Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Útgjaldasinnar hugsa með hryllingi til þess að róttæk uppstokkun verði á skipulagi ríkisins. Hagræðing og endurskipulagning ríkisrekstrar veldur útgjaldasinnum (sem finnast í flestum stjórnmálaflokkum) pólitískri ógleði. Kannski er það skiljanlegt þegar haft er í huga að þeir trúa því að hægt sé að leysa flest vandamál samfélagsins með auknum útgjöldum. Ekkert vandamál er svo lítið eða stórt að ekki sé hægt að leysa það með því að opna fjárhirslur ríkisins betur. Ef þær reynast tómar er alltaf hægt að gefa út víxla á framtíðina – velta kostnaðinum yfir á komandi kynslóðir.
Tímabundnar efnahagsþrengingar vegna kórónuveirunnar breyta lífsviðhorfi útgjaldasinna í engu. Ef eitthvað er styrkjast þeir í trúnni á áhrifamátt síhækkandi útgjalda og umsvifa ríkisins. Útgjaldasinnar eru samkvæmir sjálfum sér í a.m.k. einu: Þeir eru skattaglaðari en aðrir – alltaf tilbúnir með tillögur um auknar álögur á fyrirtæki og heimili. Og hvernig má annað vera?
Skattaglaðir útgjaldasinnar telja sig vita að ríkið sé upphaf og endir flestra lífsgæða. Aukin umsvif ríkisins og annarra opinberra aðila eru því ekki aðeins æskileg heldur beinlínis nauðsynlegt markmið til að auka velsæld.
Í velferðarríki skattaglaðra útgjaldasinna skiptir stærð þjóðarkökunnar (landsframleiðslunnar) ekki mestu heldur hversu stóra skeið hið opinbera sker af henni og tekur til sín. Í hugarheimi þeirra er velferðin meiri þegar sneið ríkis og sveitarfélaga er 50% af 2.000 milljarða þjóðarköku en ef hún er 40% af 3.000 milljörðum. Engu skiptir þótt minni sneiðin sé í raun 200 milljörðum stærri. Hlutfallsleg stærð ríkissamneyslunnar skiptir mestu en ekki verðmæti kökusneiðarinnar.
Það á því ekki að koma á óvart að meiri áhersla sé lögð á að stækka sneið hins opinbera af þjóðarkökunni en að baka stærri köku – auka landsframleiðsluna – tryggja meiri verðmætasköpun.
Harðari átök
Hér skal því haldið fram að pólitísk átök – markalínur stjórnmálanna – muni á komandi árum fyrst og síðast snúast um viðhorf útgjaldasinna og talsmanna aðhalds í opinberum fjármálum – milli skattagleðinnar og hófsemdar í álögum á fyrirtæki og heimili. Þessi átök hafa alltaf verið til staðar en flest bendir til að þau harðni í aðdraganda kosninga á komandi ári og í eftirleik þeirra.
Í einfaldleika sínum er hægt að segja að tekist verði á um þjóðfélagsgerðina – um lífskjör almennings til langrar framtíðar.
Við sem stöndum andspænis skattaglöðum útgjaldasinnum og viljum stíga á útgjaldabremsuna höfum átt í vök að verjast. Við glímum við andstæðinga sem njóta dyggs stuðnings sérhagsmuna sem telja hagsmunum sínum best borgið með að kerfið þenjist út – að hlutfallslega kökusneiðin sé stærri þótt kakan sjálf kunni að vera minni.
Það þarf sterk bein og pólitískt þrek til að standast þann þrýsting sem gæslumenn sérhagsmuna beita. Og þrýstingurinn kemur ekki síst frá þeim sem betur eru settir í samfélaginu. Þeir sem lakast eru settir eru ekki háværastir. Hófsemd í kröfugerð um aukin útgjöld fer ekki eftir fjárhagsstöðu.
Áskorun Sjálfstæðisflokksins
Það skiptir miklu að stjórnmálamenn og -flokkar sem berjast fyrir hagkvæmari ríkisrekstri og nýtingu almannafjár nái kjósendum (skattgreiðendum) á sitt band. Færa verður rök fyrir því hvernig hagræðing í ríkisrekstri sé vörn íslenska velferðarkerfisins til lengri tíma, gefi möguleika á að efla menntakerfið, byggja undir löggæslu og styrkja byggðir landsins með góðum samgöngum. Aukin skilvirkni miðar að því að hið opinbera þjóni betur einstaklingum og fyrirtækjum. Kjósendur verða að sannfærast um að einfaldara stjórnkerfi ríkisins lækki kostnað heimila og fyrirtækja og auki tekjur ríkisins til lengri tíma samhliða því sem ráðstöfunartekjur heimilanna hækka.
Áskorun Sjálfstæðisflokksins er í senn einföld og erfið: Að leiða endurskipulagningu á fjárhag og rekstri ríkisins, skapa lífvænlegt umhverfi fyrir verðmætasköpun og frjálst atvinnulíf. Aðeins þannig verða lífskjör almennings bætt og búið í haginn fyrir komandi kynslóðir.
Verkefnið er tvíþætt. Annars vegar að auka tekjurnar með því að örva atvinnulífið — hleypa nýju súrefni inn í fyrirtækin með lægri sköttum og einfaldara regluverki (stækka þjóðarkökuna). Og hins vegar að hagræða í rekstri ríkisins, skera upp stjórnsýsluna og straumlínulaga, samhliða því sem reksturinn er endurskipulagður (minnka sneiðina hlutfallslega).
Við ætlum sem sagt að fá meiri og betri þjónustu fyrir hverja krónu sem fer út í ríkissjóði. Uppstokkun ríkisrekstrar felur ekki aðeins í sér að forgangsraða útgjöldum og tryggja hagkvæma nýtingu fjárveitinga, heldur ekki síður betri nýtingu ríkiseigna m.a. með því að umbreyta eignum í félagslega og hagræna innviði. Hagsmunum almennings og fyrirtækja er t.d. betur borgið með því að nýta fjármuni í umfangsmiklar umbætur í samgöngum en að binda þá í fjármálafyrirtækjum eða flugstöð. Þannig er ríkið betur í stakk búið til að sinna grunnskyldum sínum af kostgæfni.
Gegn öllum hugmyndum af þessu tagi standa skattaglaðir útgjaldasinnar – og þeir munu beita þeim vopnum sem þeim hugnast.
Það mun reyna á pólitísk þrek sjálfstæðismanna að standa gegn háværum kröfum um aukin útgjöld og hærri skatta. Í pólitískri glímu er mikilvægt að menn „þori að hugsa sjálfstætt, fylgja hugsun sinni eftir og átti sig á því, að fátt næst fyrirhafnarlaust“, svo vitnað sé í orð Bjarna heitins Benediktssonar þegar 25 ára afmæli lýðveldisins var fagnað. Sjálfstæðismenn mæta áskorunum komandi missera og ára best með þessi orð í huga.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. júní 2020.