Haraldur Benediktsson er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og bóndi, af bændum kominn langt aftur í landnám. Fjölskylda hans hefur í meira en heila öld rekið myndarlegt bú á Vestri-Reyni í Hvalfjarðarsveit. Haraldur eða Halli, eins og hann er jafnan kallaður, segist í viðtali í Pólitíkinni fá bestu hugmyndirnar og skrifa í huganum bestu ræðurnar þegar hann er við mjaltir. Þáttinn má hlusta á hér.
Haraldur, sem er búfræðingur að mennt, starfaði um tíma við Bændaskólann á Hvanneyri, eins og skólinn hét þá. Haraldur hefur lengi unnið að málefnum landbúnaðarins. Hann var formaður Búnaðarsamtaka Vesturlands og síðar Bændasamtaka Íslands. Haraldur segir að sjaldan hafi verið önnur eins gróska og hugmyndaauðgi í landbúnaðinum og landbúnaðarkerfið verið að laga sig að nýjum tímum.
Árið 2013 var Haraldur kjörinn alþingismaður og hefur starfað í atvinnuveganefnd, fjárlaganefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Norðvesturkjördæmi á átta þingmenn og er fámennasta kjördæmið þrátt fyrir að vera landfræðilega séð mjög stórt. Kjördæmið varð til þegar gömlu kjördæmin Vesturland, Vestfirðir og Norðurland vestra voru sameinuð með nýrri kjördæmaskipan árið 2003, með þeirri undantekningu að Siglufjörður færðist yfir í Norðausturkjördæmi.