Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður:
Öllum þykir lýðræði göfugt stjórnarfar. Sennilega hefur ekkert betra verið fundið upp. Sumir dásama jafnvel beint lýðræði og telja það allra meina bót þótt ótal dæmi sýni að fulltrúalýðræði sé affarasælla. Þeir, sem vilja nýta kosti lýðræðis, dansa stundum á mörkum þess og lýðskrums. Það er erfitt að öðlast lýðhylli að verðleikum. Þess eru dæmi að einstaklingar séu mærðir í ræðu og riti. Oft verður mærðin slík að lofið snýst í andhverfu sína og verður að háði.
Þannig bar eitt sinn við að vel metið skáld ritaði grein í Morgunblaðið þar sem skáldið mærði forseta lýðveldisins og vildi leggja í samtök til að tilnefna forsetann til friðarverðlauna Nóbels. Sá er þetta ritar reiddist mjög og taldi skáldið hið allra versta skáld. Sá, er þetta ritar, er þekktur af skapstillingu og las greinina aftur. Þá lá í augum uppi að skáldið var að oflofa forsetann með háði, og skáldið varð aftur hið besta skáld.
Lýðsleikjur
Það er tilraunarinnar virði að reyna að skilgreina lýðsleikjur. Sennilega er megineinkenni lýðsleikja það, að lýðsleikjur skilgreina sig sem gallalausar persónur til fyrirmyndar fyrir aðra. Þeir, sem eru lýðsleikjum ekki að skapi, eru hæddir og smánaðir við hvert tækifæri, því „þau“ eru ekki eins og „við“.
Í góðri bók segir „Hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“ Í sömu bók segir einnig: „Öll sín verk gera þeir til að sýnast fyrir mönnum, þeir breikka minnisborða sína og stækka skúfana. Ljúft er þeim að skipa hefðarsæti í veislum og æðsta bekk í samkundum, láta heilsa sér á torgum og kallast meistarar af mönnum.“ Hér er fjallað um farisea í Svörtu bókinni.
Íslendingar í Svíþjóð
Eitt sinn var greinarhöfundur á leið heim frá útlöndum. Eins og oft vill verða ræður hending sessunaut í flugi. Sessunautur minn var Svíi, sem starfaði alla tíð hjá Sameinuðu þjóðunum. Hann stundaði nám við Stokkhólmsháskóla í seinni heimsstyrjöldinni. Lýsing sessunautarins á íslenskum námsmönnum var heldur nöturleg. Hann sagði flesta hafa verið mikla kommúnista en margir þeirra hafi verið illa agaðir og drykkfelldir. Hann mundi eitt nafn, það var Haralz, aðeins mikill kommúnisti en mjög agaður. Ég gat róað sessunautinn með því að segja honum að Haralz væri einn af efnahagssérfræðingum á hægri væng íslenskra stjórnmála. Því skal haldið til haga að í Svíþjóð voru margir Íslendingar við nám í verkfræði, læknisfræði og jarðfræði. Enginn efast um hæfni þeirra og framlag til eflingar lands og lýðs þegar námi lauk og þeir hófu störf á Íslandi.
Sessunautur í flugvél
Eitt sinn sagði ég Jónasi Haralz þessa sögu og nafngreindi sessunautinn. Jónas mundi ekki eftir honum. Jafnframt ræddi Jónas þennan hluta ævi sinnar af yfirvegun.
Það kom mér því ekki á óvart þegar ég fann eftirfarandi um Jónas Haralz í Þjóðviljanum 1946, en þá var hann ungur hagfræðingur:
„Í dag mun alþýðuæska Reykjavíkur fylkja sér um sinn frambjóðanda og eignast þannig djarfan, ötulan og glæsilegan fulltrúa í bæjarstjórn“.
„Jónas Haralz verður í dag gerður að málsvara hinnar reykvísku verkalýðsæsku í bæjarstjórn“. Sennilega var Jónas borgarstjóraefni.
Í ljósi sögunnar þá er hér vel smurt lof og verður skoplegt 75 árum síðar.
