Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Fundum Alþingis var frestað kl. 2.36 aðfaranótt þriðjudags, eftir langar og strangar atkvæðagreiðslur um tugi frumvarpa og þingsályktunartillagna. Ætlunin er að þingfundir hefjist að nýju 27. ágúst næstkomandi og þá til að afgreiða nýja fjármálaáætlun sem mun bera þess merki að þjóðarbúið hefur orðið fyrir alvarlegum áföllum á síðustu mánuðum. Sú staðreynd kemur líklega ekki í veg fyrir dýr yfirboð á komandi kosningavetri. Þá verða loforð gefin um að gera allt fyrir alla, á kostnað einhverra annarra.
Þingveturinn var um margt sérkennilegur enda aðstæður óvenjulegar vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Ríkisstjórn og Alþingi báru gæfu til þess að taka höndum saman í aðgerðum til að sporna við efnahagslegum afleiðingum kórónuveirunnar. Fumlaus viðbrögð Seðlabankans hafa einnig skipt miklu í að milda óhjákvæmilegt efnahagslegt högg.
Þarf að bjarga uppskerunni?
Við sem njótum þeirra forréttinda að sitja á Alþingi, erum ekki sammála um allt (sem betur fer), þótt við getum einnig verið samstiga í mörgu. Við notum mismunandi mælistikur í flestu, ekki síst þegar við reynum að meta eigin störf. Margir eru því hreyknari sem afköstin eru meiri; afkastamikið þing er í hugum þeirra gott þing. Fjöldi frumvarpa og þingsályktunartillagna sem þingið samþykkir er mælikvarðinn. Þannig verður efnislegt innihald að aukaatriði og vangaveltum um hvaða áhrif ný lög hafa á heimili og fyrirtæki er ýtt til hliðar. Þegar magnið skiptir mestu verða áhyggjur af samkeppnishæfni atvinnulífsins, möguleikum þess til að standa undir góðum launum eða skilvirkni í ríkisrekstri, fjarlægar – næstum óskiljanlegar.
„Við þurfum að koma uppskerunni í hús,“ er leiðandi í verkum þeirra sem telja mestu skipta að afgreiða sem flest mál, ekki síst þau sem nefndir þingsins hafa tekið til umfjöllunar. Í sakleysi mínu hef ég bent á að hugsanlegt sé að hluti uppskerunnar sé ónýtur og geti því skemmt það sem þegar er komið í hlöðurnar. Sum mál – frumvörp ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu – eru einfaldlega þannig að hvorki himinn né jörð farast þótt þau dagi uppi og verði aldrei afgreidd (a.m.k. ekki óbreytt).
Ég hef vakið athygli á því að innbyggður hvati til að afgreiða lagafrumvörp og ályktanir sé öflugri en virðist við fyrstu sýn. Þetta á sérstaklega við um ráðherra. Það er hreinlega ætlast til þess að hver og einn ráðherra leggi fjölda frumvarpa fram á hverjum einasta þingvetri, líkt og það sé heilög skylda að breyta lögum þótt ekkert kalli á slíkt. Ráðherrar eru vegnir og metnir, – af þingmönnum og fjölmiðlum – út frá fjölda en ekki gæðum lagafrumvarpa sem þeir leggja fram.
Einföldun og lækkun
Þegar litið er yfir þingveturinn verður að játa að frelsismálin voru ekki fyrirferðarmikil. En það voru nokkur mikilvæg skref stigin í rétta átt.
Undir forystu Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Kristján Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, var regluverk einfaldað. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra beitti sér fyrir afnámi ýmissa úreltra laga. Þannig voru leikreglurnar gerðar einfaldari og skýrari.
Það tókst að tryggja lækkun tekjuskatts einstaklinga og tryggja enn frekari lækkun í upphafi komandi árs. Tryggingagjaldið var lækkað annað árið í röð. Frá því að Sjálfstæðisflokkurinn tók sæti í ríkisstjórn hefur gjaldið lækkað um liðlega 17% (úr 7,69% í 6,35%) en er enn of hátt.
Styrkari stoðum hefur verið skotið undir rannsóknir, þróun og nýsköpun með skattalegum hvötum. Þannig hefur Þórdís Kolbrún rutt braut inn í framtíðina fyrir íslenskt samfélag.
Á lokadegi þingsins voru breytingar á samkeppnislögum samþykktar. Með því eykst skilvirkni Samkeppniseftirlitsins en um leið er umhverfi fyrirtækja og þá fyrst og síðast lítilla og meðalstórra, gert einfaldara. Til framtíðar er því byggt undir samkeppni ólíkt því sem úrtölufólk á þingi heldur fram. Og það mun auka samkeppnishæfni Íslands sem því miður hefur versnað samkvæmt úttekt IMD viðskiptaháskólans á samkeppnishæfni ríkja. Ísland er í 21. sæti á milli Kína og Nýja-Sjálands. Einn af alvarlegustu veikleikum Íslands er óskilvik samkeppnislöggjöf. Þar erum við eftirbátar flestra viðskiptaþjóða okkar í 42. sæti.
Frelsismálin kalla á þolinmæði
Frelsismálin eru lítil og stór en eiga oft erfitt uppdráttar. Því hefur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra fengið að kynnast. Hugmyndir hennar um að koma á jafnræði milli innlendra og erlendra fyrirtækja í verslun hafa ekki fengið brautargengi innan ríkisstjórnarinnar. Því þurfa þeir Íslendingar, sem vilja kaupa áfengi í netverslun, enn um sinn að sætta sig við að eiga viðskipti við erlenda aðila, en ekki íslenska.
Múrar forræðishyggjunnar eru sterkir og brotna ekki af sjálfu sér. Áralöng barátta þingmanna Sjálfstæðisflokksins fyrir afnámi ríkiseinokunar á öldum ljósvakans skilaði loks árangri árið 1985, þegar það tókst að tryggja meirihluta á Alþingi fyrir frelsi sem allir taka sem sjálfsögðum og eðlilegum hlut. Enginn þingmaður vinstri flokkanna, sem þá áttu fulltrúa á þingi, veitti frelsinu brautargengi. Miðjan klofnaði og aðeins einn flokkur stóð einhuga með frelsinu; Sjálfstæðisflokkurinn.
Forræðishyggjan lét ekki undan fyrr en í fulla hnefana þegar einokun ríkisins á fjarskiptamarkaði var brotin á bak aftur. Leyfi til að selja áfengan bjór, en ekki aðeins sterkt áfengi og léttvín, fékkst ekki án baráttu. Það var ekki sjálfgefið að möguleikar ungs fólks til menntunar urðu fjölbreyttari með auknu svigrúmi einkaaðila innan menntakerfisins, allt frá leikskólum til háskóla. Fjölbreyttara rekstrarform og betri þjónusta heilbrigðiskerfisins varð ekki til af sjálfu sér heldur var jarðvegurinn plægður af ráðherrum og þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.
Sagan kennir að þolinmæði skilar árangri í baráttu fyrir auknu frelsi einstaklinga. Stefnufesta er nauðsynleg, en þolinmæði og úthald þarf til að vinna að framgangi hugsjóna. Á stundum er betra að stíga lítið skref (jafnvel hænufet) í rétta átt en reyna að komast á leiðarenda í „sjömílnaskóm“ en festast í djúpu skófari tregðulögmálsins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. júlí 2020.