Landið rís þrátt fyrir allt
'}}

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Þetta er skrifað fyrsta maí. Það er nöturlegt að einmitt um þessi mánaðamót skuli þúsundir missa vinnuna og enn fleiri vera í óvissu um atvinnuöryggi sitt. Samhliða því að kveða niður heilbrigðisógnina af Covid-19 er ekkert mikilvægara fyrir okkur stjórnmálamenn en að huga að velferð þeirra sem verða fyrir barðinu á þessum atburðum og skapa atvinnulífinu skilyrði til að blómstra á ný.

Öllu verkafólki óska ég til hamingju með daginn. Fólk kann að greina á um leiðir í kjarabaráttu og líklega ber meira á því núna en oft áður, án þess að ég ætli út í þá sálma hér. Markmiðið um góð lífskjör og sem jöfnust tækifæri fyrir alla er okkur þó sameiginlegt.

Góð viðbrögð við aðgerðum

Þetta er fimmta greinin mín í röð um Covid-faraldurinn, afleiðingar hans og viðbrögð okkar. Ég játa að ég bjóst ekki við því í upphafi að þær yrðu svo margar. Staðan hefur breyst hratt og ekki alltaf til hins betra þó að nú sé heldur farið að rofa til í einhverjum skilningi þrátt fyrir mikla erfiðleika víða.

Nýjasta útspili stjórnvalda um greiðsluskjól, aðstoð við launagreiðslur á uppsagnarfresti og fleira, var vel tekið af atvinnulífinu. Það er auðvitað algjör þrautalending að aðstoða fyrirtæki við að segja upp fólki enda voru aðgerðir okkar í upphafi með það höfuðmarkmið að verja störf og koma í veg fyrir uppsagnir. Málin þróuðust hins vegar á þann veg að þetta var óhjákvæmileg niðurstaða, eins dapurlegt og það er.

Vandasamt stökk

Í einni af myndunum um Bleika pardusinn reynir seinheppni rannsóknarlögreglumaðurinn Clouseau að stökkva yfir kastalasíki með stöng, líkt og stangarstökkvari. Ekki tekst betur til en svo að stöngin reynist of stutt þannig að Clouseau fer beina leið á eftir henni ofan í síkið og endar á bólakafi.

Það mætti segja að við værum í áþekkri stöðu; við erum að stökkva yfir síki og vitum ekki hversu djúpt það er. Við þurfum þess vegna að stilla af lengdina á stönginni í miðju stökki, jafnvel oft og mörgum sinnum, og vera tilbúin að bregðast hratt við. Stöngin má hvorki vera of stutt né of löng; hvorugt myndi skila tilætluðum árangri; við færum annað hvort á kaf eða gætum ekki hafið okkur á loft. Ég tel að okkur sé að takast þetta nokkuð vel.

Þegar ég sagði í viðtali efnislega eitthvað á þá leið að við gætum þurft að stilla þetta af tíu sinnum tók ég sérstaklega fram að þar ætti ég ekki endilega við númeraða „pakka“, þó að spurningin hefði lotið að þeim. Þetta samhengi skilaði sér ekki til allra, sem er óheppilegt. Ég lagði líka áherslu á að nú væri það atvinnulífsins og fjármálakerfisins að taka ákvarðanir með hliðsjón af útspili stjórnvalda.

Á jákvæðum nótum

Þrátt fyrir erfiðleika og áskoranir þurfum við líka að horfa á björtu hliðarnar. Baldur Kristjánsson ljósmyndari er með stórgóða myndaseríu á Instagram (baldurkristjans) sem hann kallar því skemmtilega tvíræða nafni „Covid Positive“ eða „Covid jákvæð“. Hann biður fólk á förnum vegi að nefna eitthvað eitt jákvætt við ástandið í dag. Mér finnst við hæfi í sumarbyrjun að fá að vitna í nokkur svör hér.

„Þetta er nýtt upphaf og tækifæri til þess að ná sátt við sjálf okkur og umheiminn.“ „Sumarið er komið.“ „Það er eitthvað gott við að geta ekki planað framtíðina.“ „Að vera einn með vindinum á hjólinu.“ „Meira heima.“ „Byrjaður að elda meira.“ „Meiri tími með fjölskyldunni.“ „Hvað öllum er umhugað um hvert annað.“ „Verður geggjað að ferðast innanlands í sumar.“ „Samvera með börnunum.“ „Meiri ró.“ „Vera meira úti í íslenskri náttúru.“ „Dýrka að vera heima.“ „Þurfum að hugsa hlutina upp á nýtt.“ „Fólk kemst ekki hjá því að leita innávið.“ „Miklu meira með nýfæddu barni en ella.“ „Maður getur hægt á sér, náð andanum og hugsað allar hugsanir til enda.“ „Sýnir okkur hvað við getum þegar við stöndum saman.“ „Lærum vonandi eitthvað á þessu, tölum meira saman.“ „Aldrei verið þakklátari en nú fyrir hverja stund sem ég hitti góða vini eða fjölskyldu.“

Mitt svar eftir gott spjall við Baldur var: „Nýjar lausnir.“

Gleðilegt sumar kæru lesendur.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 3. maí 2020.