Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:
Fræg er sagan af því þegar Milton Friedman var á ferð um Asíu og kom að hópi manna sem voru að grafa skurð með skóflum. Þegar hann spurðist fyrir um af hverju þeir nýttu ekki nútímatækni fékk hann þau svör að þetta væri gert svona til að skapa fólki atvinnu. Gröfur og vinnuvélar myndu fækka störfum. Hann benti á að ef tilgangurinn væri fyrst og fremst að skapa störf þá væri nær að nota matskeiðar við gröftinn. Þannig væri hægt að skapa ógrynni starfa.
Þessi saga kom upp í hugann þegar þingmaður Samfylkingarinnar lagði það til á dögunum að ein helsta lausnin við þeim vanda sem nú blasir við okkur í efnahagslífinu væri sú að fjölga starfsmönnum hins opinbera. Hann tiltók sérstaklega nokkrar stéttir opinberra starfsmanna en sumar þeirra eru nú í framvarðarsveit í baráttunni gegn Covid-19-faraldrinum.
Það getur ekki verið sjálfstætt markmið stjórnvalda að fjölga opinberum starfsmönnum – ekkert fremur en að rétta vegagerðarmönnunum matskeiðar. Tillaga þingmannsins myndi ekki leysa vandann heldur aðeins virka eins og plástur á blæðandi sár sem að lokum þarf að græða.
Ríkisrekstur á vissulega rétt á sér á ákveðnum sviðum en í atvinnulífinu fer best á því að einstaklingar og fyrirtæki þeirra fái að keppa á frjálsum markaði án of mikilla afskipta ríkisvaldsins. Ríkið tryggir umgjörðina en kemur sem minnst að sjálfum rekstrinum. Öflugt atvinnulíf stendur undir verðmætasköpun hagkerfisins og þar með skatttekjum ríkis og sveitarfélaga. Sagan kennir okkur að blandað hagkerfi eins og okkar stendur öðrum kerfum framar þegar kemur að hagsæld, velmegun og öryggi borgaranna.
Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um grunnþjónustu hins opinbera, tryggja öflugt velferðarkerfi, efla menntakerfið, löggæslu og þannig mætti áfram telja. Um þetta er óþarfi að deila, enda samstaða um það á vettvangi stjórnmálanna. Sjálfstæðisflokkurinn leggur einnig áherslu á það hagsmunamál okkar allra að skapa skilyrði fyrir öflugt atvinnulíf og verðmætasköpun í hagkerfinu. Þau verðmæti greiða fyrir hinn opinbera rekstur. Því meiri verðmæti sem einkageirinn skapar því öflugri og betri getur hin nauðsynlega opinbera þjónusta verið.
Baráttan við Covid-19 hefur kostað miklar efnahagslegar fórnir. Einhugur þjóðarinnar sýnir að það ríkir almennur skilningur á því að fyrst þarf að gæta að lífi og heilsu fólks og síðan þarf að að búa svo um hnútana að öflugt atvinnulíf fái þrifist í landinu á nýjan leik. Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar hljóta að taka mið af framangreindu. Standa verður vörð um heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfið en um leið verður að verja hagkerfið sem hér hefur byggst upp og mun standa undir grunnþjónustunni og farsæld okkar í framtíðinni.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. apríl 2020.