Lífið heldur áfram
'}}

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

Aðgerðir ís­lenskra stjórn­valda vegna Covid-19-heims­far­ald­urs­ins hafa miðað að því að verja líf og heilsu lands­manna. Frum­skylda stjórn­valda er að standa vörð um ör­yggi þjóðar­inn­ar gagn­vart sér­hverri ógn sem að henni steðjar. Allt annað hef­ur vikið til hliðar und­an­farna mánuði á meðan al­menn­ing­ur hef­ur með sam­hentu átaki brugðist gegn veirunni. En viðbrögðin verða að vera mark­viss og þau mega ekki vara leng­ur en ástæða er til: Þau mega ekki vera háska­legri en ógn­in sem við blas­ir.

Neyðarstigi al­manna­varna var lýst yfir 6. mars sl. en veru­leg­ar tak­mark­an­ir voru þá sett­ar á marg­vís­lega starf­semi og at­vinnu­rekst­ur í land­inu. Þrengt var að hvers kyns sam­komu­haldi, regl­ur sett­ar um fjar­lægð milli fólks, hvatt til handþvott­ar og auk­ins hrein­læt­is. Óhætt er að full­yrða að vel hafi til tek­ist. Að und­an­förnu hafa ný smit verið afar fá og jafn­vel eng­in suma dag­ana. Virk smit eru nú inn­an við 20 en voru yfir 1.000 þegar mest var í byrj­un apríl. Veru­lega var slakað á sótt­varn­aráðstöf­un­um 4. maí sl. og frek­ari til­slak­an­ir eru í und­ir­bún­ingi hér inn­an­lands. Við erum því kom­in að þeim tíma­mót­um þegar taka þarf póli­tíska ákvörðun um næsta skref: Hvað tek­ur við þegar þjóðlífið hef­ur færst í eðli­legt eða því sem næst eðli­legt horf?

Lífróður til að forðast þrot

Íslensk stjórn­völd tóku þátt í sam­eig­in­leg­um og sam­ræmd­um aðgerðum Schengen-ríkj­anna um lok­un ytri landa­mæra skömmu eft­ir að Banda­ríkja­stjórn hafði lagt bann á allt farþega­flug frá Evr­ópu. Féll Ísland und­ir það bann. Fjöl­mörg ríki inn­an Schengen höfðu þá einnig lokað innri landa­mær­um sín­um. Frá þvíað ak­mark­an­ir þess­ar tóku gildi hef­ur nán­ast allt farþega­flug fallið niður til lands­ins og frá. Öllum sem hingað koma er skylt að fara í sótt­kví í 14 daga við kom­una til lands­ins.

Ekki þarf að fjöl­yrða um ástand ferðaþjón­ustu und­ir þess­um kring­um­stæðum. Starf­semi ligg­ur niðri hjá at­vinnu­grein sem hef­ur skapað 35-40% af gjald­eyris­tekj­um þjóðar­inn­ar á síðustu árum. Flest ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæki eru í rekstr­ar­erfiðleik­um vegna ástands­ins og róa lífróður til að forðast þrot. Rík­is­valdið hef­ur gripið til marg­háttaðra ráðstaf­ana til bjarg­ar fyr­ir­tækj­um og heim­il­um. Nær all­ir starfs­menn í ferðaþjón­ustu eru nú annaðhvort á upp­sagn­ar­fresti eða í hluta­starfi. Óvissa er um framtíð alls efna­hags­lífs­ins en hún velt­ur ekki síst á því hvenær unnt verður að opna landið fyr­ir ferðamönn­um.

Grípa verður til aðgerða fyrr en seinna

Sú póli­tíska áskor­un sem stjórn­völd standa nú frammi fyr­ir fel­ur ann­ars veg­ar í sér að tryggja verður þann ár­ang­ur sem náðst hef­ur í sótt­vörn­um en hins veg­ar að koma efna­hags­líf­inu í gang á nýj­an leik. Standa ber þannig að mál­um að heilsu­fari lands­manna stafi sem minnst hætta af aðgerðum t.d. hvað varðar rýmk­un reglna um ferðamenn. Unnt er að draga veru­lega úr þeirri áhættu með mæl­ing­um, smitrakn­ingu, sótt­kví og ein­angr­un.

