Um lýðræði, lýðhylli og lýðskrum
'}}

Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður:

Öllum þykir lýðræði göf­ugt stjórn­ar­far. Senni­lega hef­ur ekk­ert betra verið fundið upp. Sum­ir dá­sama jafn­vel beint lýðræði og telja það allra meina bót þótt ótal dæmi sýni að full­trúa­lýðræði sé affara­sælla. Þeir, sem vilja nýta kosti lýðræðis, dansa stund­um á mörk­um þess og lýðskrums. Það er erfitt að öðlast lýðhylli að verðleik­um. Þess eru dæmi að ein­stak­ling­ar séu mærðir í ræðu og riti. Oft verður mærðin slík að lofið snýst í and­hverfu sína og verður að háði.

Þannig bar eitt sinn við að vel metið skáld ritaði grein í Morg­un­blaðið þar sem skáldið mærði for­seta lýðveld­is­ins og vildi leggja í sam­tök til að til­nefna for­set­ann til friðar­verðlauna Nó­bels. Sá er þetta rit­ar reidd­ist mjög og taldi skáldið hið allra versta skáld. Sá, er þetta rit­ar, er þekkt­ur af skap­still­ingu og las grein­ina aft­ur. Þá lá í aug­um uppi að skáldið var að oflofa for­set­ann með háði, og skáldið varð aft­ur hið besta skáld.

Lýðsleikj­ur

Það er til­raun­ar­inn­ar virði að reyna að skil­greina lýðsleikj­ur. Senni­lega er meg­in­ein­kenni lýðsleikja það, að lýðsleikj­ur skil­greina sig sem galla­laus­ar per­són­ur til fyr­ir­mynd­ar fyr­ir aðra. Þeir, sem eru lýðsleikj­um ekki að skapi, eru hædd­ir og smánaðir við hvert tæki­færi, því „þau“ eru ekki eins og „við“.

Í góðri bók seg­ir „Hver sem upp hef­ur sjálf­an sig mun auðmýkt­ur verða en sá sem lít­il­lækk­ar sjálf­an sig mun upp haf­inn verða.“ Í sömu bók seg­ir einnig: „Öll sín verk gera þeir til að sýn­ast fyr­ir mönn­um, þeir breikka minn­is­borða sína og stækka skúf­ana. Ljúft er þeim að skipa hefðarsæti í veisl­um og æðsta bekk í sam­kund­um, láta heilsa sér á torg­um og kall­ast meist­ar­ar af mönn­um.“ Hér er fjallað um farisea í Svörtu bók­inni.

Íslend­ing­ar í Svíþjóð

Eitt sinn var grein­ar­höf­und­ur á leið heim frá út­lönd­um. Eins og oft vill verða ræður hend­ing sessu­naut í flugi. Sessu­naut­ur minn var Svíi, sem starfaði alla tíð hjá Sam­einuðu þjóðunum. Hann stundaði nám við Stokk­hólms­háskóla í seinni heims­styrj­öld­inni. Lýs­ing sessu­naut­ar­ins á ís­lensk­um náms­mönn­um var held­ur nöt­ur­leg. Hann sagði flesta hafa verið mikla komm­ún­ista en marg­ir þeirra hafi verið illa agaðir og drykk­felld­ir. Hann mundi eitt nafn, það var Haralz, aðeins mik­ill komm­ún­isti en mjög agaður. Ég gat róað sessu­naut­inn með því að segja hon­um að Haralz væri einn af efna­hags­sér­fræðing­um á hægri væng ís­lenskra stjórn­mála. Því skal haldið til haga að í Svíþjóð voru marg­ir Íslend­ing­ar við nám í verk­fræði, lækn­is­fræði og jarðfræði. Eng­inn ef­ast um hæfni þeirra og fram­lag til efl­ing­ar lands og lýðs þegar námi lauk og þeir hófu störf á Íslandi.

Sessu­naut­ur í flug­vél

Eitt sinn sagði ég Jónasi Haralz þessa sögu og nafn­greindi sessu­naut­inn. Jón­as mundi ekki eft­ir hon­um. Jafn­framt ræddi Jón­as þenn­an hluta ævi sinn­ar af yf­ir­veg­un.

Það kom mér því ekki á óvart þegar ég fann eft­ir­far­andi um Jón­as Haralz í Þjóðvilj­an­um 1946, en þá var hann ung­ur hag­fræðing­ur:

„Í dag mun alþýðuæska Reykja­vík­ur fylkja sér um sinn fram­bjóðanda og eign­ast þannig djarf­an, öt­ul­an og glæsi­leg­an full­trúa í bæj­ar­stjórn“.

„Jón­as Haralz verður í dag gerður að mál­svara hinn­ar reyk­vísku verka­lýðsæsku í bæj­ar­stjórn“. Senni­lega var Jón­as borg­ar­stjóra­efni.

Í ljósi sög­unn­ar þá er hér vel smurt lof og verður skop­legt 75 árum síðar.

