Fleiri stór skref í einföldun regluverks og stjórnsýslu
'}}

„Þessi frumvörp eru mikilvægt skref og munu skila sér í einfaldra regluverki, sem er til hagsbóta fyrir allt samfélagið. Með einföldu og skilvirku eftirliti búum við til samkeppnishæfara umhverfi fyrir fyrirtæki, neytendum til hagsbóta,“ segir Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem nýverið mælti fyrir tveimur frumvörpum á Alþingi sem innifela að 34 lagabálkar verða felldir brott í heild sinni, 6 nefndir lagðar niður og stjórnsýsla einfölduð á málasviðum ráðherra. Hann hefur tvívegis áður tekið stór skref í þessum efnum, nú síðast í febrúar.

Frumvörpin eru afrakstur víðtæks samráðs sem haft var við helstu hagsmunaaðila og stofnanir ráðuneytisins, s.s. Matvælastofnun, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Bændasamtök Íslands og undirsamtök þeirra, Samtök atvinnulífsins, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu o.fl.

Um er að ræða fjölmargar breytingar á núgildandi lögum á sviði matvæla, landbúnaðar, sjávarútvegs og fiskeldis:

  • 34 lagabálkar felldir brott í heild sinni ásamt úreltum bráðabirgðaákvæðum.
  • Fella brott úrskurðarnefnd um ólögmætan sjávarafla, markanefnd, yrkisréttarnefnd, sauðfjársjúkdómanefnd, ullarmatsnefnd og gærumatsnefnd.
  • Tiltekin starfsleyfi matvælafyrirtækja verði gefin út án tímabindingar.
  • Milliganga ráðuneytisins og staðfestingar ráðherra afnumdar.
  • Einföldun stjórnsýslu við merkingu sauðfjár.
  • Stjórnsýsla skyndilokana er einfölduð.
  • Draga úr skýrsluskilum hjá fiskeldisfyrirtækjum sem framleiða minna en 20 tonn á ári.
  • Fella brott skyldu Fiskistofu til að leggja til sérstakar afladagbækur.
  • Fella brott starfsleyfisskyldu matvælafyrirtækja sem starfrækja fiskeldisstöðvar, og eru með gilt rekstrarleyfi,  vegna frumframleiðslu.
  • Fella brott tilkynningarskyldu innflytjenda og framleiðenda fóðurs innan EES-svæðisins vegna tiltekins fóðurs.
  • Felld er brott heimild ráðherra til að veita krókaaflamarksbátum leyfi til að stunda veiðar á botndýrum með þeim veiðarfærum sem til þarf svo og til hrognkelsaveiða í net. Þess í stað er lagt til að fjallað verði um slíkar veiðar í reglugerð.
  • Stjórnsýslumeðferð veiðitækja sem notuð hafa verið erlendis er einfölduð.
  • Fella brott leyfisskyldu til dragnótaveiða og þess í stað er lagt til að fjallað verði um veiðarnar í reglugerð.
  • Lengja skipunartíma verðlagsnefndar búvara.

Allt er þetta liður í 2. áfanga aðgerðaáætlunar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til næstu þriggja ára sem lítur að einföldun regluverks í samræmi við stjórnarsáttmálann og er forgangsverkefni í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Eins og fyrr segir felldi ráðherra síðasta vetur 1.242 reglugerðir og tvo lagabálka auk þess sem regluverk sem gildir um matvælakeðjuna var einfaldað sem var liður í fyrsta áfanga aðgerðaráætlunarinnar.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að gert verði átak í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings og lögð áhersla á skilvirka og réttláta stjórnsýslu. Þessi aðgerð er mikilvægt skref á þeirri braut.

Sjá nánar í frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisns hér.