Óviðunandi refsiauki

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Sam­kvæmt ný­leg­um rann­sókn­um er end­ur­komutíðni í ís­lensk fang­elsi um 20% og er hún með því lægsta sem þekk­ist á Norður­lönd­um. Mik­il upp­bygg­ing hef­ur átt sér stað í fang­elsis­kerf­inu. Eigi að síður er staðan sú að fang­els­in hafa ekki getað sinnt fulln­ustu allra dæmdra fang­els­is­refs­inga og var­arefs­inga. Í apríl á þessu ári voru 638 ein­stak­ling­ar á boðun­arlista Fang­els­is­mála­stofn­un­ar og yfir 30 dóm­ar gætu fyrnst á ár­inu.

Tím­inn sem líður frá því dóm­ur fell­ur og þar til afplán­un hefst var að meðaltali nær 17 mánuðir á síðasta ári. Dómþolar hafa þurft að bíða í allt að þrjú ár þar til þeir geta hafið afplán­un. Þessi staða er óviðun­andi.

Í ljósi fram­an­greinds skipaði ég sér­stak­an starfs­hóp til að fara yfir þessi mál og koma með til­lög­ur til úr­bóta. Vinna hóps­ins skilaði sér í vandaðri skýrslu þar sem grunn­ur er lagður að leiðum til lausn­ar vand­ans. Á grund­velli vinnu starf­hóps­ins hef ég því ákveðið að hefja úr­bæt­ur sem leiða eiga til þess að hægt sé að stytta boðun­arlista.

Flest­um er þung­bært að vera dæmd­ir til refs­ing­ar. Þegar við bæt­ist lang­ur biðtími eft­ir því að greiða skuld sína við þjóðfé­lagið er ekki hægt að líta á það öðru­vísi en sem refsiauka. Biðin veld­ur auknu álagi, ang­ist og kvíða, ekki aðeins hjá dómþola sjálf­um held­ur einnig þeim sem næst hon­um standa. Marg­ir hafa jafn­vel snúið af þeirri braut sem leiddi til hinn­ar refsi­verðu hátt­semi, jafn­vel náð bata frá áfeng­is- og vímu­efna­neyslu og stofnað fjöl­skyldu þegar þeim er loks gert að hefja afplán­un dóms.

Refs­ing­ar eru ekki ein­falt mál og sí­fellt umræðuefni hversu þung­ar þær eigi að vera. Í fræðilegri umræðu um til­gang og eðli refs­inga koma fyr­ir hug­tök eins og rétt­læti, betr­un og varn­araðrá­hrif refs­inga. Á síðari árum hef­ur betr­un­ar­hug­takið fengið æ meira vægi og áhersl­an í fang­els­is­mál­um lotið að því að þeir sem víkja af vegi dyggðar­inn­ar læri af mis­tök­um sín­um og end­ur­taki ekki brot sín.

Í til­lög­um starfs­hóps­ins er öðru frem­ur horft til væg­ari brota sem leiða af sér skemmri fang­els­is­dóma. Þau úrræði sem boðuð eru lúta að því að styðja þá sem dæmd­ir hafa verið til þess að byggja sig upp á ný.

Auk­in sam­fé­lagsþjón­usta, reynslu­lausn og sáttamiðlun eru meðal þeirra leiða sem hægt er að nýta til að stytta boðun­arlista. Sáttamiðlun­in er dæmi um áhuga­verða leið til þess að þeir sem hafa brotið af sér horf­ist í augu við brot sitt og af­leiðing­ar þess og geti náð sátt við brotaþola án þess að til hefðbund­inn­ar refs­ing­ar komi. Slíkt verður þó ávallt háð vilja þess sem brotið var á.

Með skyn­sam­leg­um lausn­um er hægt að spara, bæði í rétt­ar­kerf­inu og fang­els­is­mál­um. Tryggja mannúðlega nálg­un gagn­vart brota­mönn­um án þess að slakað sé á kröf­um okk­ar um að hver og einn taki af­leiðing­um gjörða sinna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. júlí 2020.