Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra:
Ísland og Bretland hafa gert með sér samkomulag til næstu 10 ára sem ætlað er að efla tvíhliða samskipti ríkjanna með sameiginlegum framtaksverkefnum. Yfirlýsing þessa efnis, sem undirrituð var í vikunni, ber heitið Sameiginleg sýn til ársins 2030. Hún er í raun vitnisburður um náin tengsl Íslands og Bretlands og áherslu beggja ríkja á að efla hagsæld, sjálfbærni og öryggi, jafnt innan ríkjanna sem og á alþjóðavísu. Vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem við búum nú við, fór undirritun okkar Wendy Morton, ráðherra Bretlands fyrir málefni Evrópu og Ameríku, fram á fjarfundi en það dró ekki úr einhug okkar um að treysta enn frekar samskipti ríkjanna.
Yfirlýsingin markar þáttaskil í samskiptum ríkjanna sem eiga upphaf sitt að rekja til nokkuð óhefðbundinna aðstæðna. Stjórnmálasamband Íslands og Bretlands var stofnað á umbreytingartímum í heiminum fyrir réttum 80 árum og rétt eins og nú voru þá blikur á lofti sem ekki sá fyrir endann á. Afhending trúnaðarbréfs hins nýskipaða sendiherra Breta bar upp á sama dag og Bretar hernámu Ísland þann 10. maí 1940. Þrátt fyrir skugga hernámsins voru móttökur Íslendinga á breska sendiherranum vinsamlegar. Þær voru á margan hátt til marks um það sem koma skyldi og líkt og samband okkar í gegnum árin sýnir eru böndin sem tengja ríkin saman sterk þótt snurða kunni stundum að hlaupa á þráðinn. Samskipti Íslands og Bretlands eiga sér djúpar rætur og felast í ríkum samskiptum fólks, sameiginlegum áhugamálum, samstarfi háskóla og sameiginlegum hagsmunum nágrannaríkja í Norður-Atlantshafi.
Eftir að Bretland gekk formlega úr Evrópusambandinu og þar með úr EES-samningnum í lok janúarmánaðar sl. var ljóst að verkefnið fram undan fælist í því að endurmóta framtíðarsamskipti þjóðanna tveggja. Í desember sl. skipaði ég aðalsamningamann og samninganefnd sem hefur verið falið það hlutverk að leiða viðræður af Íslands hálfu um framtíðarsamband við Bretland. Viðræðurnar munu snúast um nokkra þætti en lykilþáttur í þeirri vinnu felst í gerð fríverslunarsamnings. Bretland er stærsti einstaki útflutningsmarkaður Íslands hvað vöruviðskipti varðar og er jafnframt næststærsta viðskiptaland Íslands og eru tækifærin sem felast í nýjum og yfirgripsmiklum fríverslunarsamningi því mikil.
Eins og gefur að skilja hefur framtíðarviðræðum við Bretland seinkað vegna heimsfaraldursins af völdum kórónuveirunnar. Engu að síður hefur samninganefnd Íslands unnið hörðum höndum að því að undirbúa jarðveginn og koma viðræðum af stað eins fljótt og auðið er. Í síðustu viku funduðu aðalsamningamenn um skipulag viðræðnanna og markmið hvers og eins ríkis á hverju samningssviði fyrir sig. Andrúmsloftið á þessum fundi var jákvætt og ljóst er að allir eru tilbúnir til að leggja mikið á sig til að fullgerður samningur geti litið dagsins ljós fyrir árslok. Okkar markmið er að gera nýjan samning sem tryggir langvarandi tengsl ríkjanna. Við erum vel í stakk búin fyrir viðræðurnar og hlökkum til að takast á við þetta mikilvæga verkefni.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. maí 2020.