Bönd Íslands og Bretlands treyst
'}}

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra:

Ísland og Bret­land hafa gert með sér sam­komu­lag til næstu 10 ára sem ætlað er að efla tví­hliða sam­skipti ríkj­anna með sam­eig­in­leg­um fram­taks­verk­efn­um. Yf­ir­lýs­ing þessa efn­is, sem und­ir­rituð var í vik­unni, ber heitið Sam­eig­in­leg sýn til árs­ins 2030. Hún er í raun vitn­is­b­urður um náin tengsl Íslands og Bret­lands og áherslu beggja ríkja á að efla hag­sæld, sjálf­bærni og ör­yggi, jafnt inn­an ríkj­anna sem og á alþjóðavísu. Vegna þeirra sér­stöku aðstæðna sem við búum nú við, fór und­ir­rit­un okk­ar Wen­dy Mort­on, ráðherra Bret­lands fyr­ir mál­efni Evr­ópu og Am­er­íku, fram á fjar­fundi en það dró ekki úr ein­hug okk­ar um að treysta enn frek­ar sam­skipti ríkj­anna.

Yf­ir­lýs­ing­in mark­ar þátta­skil í sam­skipt­um ríkj­anna sem eiga upp­haf sitt að rekja til nokkuð óhefðbund­inna aðstæðna. Stjórn­mála­sam­band Íslands og Bret­lands var stofnað á umbreyt­ing­ar­tím­um í heim­in­um fyr­ir rétt­um 80 árum og rétt eins og nú voru þá blik­ur á lofti sem ekki sá fyr­ir end­ann á. Af­hend­ing trúnaðarbréfs hins ný­skipaða sendi­herra Breta bar upp á sama dag og Bret­ar her­námu Ísland þann 10. maí 1940. Þrátt fyr­ir skugga her­náms­ins voru mót­tök­ur Íslend­inga á breska sendi­herr­an­um vin­sam­leg­ar. Þær voru á marg­an hátt til marks um það sem koma skyldi og líkt og sam­band okk­ar í gegn­um árin sýn­ir eru bönd­in sem tengja rík­in sam­an sterk þótt snurða kunni stund­um að hlaupa á þráðinn. Sam­skipti Íslands og Bret­lands eiga sér djúp­ar ræt­ur og fel­ast í rík­um sam­skipt­um fólks, sam­eig­in­leg­um áhuga­mál­um, sam­starfi há­skóla og sam­eig­in­leg­um hags­mun­um ná­granna­ríkja í Norður-Atlants­hafi.

Eft­ir að Bret­land gekk form­lega úr Evr­ópu­sam­band­inu og þar með úr EES-samn­ingn­um í lok janú­ar­mánaðar sl. var ljóst að verk­efnið fram und­an fæl­ist í því að end­ur­móta framtíðarsam­skipti þjóðanna tveggja. Í des­em­ber sl. skipaði ég aðal­samn­inga­mann og samn­inga­nefnd sem hef­ur verið falið það hlut­verk að leiða viðræður af Íslands hálfu um framtíðarsam­band við Bret­land. Viðræðurn­ar munu snú­ast um nokkra þætti en lyk­ilþátt­ur í þeirri vinnu felst í gerð fríversl­un­ar­samn­ings. Bret­land er stærsti ein­staki út­flutn­ings­markaður Íslands hvað vöru­viðskipti varðar og er jafn­framt næst­stærsta viðskipta­land Íslands og eru tæki­fær­in sem fel­ast í nýj­um og yf­ir­grips­mikl­um fríversl­un­ar­samn­ingi því mik­il.

Eins og gef­ur að skilja hef­ur framtíðarviðræðum við Bret­land seinkað vegna heims­far­ald­urs­ins af völd­um kór­ónu­veirunn­ar. Engu að síður hef­ur samn­inga­nefnd Íslands unnið hörðum hönd­um að því að und­ir­búa jarðveg­inn og koma viðræðum af stað eins fljótt og auðið er. Í síðustu viku funduðu aðal­samn­inga­menn um skipu­lag viðræðnanna og mark­mið hvers og eins rík­is á hverju samn­ings­sviði fyr­ir sig. And­rúms­loftið á þess­um fundi var já­kvætt og ljóst er að all­ir eru til­bún­ir til að leggja mikið á sig til að full­gerður samn­ing­ur geti litið dags­ins ljós fyr­ir árs­lok. Okk­ar mark­mið er að gera nýj­an samn­ing sem trygg­ir langvar­andi tengsl ríkj­anna. Við erum vel í stakk búin fyr­ir viðræðurn­ar og hlökk­um til að tak­ast á við þetta mik­il­væga verk­efni.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. maí 2020.