Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:
Íslenskri þjóð hefur alltaf tekist að fást við erfið verkefni. Við höfum gengið í gegnum það í margar aldir. Og mér finnst við kunna ákaflega vel að taka þessu sem að höndum ber núna.“
Þetta sagði Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti Íslands, sem í vikunni fagnaði 90 ára afmæli, þegar hún var spurð hvernig henni fyndist þjóðinni ganga að takast á við kórónufaraldurinn.
Taka má undir þessi orð. Við höfum sem þjóð gengið í gegnum ýmislegt og tekist á við stór og erfið verkefni. Þeir sem eldri eru muna vel eftir náttúruhamförum, stríðsátökum, kreppum, höftum og öðrum erfiðum aðstæðum. Við vitum líka af hamförum, plágum og erfiðri lífsbaráttu frá fyrri öldum, aðstæðum sem tóku mörg líf og skildu eftir mörg sár – en um leið þjóð sem með baráttuanda og hugrekki heldur áfram.
Forsendan fyrir því að geta staðið upp aftur er að trúa því og treysta að við sem þjóð höfum til þess samfélagslega og efnahagslega burði að láta lífið halda áfram. Þó svo að okkur greini á um ýmislegt í hinu daglega lífi, hvort sem það er pólitík eða aðrar lífsskoðanir, þá höfum við samfélagslega burði til að takast á við erfiðleika saman og af einingu.
Við höfum líka, sem betur fer, efnahagslega burði til að takast á við flókin og snúin verkefni, jafnvel miklar hamfarir. Grunnurinn að þeim efnahagslegu burðum er lagður með frjálsu markaðshagkerfi þar sem einstaklingsframlagið fær að blómstra, þar sem við um leið byggjum upp öflugt velferðarkerfi og tryggjum sterka innviði. Íslenska hagkerfið er ekki stórt en það stendur á sterkum grunni. Samhliða erum við með öflugt mennta- og heilbrigðiskerfi, við stöndum framarlega í tækninýjungum og við erum með öflugt atvinnulíf. Það sem meira er, við erum sífellt að hugsa nýja leiðir til að bæta þau sterku kerfi sem við erum nú þegar með og alla þessa þætti sem hér eru nefndir. Við hugsum í lausnum og við erum sífellt að sækja fram. Kannski af því að við vitum að ekkert gerist af sjálfu sér og í þjóðarsálinni býr vilji til að gera alltaf betur, gera lífið auðveldara og skjólið sterkara fyrir utanaðkomandi áföllum.
Á þessum grunni munum við einnig byggja hagkerfið til lengri tíma. Þannig höfum við burði til að takast á við verkefni framtíðarinnar, hvort sem þau eru auðveld eða erfið.
Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér, en við vitum þó að rétt eins og við höfum tekist á við erfið verkefni í fortíð og nútíð – þá munum við einnig þurfa að gera það í framtíðinni. Þess vegna skiptir máli hvernig samfélag við byggjum upp.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. apríl 2020.