Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
Á sama tíma og ráðuneyti mitt hefur gripið til fjölmargra aðgerða til að lágmarka neikvæð áhrif COVID-19 á íslenskan landbúnað og sjávarútveg til skemmri og lengri tíma hefur átt sér stað markviss vinna við að skapa öfluga viðspyrnu þegar þetta tímabundna ástand er gengið yfir. Ég er nefnilega sannfærður um að Ísland er í algjörri lykilstöðu til að nýta enn betur og markvissar þau tækifæri sem við okkur blasa í íslenskri matvælaframleiðslu.
Ríkisstjórnin kynnti í gær annan áfanga aðgerða til að bregðast við áhrifum veirunnar. Ein af þeim aðgerðum er stofnun Matvælasjóðs sem unnið hefur verið að í mínu ráðuneyti undanfarin misseri. Sjóðurinn mun gegna lykilhlutverki í þeirri mikilvægu viðspyrnu sem tekur við eftir að þetta tímabundna ástand er gengið yfir. Frumvarp mitt um stofnun sjóðsins var afgreitt úr ríkisstjórn í gær og vonast ég til að mæla fyrir því innan fárra daga.
500 m.kr. á þessu ári
Matvælasjóður mun hafa það hlutverk að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi. Sjóðurinn mun styrkja verðmætasköpun við framleiðslu, vinnslu og markaðssetningu matvæla og verður við úthlutun sérstök áhersla lögð á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og almennar aðgerðir til að auka samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu.
Matvælasjóður verður til með sameiningu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóðs í sjávarútvegi. Til stofnunar sjóðsins verður varið 500 m.kr. sem verður úthlutað á þessu ári. Við úthlutun þeirra fjármuna en einnig við frekari stefnumótun fyrir hinn nýja sjóð verður þess gætt að skipting fjármagns til landbúnaðar og sjávarútvegs verði með sambærilegum hætti og verið hefur. Jafnframt er mikilvægt að huga bæði að stærri og smærri verkefnum.
Á árinu 2021 bætast síðan við sjóðinn þeir fjármunir sem nú renna í Framleiðnisjóð landbúnaðarins og AVS-sjóðinn. Með sameiningu þessara sjóða, sem áformað er að taki gildi um næstu áramót, er um leið horft til þess að spara rekstrarkostnað og skapa með því aukið svigrúm til að styðja við góð verkefni.
Áhersla á að efla matvælaframleiðslu
Unnið er að mótun matvælastefnu fyrir Ísland sem verður kynnt á allra næstu vikum. Sú stefnumótun er til merkis um áherslu stjórnvalda á að efla matvælaframleiðslu hér á landi og laða fram nýja sprota. Mikil gerjun er í nýsköpun meðal matvælafyrirtækja og mörg dæmi eru um árangursríkt þverfaglegt samstarf fyrirtækja og frumkvöðla. Vel skipulagður matvælasjóður með áherslu á nýsköpun og þróun og aukna verðmætasköpun við vinnslu matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi styður við þetta og stuðlar að bættri nýtingu fjármagns til framþróunar á þessu sviði.
Fjárfest í framtíðinni
Með stofnun sjóðsins og 500 m.kr. fjárveitingu á þessu ári erum við að fjárfesta í framtíðinni. Við erum í krafti nýsköpunar og þróunar að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar í landbúnaði og sjávarútvegi til hagsbóta fyrir allt samfélagið.
Við Íslendingar erum matvælaþjóð. Byggjum afkomu okkar öfluga samfélags að stórum hluta á því að nýta auðlindir okkar með sjálfbærum hætti, bæði til sjós og lands. Því er stofnun Matvælasjóðs, með áherslu á nýsköpun, sjálfbærni, gæði, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu, ekki bara skref í rétta átt – heldur ein forsenda þeirrar sóknar sem fram undan er í íslenskri matvælaframleiðslu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. apríl 2020.