Það sem er barni fyrir bestu
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Það er mik­il­vægt að jafna stöðu þeirra for­eldra sem fara sam­eig­in­lega með for­sjá barns og ákveða að ala það upp sam­an á tveim­ur heim­il­um. Með nýju frum­varpi sem ég hef lagt fram er lögð til sú breyt­ing að for­eldr­ar geti samið um að skipta bú­setu barns­ins þannig að það verði skráð með tvö heim­ili.

Tals­verðar breyt­ing­ar hafa orðið á stöðu barna­fjöl­skyldna og verka­skipt­ingu for­eldra á liðnum árum. Rík­ari áhersla er lögð á sam­eig­in­lega ábyrgð for­eldra og í aukn­um mæli taka báðir for­eldr­ar virk­an þátt í upp­eldi barna sinna. Það er þróun til hins betra.

Kerfið þarf að vera til fyr­ir öll mynstur fjöl­skyldna og má ekki þvæl­ast fyr­ir þegar sú ákvörðun hef­ur verið tek­in í sátt beggja aðila að deila ábyrgð og upp­eldi. For­eldr­ar sem kjósa að ala upp börn sín í góðri sátt á tveim­ur heim­il­um þurfa að búa við sam­bæri­leg skil­yrði af hálfu hins op­in­bera en ekki sé ýtt und­ir ágrein­ing með ójafnri stöðu heim­il­anna. Skipt bú­seta stuðlar að jafn­ari stöðu for­eldra og ger­ir ráð fyr­ir að for­eldr­ar geti unnið sam­an í öll­um mál­um er varða barnið. Samn­ing­ur um skipta bú­setu barns ger­ir því rík­ar kröf­ur til for­eldra um sam­starf, virðingu, til­lits­semi og sveigj­an­leika.

Allt þarf þetta að þjóna hags­mun­um barns. Í hverju til­viki fyr­ir sig verður því að leggja ein­stak­lings­bundið mat á það hvort skipt bú­seta sé barni fyr­ir bestu. Þarf­ir og hags­mun­ir barns­ins eiga ætíð að vega þyngra en sjón­ar­mið um jafn­rétti for­eldra. For­eldr­ar þurfa að aðlaga sig að aðstæðum barns­ins frek­ar en barnið að aðstæðum þeirra.

Sam­kvæmt frum­varp­inu er gert ráð fyr­ir að for­eldr­ar sem semja um skipta bú­setu komi sér einnig sam­an um sam­eig­in­lega ábyrgð á fram­færslu barns. Ekki er gert ráð fyr­ir að þessi hóp­ur for­eldra geti óskað eft­ir úr­sk­urði eða dómi um meðlag eða milli­göngu hins op­in­bera um greiðslu meðlags. Þá er gert ráð fyr­ir því að báðir for­eldr­ar eigi rétt á barna­bót­um og vaxta­bót­um. Enn­frem­ur eru lagðar til breyt­ing­ar sem stuðla að auknu samn­ings­frelsi for­eldra vegna fram­færslu og meðlags.

Í frum­varp­inu er sjón­um beint að sjálf­stæðum rétti barns, hags­mun­um þess og þörf­um. Lagt er til það ný­mæli að barn geti haft frum­kvæði að því að sýslumaður boði for­eldra til sam­tals til að ræða fyr­ir­komu­lag for­sjár, lög­heim­il­is, bú­setu og um­gengni. Mark­mið með slíku sam­tali er að leiðbeina barni og for­eldr­um og leit­ast við að stuðla að fyr­ir­komu­lagi sem er barn­inu fyr­ir bestu.

Kerfið á að vera til fyr­ir fólk í marg­breyti­leg­um aðstæðum og tryggja rétt þess óháð því mynstri sem það kýs að hafa á sam­búð sinni og upp­eldi barna sinna. Þetta frum­varp er stórt skref í þá átt.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. maí 2020.