„Skal sókn í huga hafin“
'}}

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Í ræðu minni á Iðnþingi fyr­ir tveim­ur árum velti ég upp þeirri spurn­ingu hvort við lifðum mögu­lega svipaða tíma og Stef­an Zweig lýs­ir svo vel í bók sinni „Ver­öld sem var“, þar sem hann fjall­ar um Evr­ópu um alda­mót­in 1900 og bjart­sýn­ina sem þá ríkti um frið og óstöðvandi fram­far­ir.

Gull­öld ör­ygg­is­ins

Þetta var „gull­öld“ ör­ygg­is­ins, seg­ir Zweig. „Menn trúðu á fram­far­irn­ar meira en sjálfa bibl­í­una, og furðuverk vís­inda og tækni virt­ust dag hvern vitna um þenn­an fagnaðarboðskap.“ „Á göt­un­um brunnu raf­ljós alla nótt­ina í staðinn fyr­ir gömlu týr­urn­ar.“ „Nú var hægt að tal­ast við í síma milli fjar­lægra staða eða þjóta í vél­knún­um vögn­um ... og maður­inn hóf sig til flugs.“

„Ár frá ári voru þegn­un­um veitt auk­in rétt­indi.“ „Jafn­vel sjálft höfuðvanda­málið, fá­tækt alþýðunn­ar, virt­ist ekki leng­ur óleys­an­legt.“ „Sann­fær­ing­in um sam­felld­ar, viðstöðulaus­ar fram­far­ir“ var alls­ráðandi. „Eng­inn gerði ráð fyr­ir stríði né bylt­ingu. Of­beldi og öfg­ar virt­ust óhugs­andi á þess­ari öld skyn­sem­inn­ar.“

Ég nefndi í ræðunni að þessi lýs­ing félli vel að sam­tíma okk­ar. Við tryðum því ábyggi­lega flest að stríð, kúg­un og krepp­ur væru tíma­bundn­ar trufl­an­ir í stóru mynd­inni, hinni sam­felldu fram­fara­sögu mann­kyns­ins. Við tryðum því að framtíðin yrði betri en dag­ur­inn í dag. Að hvert ár, og hver kyn­slóð, myndi færa okk­ur auk­inn skiln­ing á mann­rétt­ind­um, aukið jafn­rétti og bætt lífs­kjör.

En ég bætti við að sú spurn­ing vaknaði við lest­ur­inn hvort að um okk­ar sam­tíma yrði kannski skrifuð önn­ur bók um of­ur­bjart­sýni í aðdrag­anda ófremd­ar­ástands, önn­ur „Ver­öld sem var“: „Er kannski eitt­hvað við sjón­deild­ar­hring­inn sem ógn­ar grund­velli okk­ar og góðri stöðu? Ekki endi­lega stríð held­ur allt eins ein­hver um­hverf­isógn á borð við breytt lofts­lag, eða efna­hags­áföll af ein­hverj­um toga, eða að tækni­fram­far­ir verði okk­ur ekki til heilla held­ur um­turni sam­fé­lagi okk­ar til verri veg­ar.“

Það sem áður var óhugs­andi

Segja má að þess­ar vanga­velt­ur hafi ræst að ein­hverju leyti. Við stönd­um óvænt frammi fyr­ir ein­hverju mesta efna­hags­áfalli sögu okk­ar, sem meðal ann­ars fel­ur í sér að lang­stærsta út­flutn­ings­grein okk­ar hef­ur ekki aðeins orðið fyr­ir höggi held­ur bein­lín­is stöðvast. Það sem var áður óhugs­andi – víðtæk­ar lok­an­ir versl­ana og þjón­ustu, hansk­ar og spritt hvert sem litið er, eng­in handa­bönd og eng­in faðmlög, til­kynn­ing­ar í kall­kerf­um mat­vöru­versl­ana um að „virða tveggja metra regl­una“ sem eru eins og klippt­ar út úr ógn­væn­legri framtíðar­sýn sjón­varpsþátt­anna The Hand­maid‘s Tale – allt þetta varð næst­um því sjálfsagt á undra­skömm­um tíma. Nýr og fram­andi veru­leiki hellt­ist yfir okk­ur.

Ekki er hægt að full­yrða um lang­tíma­áhrif­in enn þá en heim­ur­inn er þó að ein­hverju leyti breytt­ur.

Sókn­ar­hug­ur

Sem bet­ur fer hafa þess­ar ham­far­ir ekki dregið það versta fram í okk­ur held­ur miklu frem­ur það besta. Mér finnst við hafa hlýtt ráðum Kristjáns frá Djúpa­læk í ljóði sem vin­kona mín Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir deildi ný­verið í minn­ingu móður sinn­ar, en það fjall­ar um það hvernig unnt er að mæta áföll­um og mót­læti. Það hefst svona:

Ef önd­vert allt þér geng­ur
og und­an halla ferskal sókn í huga haf­in

og hún mun bjarga þér.

Mér finnst al­menn­ing­ur og stjórn­völd vera sam­stíga í hug­ar­fari sókn­ar. Staðan fel­ur í sér tæki­færi sem ber að nýta. Kröft­ug­ar sókn­araðgerðir hafa þegar verið ákveðnar í þágu ný­sköp­un­ar og ferðaþjón­ustu, svo að ég nefni tvö af þeim mál­efna­sviðum sem und­ir mig heyra.

Dæmi um tæki­færi

Ein breyt­ing sem marg­ir telja að verði var­an­leg er að fyr­ir­tæki leyfi starfs­fólki sínu í aukn­um mæli að vinna utan skrif­stof­unn­ar. Google og Face­book hafa þegar gefið út að starfs­fólk megi vinna heim­an frá sér út þetta ár. Twitter gekk enn lengra og setti eng­in tíma­mörk á hið nýja fyr­ir­komu­lag, sem virðist því vera orðið var­an­legt.Ég tel aug­ljóst að hér sé að skap­ast áhuga­vert tæki­færi fyr­ir Ísland. Að búa á Íslandi er að mínu mati lottóvinn­ing­ur, og fyr­ir sér­fræðinga í alþjóðleg­um tæknifyr­ir­tækj­um get­um við boðið upp á mik­il lífs­gæði. Frá­bært heil­brigðis­kerfi, ótrú­lega nátt­úru, virkt menn­ing­ar­líf, gott, aðgengi­legt og gjald­frjálst skóla­kerfi, frið og jöfnuð. Á sama tíma hef­ur ís­lenskt sam­fé­lag al­mennt, og ný­sköp­un­ar­um­hverfið sér­stak­lega, mjög gott af því að fleiri er­lend­ir sér­fræðing­ar með sína reynslu, teng­ing­ar og þekk­ingu komi og starfi héðan. Ef við ger­um þeim auðvelt fyr­ir að setj­ast hér að græðum við öll. Vinna sem hef­ur það að mark­miði er haf­in.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 17. maí 2020.