Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra:
Þann 10. apríl voru áttatíu ár liðin frá því að Íslendingar tóku þá gæfuríku ákvörðun að taka meðferð utanríkismála í eigin hendur. Það var mikilvægt skref í að tryggja sjálfstæði þjóðarinnar til framtíðar og markaði upphaf íslensku utanríkisþjónustunnar. Nú eins og þá er mikilvægt að hafa áfram öfluga utanríkisþjónustu.
Sé litið yfir áttatíu ára sögu utanríkisþjónustunnar hefur starfsemi hennar sjaldan verið Íslendingum sýnilegri en á undanförnum vikum. Sér í lagi þeim þúsundum einstaklinga sem hafa komið heim frá öllum heimsins hornum með liðsinni borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins og þeirra ríflega tvöhundruð ræðismanna sem vinna sem sjálfboðaliðar fyrir Ísland í níutíu löndum.
Á tímum sem þessum kemur skýrt í ljós að Íslendingar einir geta staðið vörð um hagsmuni lands og þjóðar á erlendum vettvangi, oft í gegnum alþjóðlegt samstarf og víðfeðmt tengslanet utanríkisþjónustunnar. Þar kemur fyrst upp í hugann norræn samvinna sem hefur í gegnum tíðina reynst okkur dýrmæt. Nærtækt dæmi er samvinna borgaraþjónusta utanríkisráðuneyta Norðurlandanna sem hafa að undanförnu unnið saman að flóknum verkefnum á borð við borgaraflug frá fjarlægum stöðum, þaðan sem áætlunarferðum flugfélaga hefur verið hætt. Fundir utanríkisráðherra Norðurlandanna hafa verið tíðir á liðnum vikum og ljóst er að mikil ánægja ríkir með þá samheldni sem norrænt samstarf á sviði borgaraþjónustu hefur leitt í ljós.
Þrátt fyrir smæðina sinnir utanríkisþjónusta Íslendinga hlutverki sínu af krafti eins og skýrt hefur komið fram í verki á undanförnum vikum. Það skiptir miklu máli fyrir sjálfstæða þjóð og hefur gert í 80 ára sögu utanríkisþjónustunnar. Á grundvelli sambandslagasamningsins frá 1918 fóru Danir með íslensk utanríkismál í umboði Íslendinga, en Íslendingar tóku þau í sínar hendur eftir hernám Danmerkur 9. apríl 1940. Líkt og nú voru aðstæður þá ekki síður fordæmalausar.
Eftir sem áður eru meginverkefni íslenskrar utanríkisþjónustu þau sömu: að gæta hagsmuna Íslendinga og íslenskra fyrirtækja erlendis. Utanríkisþjónustan er útvörður þjóðarinnar hvað varðar varnar- og öryggismál, utanríkisviðskipti og menningarmál og gætir víðari hagsmuna með öflugu málsvarastarfi og framlagi í þágu sjálfbærrar þróunar og mannréttinda. Þar skiptir alþjóðleg samvinna höfuðmáli. Við þetta má svo bæta virðingu fyrir alþjóðalögum, sem skiptir minni ríki miklu máli við að gæta hagsmuna sinna gagnvart hinum stóru. Alþjóðleg samvinna felur enn fremur í sér viðurkenningu erlendra ríkja á að Ísland sé frjálst og fullvalda ríki. Þannig má segja að alþjóðasamstarfið og fullveldið styðji hvort við annað. Þegar faraldrinum linnir verður alþjóðleg samvinna, viðskipti og virk hagsmunagæsla sem fyrr, undirstaða þess að lífskjör og tækifæri hérlendis verði áfram með því sem best sem gerist í heiminum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. apríl 2020.