Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Aðgerðir íslenskra stjórnvalda vegna Covid-19-heimsfaraldursins hafa miðað að því að verja líf og heilsu landsmanna. Frumskylda stjórnvalda er að standa vörð um öryggi þjóðarinnar gagnvart sérhverri ógn sem að henni steðjar. Allt annað hefur vikið til hliðar undanfarna mánuði á meðan almenningur hefur með samhentu átaki brugðist gegn veirunni. En viðbrögðin verða að vera markviss og þau mega ekki vara lengur en ástæða er til: Þau mega ekki vera háskalegri en ógnin sem við blasir.
Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir 6. mars sl. en verulegar takmarkanir voru þá settar á margvíslega starfsemi og atvinnurekstur í landinu. Þrengt var að hvers kyns samkomuhaldi, reglur settar um fjarlægð milli fólks, hvatt til handþvottar og aukins hreinlætis. Óhætt er að fullyrða að vel hafi til tekist. Að undanförnu hafa ný smit verið afar fá og jafnvel engin suma dagana. Virk smit eru nú innan við 20 en voru yfir 1.000 þegar mest var í byrjun apríl. Verulega var slakað á sóttvarnaráðstöfunum 4. maí sl. og frekari tilslakanir eru í undirbúningi hér innanlands. Við erum því komin að þeim tímamótum þegar taka þarf pólitíska ákvörðun um næsta skref: Hvað tekur við þegar þjóðlífið hefur færst í eðlilegt eða því sem næst eðlilegt horf?
Lífróður til að forðast þrot
Íslensk stjórnvöld tóku þátt í sameiginlegum og samræmdum aðgerðum Schengen-ríkjanna um lokun ytri landamæra skömmu eftir að Bandaríkjastjórn hafði lagt bann á allt farþegaflug frá Evrópu. Féll Ísland undir það bann. Fjölmörg ríki innan Schengen höfðu þá einnig lokað innri landamærum sínum. Frá þvíað akmarkanir þessar tóku gildi hefur nánast allt farþegaflug fallið niður til landsins og frá. Öllum sem hingað koma er skylt að fara í sóttkví í 14 daga við komuna til landsins.
Ekki þarf að fjölyrða um ástand ferðaþjónustu undir þessum kringumstæðum. Starfsemi liggur niðri hjá atvinnugrein sem hefur skapað 35-40% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar á síðustu árum. Flest ferðaþjónustufyrirtæki eru í rekstrarerfiðleikum vegna ástandsins og róa lífróður til að forðast þrot. Ríkisvaldið hefur gripið til margháttaðra ráðstafana til bjargar fyrirtækjum og heimilum. Nær allir starfsmenn í ferðaþjónustu eru nú annaðhvort á uppsagnarfresti eða í hlutastarfi. Óvissa er um framtíð alls efnahagslífsins en hún veltur ekki síst á því hvenær unnt verður að opna landið fyrir ferðamönnum.
Grípa verður til aðgerða fyrr en seinna
Sú pólitíska áskorun sem stjórnvöld standa nú frammi fyrir felur annars vegar í sér að tryggja verður þann árangur sem náðst hefur í sóttvörnum en hins vegar að koma efnahagslífinu í gang á nýjan leik. Standa ber þannig að málum að heilsufari landsmanna stafi sem minnst hætta af aðgerðum t.d. hvað varðar rýmkun reglna um ferðamenn. Unnt er að draga verulega úr þeirri áhættu með mælingum, smitrakningu, sóttkví og einangrun.
Ljóst er að ekki er unnt að lifa til langframa við það ástand í efnahagsmálum sem skapast hefur vegna heimsfaraldursins. Ríkissjóður getur ekki staðið undir hundraða milljarða króna útgjöldum til að halda þjóðarskútunni á floti nema um tiltölulega skamman tíma. Grípa verður til aðgerða fyrr en seinna til að koma í veg fyrir þau margháttuðu og erfiðu vandamál sem viðvarandi atvinnuleysi skapar; ekki aðeins í efnahagslífinu heldur er þar einnig um möguleg félagsleg og heilsufarsleg vandamál að ræða.
Veruleg rýmkun á ferðatakmörkunum
Ríkisstjórnin ákvað í gær að stefna að því að eigi síðar en 15. júní næstkomandi geti þeir sem koma til landsins farið í Covid-19-próf á Keflavíkurflugvelli. Reynist það neikvætt þurfi þeir ekki að fara í tveggja vikna sóttkví, en einnig verður gert ráð fyrir að nýleg vottorð um sýnatöku erlendis verði tekin til greina meti sóttvarnalæknir þau áreiðanleg. Við munum áfram taka fullan þátt í samstarfi Schengen-ríkjanna en opna um leið möguleika fyrir þá ferðamenn sem velja Ísland sem áfangastað. Stefnt er að því að þessi möguleiki verði í boði fyrir alla þá sem koma til landsins – bæði Íslendinga sem og erlenda ferðamenn – í síðasta lagi hinn 15. júní nk. og hugsanlega fyrr ef aðstæður leyfa.
Nánar tilgreint yrði framkvæmdin með eftirgreindum hætti:
Við komu verður ferðamönnum boðið að undirgangast skimun fyrir Covid-19-veirunni fremur en að fara í 14 daga sóttkví og að nota smitrakningar- og samskiptaforrit meðan á dvöl þeirra stendur í landinu. Niðurstaða skimunar á að geta legið fyrir innan nokkurra klukkustunda og er gert ráð fyrir að farþegar geti farið til síns heima eða á gististað á meðan beðið er. Komi í ljós smit verður viðkomandi gert að sæta einangrun í 14 daga. Þeir ferðamenn sem fá að ferðast um landið verða að sjálfsögðu að virða þær almennu takmarkanir sem í gildi eru um sóttvarnir. Fyrst í stað verður skimun aðeins framkvæmd á Keflavíkurflugvelli. Kostir þessarar aðferðar eru að hún er á okkar eigin forsendum og býður upp á víðtækari opnun. Ef vel tekst til getur framkvæmdin orðið til þess að ferðaþjónustan nái sér á strik fyrr en ella. Íslendingar fá aukið frelsi til ferðalaga án þess að þurfa að fara í sóttkví við heimkomu. Efnahagur landsins fær tækifæri til að vaxa og dafna á ný.
Í sókn að frelsi
Á sama tíma og landið verður opnað fyrir ferðamönnum hafa almannavarnir og sóttvarnayfirvöld boðað rýmkun heimilda til samkomuhalds og að dregið verði úr öðrum takmörkunum á samskiptum fólks. Skimun og smitrakning er forsenda þess að vel takist til sem og áframhaldandi handþvottur og hreinlæti. Ef til vill felst mesta áhættan í því að grípa til aðgerða alltof seint. Aðferðin mun draga úr hættunni á því að ferðamenn komi með smit til landsins. Sú áhætta verður raunar ávallt fyrir hendi á meðan bóluefni hefur ekki verið fundið gegn veirunni.
Tímasetningin tekur mið af þeim mikla árangri sem náðst hefur og sá árangur gerir okkur nú kleift að sækja fram.
Lífið verður aldrei án allrar áhættu og það verður að fá að halda áfram. Enn um sinn verðum við að lifa með ógn sem glitrar eins og draugsauga við dyrnar. Með skynsemi og markvissum aðgerðum er hægt að fara gullinn meðalveg þar sem áfram er unnið að því að verja allan þann árangur sem náðst hefur en um leið hefja sókn í átt að frelsi og því lífi sem við viljum lifa.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. maí 2020.