Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Borgin hefur ekki safnað forða í hlöður sínar. Í mesta tekjugóðæri Íslandssögunnar hafa skuldir hækkað gríðarlega. Á síðasta góðærisárinu hækkuðu skuldir samstæðunnar um 21 milljarð. Útgjöld hækkuðu um 7% og laun um 8%. Fjárfestingar langt umfram tekjur. Eina einingin sem skilar góðum hagnaði er félagið Félagsbústaðir. Þar á bæ er hagnaðurinn 4,5 milljarðar á síðasta ári. Hagnaðurinn er nákvæmlega sama tala og heildartekjur þessa „óhagnaðardrifna“ hlutafélags. Bókfærður hagnaður Félagsbústaða er ekki ósvipaður og hagnaður Orkuveitunnar eins og hún leggur sig. Þrátt fyrir þennan mikla hagnað hækka skuldir Félagsbústaða um meira en fimm milljarða. Hvernig má það vera? Þegar nánar er að gáð kemur í ljós að endurmat á virði félagslegs húsnæðis er hækkað um 4.800 milljónir á síðasta ári. Eignir sem ekki stendur til að selja. Samtals er búið að endurmeta félagslegar íbúðir borgarinnar um 57 milljarða króna. Eigið fé samstæðu borgarinnar er þessum 57 milljörðum hærra en annars væri. Þetta er froða. „Afgangur“ af rekstri borgarinnar hefur aldrei skilað sér inn á bankabókina síðustu árin. Þess vegna hafa skuldir hækkað svona mikið. Skuldir og skuldbindingar samstæðu borgarinnar standa nú í 324 milljörðum. Græn skuldabréf og félagsleg skuldabréf eru líka skuldir. Hold er mold hverju sem það klæðist.
Biðja samt um ríkisaðstoð
Síðasta ár var fyrsta heila ár núverandi meirihluta í borgarstjórn. Af orðum borgarstjóra mætti ætla að borgin stæði sterkt og væri í góðum færum til að mæta mótlætinu. Sterk fjárhagsstaða. Það er því mótsagnakennt þegar borgarstjóri kallar nú eftir ríkisaðstoð og fjárhagsaðstoð Seðlabankans. Hann er í ósamræmi við eigin málflutning um að allt sé í himnalagi. Borgin glímir ekki við tekjuvanda enda eru skattar og gjöld í hæstu hæðum. Ekkert sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu er með jafn hátt útsvar og borgin. Vandi borgarinnar er útgjaldavandi og þess vegna hafa skuldir hækkað um tugi milljarða síðustu árin. Góðærisárin. Lausnin felst ekki í frekari skuldsetningu borgarinnar. Hvað þá að fjárfesta fyrir milljarða í malbikunarstöð við Esjumela eins og fyrirhugað er. Leiðin fram á við er að borgin einbeiti sér að kjarnastarfsemi sinni, hagræði og nútímavæði þungt stjórnkerfið. Liðki til og létti byrðar. Það er leiðin upp á við.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. maí 2020.