Ljóst er að ekki er unnt að lifa til lang­frama við það ástand í efna­hags­mál­um sem skap­ast hef­ur vegna heims­far­ald­urs­ins. Rík­is­sjóður get­ur ekki staðið und­ir hundraða millj­arða króna út­gjöld­um til að halda þjóðarskút­unni á floti nema um til­tölu­lega skamm­an tíma. Grípa verður til aðgerða fyrr en seinna til að koma í veg fyr­ir þau marg­háttuðu og erfiðu vanda­mál sem viðvar­andi at­vinnu­leysi skap­ar; ekki aðeins í efna­hags­líf­inu held­ur er þar einnig um mögu­leg fé­lags­leg og heilsu­fars­leg vanda­mál að ræða.

Veru­leg rýmk­un á ferðatak­mörk­un­um

Rík­is­stjórn­in ákvað í gær að stefna að því að eigi síðar en 15. júní næst­kom­andi geti þeir sem koma til lands­ins farið í Covid-19-próf á Kefla­vík­ur­flug­velli. Reyn­ist það nei­kvætt þurfi þeir ekki að fara í tveggja vikna sótt­kví, en einnig verður gert ráð fyr­ir að ný­leg vott­orð um sýna­töku er­lend­is verði tek­in til greina meti sótt­varna­lækn­ir þau áreiðan­leg. Við mun­um áfram taka full­an þátt í sam­starfi Schengen-ríkj­anna en opna um leið mögu­leika fyr­ir þá ferðamenn sem velja Ísland sem áfangastað. Stefnt er að því að þessi mögu­leiki verði í boði fyr­ir alla þá sem koma til lands­ins – bæði Íslend­inga sem og er­lenda ferðamenn – í síðasta lagi hinn 15. júní nk. og hugs­an­lega fyrr ef aðstæður leyfa.

Nán­ar til­greint yrði fram­kvæmd­in með eft­ir­greind­um hætti:

Við komu verður ferðamönn­um boðið að und­ir­gang­ast skimun fyr­ir Covid-19-veirunni frem­ur en að fara í 14 daga sótt­kví og að nota smitrakn­ing­ar- og sam­skipta­for­rit meðan á dvöl þeirra stend­ur í land­inu. Niðurstaða skimun­ar á að geta legið fyr­ir inn­an nokk­urra klukku­stunda og er gert ráð fyr­ir að farþegar geti farið til síns heima eða á gisti­stað á meðan beðið er. Komi í ljós smit verður viðkom­andi gert að sæta ein­angr­un í 14 daga. Þeir ferðamenn sem fá að ferðast um landið verða að sjálf­sögðu að virða þær al­mennu tak­mark­an­ir sem í gildi eru um sótt­varn­ir. Fyrst í stað verður skimun aðeins fram­kvæmd á Kefla­vík­ur­flug­velli. Kost­ir þess­ar­ar aðferðar eru að hún er á okk­ar eig­in for­send­um og býður upp á víðtæk­ari opn­un. Ef vel tekst til get­ur fram­kvæmd­in orðið til þess að ferðaþjón­ust­an nái sér á strik fyrr en ella. Íslend­ing­ar fá aukið frelsi til ferðalaga án þess að þurfa að fara í sótt­kví við heim­komu. Efna­hag­ur lands­ins fær tæki­færi til að vaxa og dafna á ný.

Í sókn að frelsi

Á sama tíma og landið verður opnað fyr­ir ferðamönn­um hafa al­manna­varn­ir og sótt­varna­yf­ir­völd boðað rýmk­un heim­ilda til sam­komu­halds og að dregið verði úr öðrum tak­mörk­un­um á sam­skipt­um fólks. Skimun og smitrakn­ing er for­senda þess að vel tak­ist til sem og áfram­hald­andi handþvott­ur og hrein­læti. Ef til vill felst mesta áhætt­an í því að grípa til aðgerða alltof seint. Aðferðin mun draga úr hætt­unni á því að ferðamenn komi með smit til lands­ins. Sú áhætta verður raun­ar ávallt fyr­ir hendi á meðan bólu­efni hef­ur ekki verið fundið gegn veirunni.

Tíma­setn­ing­in tek­ur mið af þeim mikla ár­angri sem náðst hef­ur og sá ár­ang­ur ger­ir okk­ur nú kleift að sækja fram.

Lífið verður aldrei án allr­ar áhættu og það verður að fá að halda áfram. Enn um sinn verðum við að lifa með ógn sem glitr­ar eins og draugsauga við dyrn­ar. Með skyn­semi og mark­viss­um aðgerðum er hægt að fara gull­inn meðal­veg þar sem áfram er unnið að því að verja all­an þann ár­ang­ur sem náðst hef­ur en um leið hefja sókn í átt að frelsi og því lífi sem við vilj­um lifa.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. maí 2020.