Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
Staðreyndin er þessi: Markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu helstu garðyrkjuafurða á innanlandsmarkaði féll í tonnum úr 75% árið 2010 í 52% árið 2018. Meginmarkmið nýs garðyrkjusamnings milli stjórnvalda og bænda sem skrifað var undir í vikunni er að snúa þessari þróun við. Gerðar eru grundvallarbreytingar á starfsumhverfi íslenskrar garðyrkju og með því skapaðar forsendur fyrir því að hægt verði að auka framleiðslu á íslensku grænmeti um 25% á næstu þremur árum og auka þannig markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu. Til þess að ná þessu markmiði er árlegt fjárframlag stjórnvalda til samningsins hækkað um 200 milljónir króna á ári, úr um 660 milljónum í um 860 milljónir. Tekur sú breyting gildi strax á þessu ári.
Stóraukin framlög vegna raforkukostnaðar
Í samkomulaginu er gerð sú breyting að fyrirkomulagi á niðurgreiðslum á raforku er breytt með þeim hætti að ylræktendum, þ.e. þeim sem rækta í gróðurhúsum eða öðru lokuðu rými, verða tryggðar beingreiðslur vegna lýsingar í stað niðurgreiðslu kostnaðar. Þetta er gert til þess að stuðla að hagfelldari starfsskilyrðum greinarinnar. Jafnframt er bætt við þennan lið samningsins alls 70 milljónum króna til að stuðla að lægra raforkuverði til íslenskrar garðyrkju.
Fjölbreyttari ræktun nýtur beingreiðslna
Frá því fyrsti búvörusamningur um garðyrkju var gerður árið 2002 hafa stuðningsgreiðslur takmarkast við inniræktun vegna framleiðslu á gúrkum, tómötum og papriku. Með hinu nýja samkomulagi bætist við nýr flokkur beingreiðslna vegna ræktunar á öðrum grænmetistegundum. Með því er hvatt til og stuðlað að fjölbreyttari ræktun grænmetis en hingað til hefur þekkst í íslenskri garðyrkju.
Framleiðsla á útiræktuðu grænmeti, m.a. kínakáli, blómkáli, gulrótum og rófum, hefur hingað til fengið afar takmarkaðan stuðning í formi jarðræktarstyrkja. Með hinu nýja samkomulagi eru framlög í formi jarðræktarstyrkja hækkuð umtalsvert og þannig stuðlað að enn frekari framleiðslu á þessum vörum og tilheyrandi fjárfestingu í greininni.
Íslensk garðyrkja kolefnisjöfnuð
Meðal annarra atriða samkomulagsins má nefna það metnaðarfulla markmið sem stjórnvöld og bændur sameinast um að íslensk garðyrkja verði að fullu kolefnisjöfnuð eigi síðar en árið 2040. Er 15 milljónum kr. varið til þessa verkefnis strax á þessu ári. Þá er í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar auknu fjármagni varið til aðlögunar að lífrænum framleiðsluháttum í garðyrkju. Markmið þess er að aðstoða framleiðendur við að uppfylla þær kröfur sem lífræn garðyrkjuframleiðsla hefur í för með sér og auka framboð slíkra vara á markaði.
Í samkomulaginu er jafnframt að finna ákvæði um að ráðuneyti mitt setji á fót mælaborð fyrir íslenskan landbúnað sem mun halda utan um upplýsingar um matvælaframleiðslu á sviði landbúnaðar á Íslandi. Með því verður hægt að hafa yfirsýn yfir framleiðslu, sölu og birgðir í landinu m.a. vegna fæðuöryggis og slíkur gagnagrunnur eykur auk þess gagnsæi. Þetta er verkefni sem ég hef talað fyrir í nokkurn tíma og ég vonast til að ljúka á þessu ári.
Fjárfest í framtíðinni
Ég er afskaplega stoltur og ánægður með þetta samkomulag sem markar tímamót í íslenskri garðyrkju. Með sína öfundsverðu sérstöðu, sem birtist meðal annars í hreina vatninu okkar, landrýminu, hreinleika og umhverfisvænum framleiðsluháttum, hef ég óbilandi trú á framtíð íslenskrar garðyrkju. Með þessu samkomulagi erum við að fjárfesta í framtíðinni og grípa þau tækifæri sem við okkur blasa.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. maí 2020.