhyggju sem einkennir afstöðu borgarstjórans til flugvallarins. Það sem einna best afhjúpar ásetninginn að baki þessu brambolti er fælni borgaryfirvalda gagnvart óháðum, faglegum rannsóknum: Ekki liggur fyrir heildstæð umferðargreining vegna þessa skipulags. Vegagerðin hefur óskað eftir samgöngumati sem enn hefur ekki farið fram. Umhverfismati er engan veginn lokið en það er grundvallar forsenda fyrir skynsamlegu skipulagi svæðisins, ekki síst vegna óvenju mengaðs jarðvegs. Náttúrufræðistofnun er auk þess að íhuga friðun á strandlengjunni við Skerjafjörð þar sem skipulagið gerir ráð fyrir landfyllingum. Loks hefur Isavia gengið frá samningi við hollensku loft- og geimferðastofnunina um að gera faglega úttekt á áhrifum þessarar fyrirhuguðu byggðar á flugöryggi. Þeirri úttekt er ólokið. Niðurstöður þessara óháðu rannsókna mega að sjálfsögðu ekki líta dagsins ljós áður en deiliskipulagið er afgreitt til auglýsingar, enda getur borgarstjóri ekki pantað niðurstöðurnar frá þessum óháðu aðilum. Langavitleysan heldur því áfram með öllu sínu pukri, fordæmalausri stjórnsýslu, hótunum, ósannindum og samningsbrotum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. júlí 2020.