Jónas reyndi einnig fyrir sér í landsmálum þetta ár, því hann var í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Suður-Þingeyjarsýslu, gegn Jónasi frá Hriflu.
Enginn, sem þekkir til, efast um þekkingu Jónasar á hagfræði.
Þegar Jónas gerðist fráhverfur sósíalisma og gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn þurfti hann að þola rætnar athugasemdir í sama blaði og hampaði honum 1946. Jónas sóttist ekki eftir lýðhylli en hann varð ráðagóður embættismaður.
JónasHaralz var einlægur lýðræðissinni. Þannig er aðdáun á lýðræði ekki vís vegur til lýðhylli.
Annar „hagfræðingur“ frá Svíþjóð
Eitt sinn las ég í Sögu utanríkisþjónustunnar um álit eins Svíþjóðarhagfræðings, sem raunar hafði ekki lokið prófi, frekar en Jón Sigurðsson, frelsishetja. Þar hafði komið fram í blaði í Moskvu, Síðdegis-Moskvu, að prógressívir hagfræðingar, þýðing íslenska sendiráðsins, teldu aðild Íslands að Efnahagsbandalagi Evrópu eða sameiginlega markaðnum, óráð. Þar var próflausi Svíþjóðarhagfræðingurinn álitsgjafi. Hann var fyrst og síðast kommúnisti. Hvað prógressívur hagfræðingur þýðir er mér óljóst en sennilega á það að þýða „framsýnn“, frekar en verið skop hjá sendiráðinu.
Alvitar, rasistar og virtir hagfræðingar
Nú um stundir vaða uppi nokkrir alvitar eða kóvitar og hafa skyndilega mikið vit á faraldsfræði og veirusjúkdómum. Alvita og kóvita varðar ekkert um hvort aðrir hafi rannsakað og komist að einhverju. Skyndiþekking er borin fram af mikilli sannfæringu sem sannleikur. Einn al- og kóviti hefur orðið uppvís að ósannsögli í störfum sínum á Alþingi til þess að þjóna einkahagsmunum vina sinna.
Einn þekktur íslenskur rasisti taldi að berklar væru sjúkdómur, sem aðeins undirmálsfólk fengi. Sjálfur dó rasistinn úr berklum en hann fékk heiðursútför í Berlín, þar sem kista hans var lögð á vagn og dregin af átta svörtum hestum.
Einnig má nefna þegar þingmaður „Vinstri grænna“ vitnaði í „hinn virta hagfræðing“. Tilvitnunin í „hinn virta“ var fullkomin endaleysa en féll vel að lýðskrumi alvitra.
Lýðræði og úrræði
Alþingi er kjörið í almennum kosningum og að flestu leyti í samræmi við frumreglur lýðræðis. Alþingi endurspeglar nokkurn veginn kjörfylgi stjórnmálaflokka, enda þótt atkvæði landsmanna vegi ekki jafnt. Lýðskrumarar telja það höfuðatriði að lækka laun alþingismanna.
Lýðskrum sumra nýkrýndra verkalýðsleiðtoga nú kemur fram með þeim hætti að þeir virðast ætla að hefja baráttu fyrir því að skerða greiðslur úr lífeyrissjóðum. Hún er undarleg tík, pólitíkin!
Gera verður þá kröfu að alþingismenn gæti hófs í yfirboðum á efnahagslegum úrlausnum, sem ráðast þarf í til þess að gera Ísland lífvænlegt meðan á faraldri stendur og þegar „Eyjólfur“ hressist.
Stundum líður greinarhöfundi þegar alvitar og kóvitar tala eins og frú Árland sem sagði: „Þessi kvenmaður hefur verið hortug í svörum altaf síðan hún kom í húsið, full af einhvers konar norðanmennsku einsog hún væri yfir mér.“
Alvitalausnir koma frá þeim sem eru „yfir“ öðrum. „Það ber nokkuð nýrra við ef frelsi sálarinnar kemur úr Norðurlandi:“ Að breyttu breytanda, alvitar fyrir Norðurland.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. mars 2020.