Kerfið þarf að virka
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Frum­varp til breyt­inga á út­lend­inga­lög­um ligg­ur nú fyr­ir á Alþingi. Efni þess má skipta í þrennt; um alþjóðlega vernd, dval­ar­leyfi og at­vinnu­rétt­indi. Þar er meðal ann­ars gert ráð fyr­ir að dval­ar­leyfi vegna vi­st­ráðning­ar (au-pair) verði til tveggja ára í stað eins árs áður, að út­lend­ing­ar með sér­fræðiþekk­ingu sem missa starf sitt fái dval­ar­leyfi um tíma til að leita sér að öðru starfi og út­lend­ing­ar sem fengið hafa mannúðarleyfi hér á landi fái um leið at­vinnu­leyfi.

Mest hef­ur verið rætt um ákvæði frum­varps­ins um alþjóðlega vernd. Við höf­um komið okk­ur upp öfl­ugu vernd­ar­kerfi fyr­ir þá sem hingað leita á flótta und­an of­sókn­um og lífs­hættu í heimalandi sínu. Mik­il­vægt er að verja það kerfi svo það virki sem best fyr­ir þá ein­stak­linga sem þurfa á vernd að halda og að þeir fái hraða og ör­ugga af­greiðslu. Það stuðlar að því að þeir sem hljóta alþjóðlega vernd geti strax hafið ár­ang­urs­ríka aðlög­un sem og þeir sem hljóta hana ekki bíða skem­ur í óvissu. Þannig virk­ar kerfið best fyr­ir þá sem mest þurfa á því að halda og þannig sýn­um við meiri samúð.

Það er tölu­verður mun­ur á Dyfl­inn­ar­mál­um og vernd­ar­mál­um þótt þeim sé oft ruglað sam­an í umræðunni. Þegar ein­stak­ling­ur kem­ur hingað til lands og hef­ur fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki, og þannig hlotið stöðu flótta­manns, er mál hans flokkað sem vernd­ar­mál. Hann hef­ur þannig fengið dval­ar­leyfi í öðru ríki með þeim rétt­ind­um sem því fylg­ir. Hafi ein­stak­ling­ur hins veg­ar sótt um alþjóðlega vernd í öðru ríki en ekki fengið svar við um­sókn sinni flokk­ast mál hans sem Dyfl­inn­ar­mál. Lang­flest­ir í þeirri stöðu dvelja í flótta­manna­búðum við krefj­andi aðstæður. Þess vegna hætti Ísland árið 2010 að end­ur­senda ein­stak­linga á grund­velli Dyfl­inn­ar­reglu­gerðar­inn­ar til Grikk­lands og Ung­verja­lands.

Breyt­ing­arn­ar miða að því að gera stjórn­völd­um kleift að af­greiða hratt og ör­ugg­lega þær um­sókn­ir sem al­mennt leiða ekki til veit­ing­ar alþjóðlegr­ar vernd­ar. Fjölgað hef­ur í þeim hópi um­sækj­enda sem hef­ur hlotið vernd í ríkj­um Evr­ópu og fær því al­mennt ekki vernd hér á landi. Þannig hafa stjórn­völd meira rými til að beina at­hygl­inni að þeim hópi um­sækj­enda sem er í raun­veru­legri þörf fyr­ir vernd og vernd­ar­kerfið er hannað fyr­ir. Í þeim hópi hef­ur einnig fjölgað mikið og hlaut 531 ein­stak­ling­ur alþjóðlega vernd 2019. Stjórn­sýsla út­lend­inga­mála er orðin of þung, kostnaður­inn mik­ill og það versta er að ein­stak­ling­ar bíða of lengi eft­ir niður­stöðu sinna mála. Við því þarf að bregðast.

Við vilj­um og ætl­um að gera þetta vel. Áfram verður öll­um um­sækj­end­um veitt viðtal og gert kleift að fram­vísa gögn­um sem met­in verða á ein­stak­lings­grund­velli. Börn sem og aðrir ein­stak­ling­ar verða þannig ekki send í lífs­hættu­leg­ar aðstæður.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. maí 2020.