„Við samþykktum nú á Alþingi í kvöld umfangsmestu efnahagsaðgerðir sem gripið hefur verið til á Íslandi. Þetta eru aðgerðir sem við teljum nauðsynlegar til að bregðast við þeirri ógn sem steðjar að afkomu fólks, störfum og starfsemi fyrirtækja – undirstöðum allrar velsældar þjóðarinnar,“ segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra á facebook-síðu sinni 30. mars eftir að Alþingi afgreiddi þau mál sem snúa að efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar sem tilkomnar eru vegna Covid-19.
„Auk úrræða sem við höfðum áður samþykkt, hlutastarfaleiðinni og launum í sóttkví, er umfangið þegar allt er talið yfir 200 milljarðar króna, eða um 8% af landsframleiðslu. Það er mikil gæfa að góð staða ríkisfjármálanna skuli gera okkur kleift að hrinda þessum aðgerðum í framkvæmd.
Við meðferð málanna á Alþingi var hlustað vel á ábendingar og tillögur um hvernig mætti koma til móts við atvinnulífið og tekið tillit til þess við útfærslu úrræðanna“, sagði Bjarni.
Flýting fjárfestinga skapa um 1.200 ársverk
Hann sagði að flýting fjárfestinga og aukinn kraftur skapi um 800 bein ársverk og að ætla megi að fyrir hver tíu störf sem skapist með þessum hætti verið til önnur fimm vegna afleiddra áhrifa.
„Samtals eru þetta því um 1200 ársverk. Við munum setja 18 ma.kr. í fjárfestingar í viðbót við þá 74 ma.kr. sem þegar hafði verið ákveðið að verja í fjárfestingar á þessu ári. Þetta er um 24% aukning. Að auki fjárfesta félög hins opinbera fyrir um 5 ma.kr.,“ sagði Bjarni.
Allt að 70% ríkisábyrgð á brúarlánum
Þá segir enn fremur í innleggi Bjarna: „Heimildum til að lækka, fella niður eða fresta ýmsum opinberum gjöldum er ætlað að tryggja fyrirtækjum lausafé til rekstrar og vernda þannig störf. Ætla má að þessar aðgerðir auki lausafé fyrirtækjanna um 100 ma.kr. Ríkið mun eftir meðferð þingsins taka á sig enn frekari ábyrgð vegna brúarlána til fyrirtækja í vanda, eða allt að 70%. Skilyrði fyrir slíku láni er að fyrirtæki greiði hvorki út arð né kaupi eigin hluti meðan ríkisábyrgðar nýtur við.
Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu er útvíkkuð enn frekar frá áður kynntum tillögum þannig að hún nái líka til bílaviðgerða, auk vinnu við íbúðarhúsnæði og heimilisaðstoð, sem og vegna byggingarvinnu á vegum almannaheillafélaga.“
Barnabótaaukinn hækkaður
Þá hækkaði þingið barnabótaaukann frá fyrri tillögum. Hann verður 42.000 kr. með hverju barni fyrir foreldra sem fá barnabætur, en 30.000 kr. fyrir hvert barn foreldra sem annars ættu ekki rétt á bótum vegna tekjumarka. Um er að ræða skattfrjálsa upphæð og tryggt jafnframt að barnabótaaukinn skerði ekki aðrar bætur.
„Einnig var samþykkt sérstök 20 þúsund króna eingreiðsla til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, sem ekki leiðir heldur til skerðingar annarra greiðslna. Loks var samþykkt að frysta laun kjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna til næstu áramóta,“ sagði Bjarni.
„Með afgreiðslu Alþingis nú er brugðist við ábendingum og ákalli um að ganga lengra, en við munum áfram hlusta og vera viðbúin því að grípa inn í ef þetta ástand dregst á langinn. Það er í samræmi við það sem við höfum sagt, að rétt sé að gera meira en minna til þess að reisa varnir fyrir rekstur fyrirtækja, vernda störf og afkomu fólks og stytta þann tíma sem efnahagslífið þarf til að finna aftur viðspyrnu,“ sagði Bjarni en pistil hans í heild má finna hér.