Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:
Frumvarp til breytinga á útlendingalögum liggur nú fyrir á Alþingi. Efni þess má skipta í þrennt; um alþjóðlega vernd, dvalarleyfi og atvinnuréttindi. Þar er meðal annars gert ráð fyrir að dvalarleyfi vegna vistráðningar (au-pair) verði til tveggja ára í stað eins árs áður, að útlendingar með sérfræðiþekkingu sem missa starf sitt fái dvalarleyfi um tíma til að leita sér að öðru starfi og útlendingar sem fengið hafa mannúðarleyfi hér á landi fái um leið atvinnuleyfi.
Mest hefur verið rætt um ákvæði frumvarpsins um alþjóðlega vernd. Við höfum komið okkur upp öflugu verndarkerfi fyrir þá sem hingað leita á flótta undan ofsóknum og lífshættu í heimalandi sínu. Mikilvægt er að verja það kerfi svo það virki sem best fyrir þá einstaklinga sem þurfa á vernd að halda og að þeir fái hraða og örugga afgreiðslu. Það stuðlar að því að þeir sem hljóta alþjóðlega vernd geti strax hafið árangursríka aðlögun sem og þeir sem hljóta hana ekki bíða skemur í óvissu. Þannig virkar kerfið best fyrir þá sem mest þurfa á því að halda og þannig sýnum við meiri samúð.
Það er töluverður munur á Dyflinnarmálum og verndarmálum þótt þeim sé oft ruglað saman í umræðunni. Þegar einstaklingur kemur hingað til lands og hefur fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki, og þannig hlotið stöðu flóttamanns, er mál hans flokkað sem verndarmál. Hann hefur þannig fengið dvalarleyfi í öðru ríki með þeim réttindum sem því fylgir. Hafi einstaklingur hins vegar sótt um alþjóðlega vernd í öðru ríki en ekki fengið svar við umsókn sinni flokkast mál hans sem Dyflinnarmál. Langflestir í þeirri stöðu dvelja í flóttamannabúðum við krefjandi aðstæður. Þess vegna hætti Ísland árið 2010 að endursenda einstaklinga á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar til Grikklands og Ungverjalands.
Breytingarnar miða að því að gera stjórnvöldum kleift að afgreiða hratt og örugglega þær umsóknir sem almennt leiða ekki til veitingar alþjóðlegrar verndar. Fjölgað hefur í þeim hópi umsækjenda sem hefur hlotið vernd í ríkjum Evrópu og fær því almennt ekki vernd hér á landi. Þannig hafa stjórnvöld meira rými til að beina athyglinni að þeim hópi umsækjenda sem er í raunverulegri þörf fyrir vernd og verndarkerfið er hannað fyrir. Í þeim hópi hefur einnig fjölgað mikið og hlaut 531 einstaklingur alþjóðlega vernd 2019. Stjórnsýsla útlendingamála er orðin of þung, kostnaðurinn mikill og það versta er að einstaklingar bíða of lengi eftir niðurstöðu sinna mála. Við því þarf að bregðast.
Við viljum og ætlum að gera þetta vel. Áfram verður öllum umsækjendum veitt viðtal og gert kleift að framvísa gögnum sem metin verða á einstaklingsgrundvelli. Börn sem og aðrir einstaklingar verða þannig ekki send í lífshættulegar aðstæður.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. maí 2020.