Jón­as reyndi einnig fyr­ir sér í lands­mál­um þetta ár, því hann var í fram­boði fyr­ir Sósí­al­ista­flokk­inn í Suður-Þing­eyj­ar­sýslu, gegn Jónasi frá Hriflu.

Eng­inn, sem þekk­ir til, ef­ast um þekk­ingu Jónas­ar á hag­fræði.

Þegar Jón­as gerðist frá­hverf­ur sósí­al­isma og gekk til liðs við Sjálf­stæðis­flokk­inn þurfti hann að þola rætn­ar at­huga­semd­ir í sama blaði og hampaði hon­um 1946. Jón­as sótt­ist ekki eft­ir lýðhylli en hann varð ráðagóður emb­ætt­ismaður.

Jón­asHaralz var ein­læg­ur lýðræðissinni. Þannig er aðdáun á lýðræði ekki vís veg­ur til lýðhylli.

Ann­ar „hag­fræðing­ur“ frá Svíþjóð

Eitt sinn las ég í Sögu ut­an­rík­isþjón­ust­unn­ar um álit eins Svíþjóðar­hag­fræðings, sem raun­ar hafði ekki lokið prófi, frek­ar en Jón Sig­urðsson, frels­is­hetja. Þar hafði komið fram í blaði í Moskvu, Síðdeg­is-Moskvu, að pró­gress­í­v­ir hag­fræðing­ar, þýðing ís­lenska sendi­ráðsins, teldu aðild Íslands að Efna­hags­banda­lagi Evr­ópu eða sam­eig­in­lega markaðnum, óráð. Þar var próf­lausi Svíþjóðar­hag­fræðing­ur­inn álits­gjafi. Hann var fyrst og síðast komm­ún­isti. Hvað pró­gress­í­v­ur hag­fræðing­ur þýðir er mér óljóst en senni­lega á það að þýða „fram­sýnn“, frek­ar en verið skop hjá sendi­ráðinu.

Al­vit­ar, ras­ist­ar og virt­ir hag­fræðing­ar

Nú um stund­ir vaða uppi nokkr­ir al­vit­ar eða kó­vit­ar og hafa skyndi­lega mikið vit á far­alds­fræði og veiru­sjúk­dóm­um. Al­vita og kó­vita varðar ekk­ert um hvort aðrir hafi rann­sakað og kom­ist að ein­hverju. Skyndiþekk­ing er bor­in fram af mik­illi sann­fær­ingu sem sann­leik­ur. Einn al- og kóviti hef­ur orðið upp­vís að ósann­sögli í störf­um sín­um á Alþingi til þess að þjóna einka­hags­mun­um vina sinna.

Einn þekkt­ur ís­lensk­ur ras­isti taldi að berkl­ar væru sjúk­dóm­ur, sem aðeins und­ir­máls­fólk fengi. Sjálf­ur dó ras­ist­inn úr berkl­um en hann fékk heiðursút­för í Berlín, þar sem kista hans var lögð á vagn og dreg­in af átta svört­um hest­um.

Einnig má nefna þegar þingmaður „Vinstri grænna“ vitnaði í „hinn virta hag­fræðing“. Til­vitn­un­in í „hinn virta“ var full­kom­in enda­leysa en féll vel að lýðskrumi al­vitra.

Lýðræði og úrræði

Alþingi er kjörið í al­menn­um kosn­ing­um og að flestu leyti í sam­ræmi við frum­regl­ur lýðræðis. Alþingi end­ur­spegl­ar nokk­urn veg­inn kjör­fylgi stjórn­mála­flokka, enda þótt at­kvæði lands­manna vegi ekki jafnt. Lýðskrum­ar­ar telja það höfuðatriði að lækka laun alþing­is­manna.

Lýðskrum sumra nýkrýndra verka­lýðsleiðtoga nú kem­ur fram með þeim hætti að þeir virðast ætla að hefja bar­áttu fyr­ir því að skerða greiðslur úr líf­eyr­is­sjóðum. Hún er und­ar­leg tík, póli­tík­in!

Gera verður þá kröfu að alþing­is­menn gæti hófs í yf­ir­boðum á efna­hags­leg­um úr­lausn­um, sem ráðast þarf í til þess að gera Ísland líf­væn­legt meðan á far­aldri stend­ur og þegar „Eyj­ólf­ur“ hress­ist.

Stund­um líður grein­ar­höf­undi þegar al­vit­ar og kó­vit­ar tala eins og frú Árland sem sagði: „Þessi kvenmaður hef­ur verið hort­ug í svör­um altaf síðan hún kom í húsið, full af ein­hvers kon­ar norðan­mennsku ein­sog hún væri yfir mér.“

Al­vita­lausn­ir koma frá þeim sem eru „yfir“ öðrum. „Það ber nokkuð nýrra við ef frelsi sál­ar­inn­ar kem­ur úr Norður­landi:“ Að breyttu breyt­anda, al­vit­ar fyr­ir Norður­land.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. mars 2020.