Ný sýn á þróun ferðaþjónustunnar
'}}

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Þetta óvenjulega sumar gefur okkur tækifæri til að upplifa ferðalag um fallega landið okkar eins og við gerðum fyrir mörgum árum, þegar erlendir ferðamenn voru margfalt færri en undanfarin ár. Sú reynsla gæti opnað augu okkar fyrir ýmsum hliðum uppgangs ferðaþjónustunnar og gefið okkur nýja sýn á hann.

Jákvæður vöxtur ferðaþjónustunnar

Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur að mínu mati haft mun fleiri jákvæðar hliðar en neikvæðar. Hann hefur skapað mikla atvinnu, miklar tekjur fyrir ríkissjóð og mikla grósku í þjónustu og afþreyingu víða um landið. Á heildina litið hefur vöxtur ferðaþjónustunnar þannig stuðlað að bættum lífskjörum og lífsgæðum landsmanna.

Skiljanlega hefur okkur stundum fundist nóg um fjölda gesta á allra vinsælustu stöðum landsins en það hefur að mestu leyti verið bundið við örfáa staði á Suður- og Vesturlandi.

Enginn veit hvað átt hefur …

Það er óvenjulegt og að vissu leyti eftirsóknarvert að fá núna tækifæri til þess að upplifa vinsæla staði á borð við Þingvelli, Geysi og Jökulsárlón í fámenni.

En þó að við fáum núna tækifæri til þess, sem mörgum finnst kannski kærkomið, þá er ekki ólíklegt að við munum á ferðum okkar um landið í ár líka sakna þess sem fjölgun ferðamanna gaf okkur og við höfum ekki lengur. Hversu mörg hótel og gististaðir verða lokuð þegar við knýjum þar dyra? Hversu margir veitingastaðir verða ekki lengur starfandi, sem við hugðumst heimsækja og njóta? Hvaða afþreying verður ekki lengur í boði af því að ferðamönnum hefur fækkað?

Við skulum hugleiða þessa hlið málsins, um leið og við njótum líka þess góða sem fylgir því að vera nær því en í einhverja áratugi að hafa Ísland út af fyrir okkur.

Stefna okkar í ferðaþjónustu

Að undanförnu hef ég í tvígang séð málsmetandi fólk halda því fram að við höfum ekki stefnu í ferðamálum. Það er af og frá.

Við erum nú á síðasta ári fimm ára aðgerðaáætlunarinnar sem nefnd var Vegvísir í ferðaþjónustu. Vegvísirinn hefur varðað götu okkar á fáheyrðu vaxtarskeiði í greininni og leitt af sér margvíslegar framfarir.

Síðastliðið sumar kynntum við það sem tekur við af Vegvísinum: sameiginlega framtíðarsýn stjórnvalda og atvinnugreinarinnar til ársins 2030 undir heitinu „Leiðandi í sjálfbærri þróun“, ásamt 12 skýrum leiðarljósum sem styðja framtíðarsýnina og tölusettum markmiðum um lykilþætti. Aðgerðaáætlun á þessum sterka grunni er í mótun.

Um svipað leyti kynnti ég Jafnvægisás ferðamála sem er viðamikið mat á því álagi sem ferðaþjónustan veldur á fjölmarga lykilþætti sjálfbærni í okkar samfélagi, umhverfi og efnahag. Mín sýn er að Jafnvægisásinn verði mikilvægt stjórntæki en við þurfum að sjálfsögðu að þróa hann áfram og betrumbæta.

Stefnuna lesum við ekki bara í plöggum og glærukynningum því að hún birtist okkur líka í fjölda aðgerða og stefnumarkandi yfirlýsinga bæði stjórnvalda, sveitarstjórna og greinarinnar sjálfrar. Við höfum gert stórátak í uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum, stórbætt ástandsmat einstakra áfangastaða út frá náttúrufari, markað nýja stefnu um markaðssetningu landsins í samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs á vettvangi Íslandsstofu, hafið gjaldtöku fyrir bílastæði í þjóðgörðum og almennt heimilað hana í dreifbýli, og stigið fyrstu skrefin í afgerandi stýringu á takmörkuðu svigrúmi til atvinnurekstrar, samanber Silfru. Allt er þetta stefna. Ég hef sagt frá upphafi að við eigum ekki að einblína á fjölda gesta. Það er stefna. Ég hef sagt frá upphafi að við eigum ekki að einblína á opinbera gjaldtöku. Það er stefna. Ég hef ekki orðið við óskum sumra um að takmarka notkun á starfsheitinu „leiðsögumaður“. Það er stefna. Ég hef aukið fjárstuðning við SafeTravel-verkefnið. Það er stefna. Þannig mætti lengi telja.

Stefna í ferðamálum verður aldrei afgreidd í eitt skipti fyrir öll því nýjar áskoranir munu stöðugt knýja á. Og síðast en ekki síst: Öll lönd, líka þau sem þykja fyrirmyndir annarra í stefnumótun ferðaþjónustunnar, glíma engu að síður við mjög sambærilegar áskoranir og við.

Jarðvegur fyrir stýringu

Sum stefnumál þurfa að fá að gerjast í töluverðan tíma áður en skynsamlegt er að hrinda þeim í framkvæmd. Ég hef lengi talað fyrir aukinni stýringu í ferðaþjónustu þar sem færa má rök fyrir henni út frá annað hvort sanngirnis- eða álagssjónarmiðum. Ég finn fyrir auknum stuðningi við slíkar ráðstafanir, jafnvel ákalli um þær. Álagsstýring er einmitt eitt af tólf sameiginlegum leiðarljósum stjórnvalda og ferðaþjónustunnar sem við kynntum á liðnu ári.

Mér finnst það mikið heilbrigðismerki að framtíðarsýnin og leiðarljósin sem við kynntum síðastliðið sumar halda að fullu gildi sínu þrátt fyrir kórónuveiru-áfallið. Við skiptum því ekki um kúrs vegna þessara atburða en þeir kunna að gefa okkur nýja sýn á leiðirnar að markinu.

Greinin birtist fyrst í sunnudagsblaði Morgunblaðins 31. maí 2020.