Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðrráðherra:
Það er forgangsverkefni íslenskra stjórnvalda og samfélagsins alls að bregðast við þeirri heilbrigðisvá sem nú blasir við. Um leið hefur ríkisstjórnin gripið til markvissra og róttækra aðgerða til að bregðast við efnahagsvandanum sem því fylgir og hafa það meginmarkmið að verja störf fólks og tryggja þannig afkomu heimilanna.
Til viðbótar við þessar aðgerðir kynnti ég í ríkisstjórn í gær 15 aðgerðir sem vinna móti áhrifum COVID-19 veirunnar á íslenskan landbúnað og sjávarútveg. Markmið þeirra er skýrt. Að lágmarka neikvæð áhrif á þessar greinar til skemmri og lengri tíma, en um leið skapa öfluga viðspyrnu þegar þetta tímabundna ástand er gengið yfir.
Fallið frá hækkun á gjaldskrá
(1)Fyrirséð er að eftirspurn eftir íslenskum matvælum mun dragast saman á næstu misserum, m.a. í ljósi fækkunar ferðamanna til Íslands, og mun slíkt hafa áhrif á rekstur íslenskra matvælaframleiðenda. Vegna þessa verður hef ég ákveðið að fallið verður frá áformum um 2,5% hækkun á gjaldskrá Matvælastofnunar til 1. september á þessu ári.
(2)Ljóst er að hertar kröfur um samkomur fólks og aðrar ráðstafanir yfirvalda geta haft neikvæð áhrif á fyrirtæki sem sinna íslenskri matvælaframleiðslu. Heilbrigðisráðherra hefur, eftir samráð við sóttvarnalækni, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Matvælastofnun, ákveðið að veita kerfislega og efnahagslega mikilvægum fyrirtækjum í þessum greinum undanþágu frá tilteknum ráðstöfunum að uppfylltum ströngum skilyrðum. Ráðuneyti mitt mun áfram fylgjast með þessari þróun í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld og atvinnulífið.
Fjárfest í íslenskri garðyrkju
(3)Nú standa yfir samningaviðræður stjórnvalda og bænda um endurskoðun búvörusamnings um starfsskilyrði garðyrkjuræktar. Þar er gert ráð fyrir að íslensk garðyrkja verði efld til muna með auknum fjárveitingum strax á þessu ári. Ég hef óbilandi trú á þeim tækifærum sem blasa við íslenskri garðyrkju enda er aukin framleiðsla á íslensku grænmeti forsenda þess að íslenskir garðyrkjubændur nái að halda við og auka markaðshlutdeild íslensks grænmetis.
(4)Þá má nefna að því verður beint til framkvæmdanefndar búvörusamninga að leita leiða til að færa til fjármuni í samræmi við gildandi búvörusamninga til að koma sérstaklega til móts við innlenda matvælaframleiðendur.
(5)Jafnframt mun ráðuneytið taka höndum saman með Bændasamtökum Íslands og Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins við að skrá afurðatjón bænda vegna COVID-19. Þá má nefna eftirfarandi aðgerðir í landbúnaði:
- (6)Aukin þjónusta og ráðgjöf til bænda vegna COVID-19.
- (7)Tryggt verður að einstaklingar sem sinna afleysingarþjónustu fyrir bændur sem glíma við COVID-19 fái greitt fyrir þá vinnu.
- (8)Ráðuneytið og Bændasamtökin munu vinna að gerð mælaborðs fyrir landbúnaðinn til að bæta framsetningu gagna um landbúnaðarframleiðsluna, birgðir og framleiðsluspár.
- (9)Óskað hefur verið eftir liðsinni dýralækna í bakvarðasveit.
- (10) Ráðstafanir verða gerðar til að heimila ræktun iðnaðarhamps hér á landi með skilyrðum.
Afgreiðslu rekstrarleyfa í fiskeldi flýtt
(11)Á sviði sjávarútvegs og fiskeldis má fyrst nefna breytingu sem þegar hefur tekið gildi. Þannig undirritaði ég fyrr í vikunni breytingu á reglugerð sem heimilar hlé á grásleppuveiðum ef skipstjóri eða áhöfn þurfa að fara í sóttkví eða einangrun.
(12)Fiskeldi hefur vaxið mikið á undanförnum árum og var útflutningsverðmæti fiskeldis 25 ma.kr. í fyrra eða sem nemur tæplega 2% af heildarútflutningi. Samhliða miklum vexti greinarinnar undanfarin ár hefur málsmeðferð rekstrarleyfisveitinga vegna fiskeldis þyngst umtalsvert. Ein af þeim aðgerðum sem ég kynnti í gær snýr að því að flýta afgreiðslu rekstrarleyfa í fiskeldi og hraða þannig uppbyggingu greinarinnar. Slíkt gæti á þessu ári og til framtíðar haft í för með sér mikla fjárfestingu hér á landi og ráðningu á fleira starfsfólki.
Efling hafrannsókna
(13)Öflugar hafrannsóknir eru meginforsenda þess að gera megi verðmæti úr sjávarauðlindinni og nýta hana með sjálfbærum hætti. Í samræmi við samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar verður veitt viðbótarfjármagn til að efla hafrannsóknir við Ísland. Við ráðstöfun þessa viðbótarfjármagns verður sérstaklega litið til þess að auka rannsóknir á loðnu en um mikla þjóðhagslega hagsmuni er að ræða en útflutningsverðmæti loðnu árin 2016-2018 var að meðaltali um 18 milljarðar króna. Aðgerðin er fjármögnuð með fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar á þessu ári.
Loks má nefna eftirfarandi aðgerðir í sjávarútvegi:
- (14)Aukið svigrúm til að flytja aflaheimildir milli fiskveiðiára og með því stuðlað að auknum sveigjanleika við veiðar og vinnslu.
- (15)Hraða vinnu við útgáfu árskvóta til veiða úr þremur deilistofnum uppsjávarfisks, þ.e. síldar, kolmunna og makríls. Með því er stuðlað að auknum fyrirsjáanleika við þessar veiðar.
Tækifæri
Þessar aðgerðir er í mínum huga stórt skref til að gera bæði landbúnaði og sjávarútvegi auðveldara með að mæta þeim áskorunum sem fram undan eru, en um leið styrkja okkur í þeirri sókn sem síðan tekur við. Það er nefnilega sannleikskorn í þeim ummælum Rahm Emanuel að það ætti aldrei að láta alvarlega krísu fara til spillis, því þar væru falin tækifæri til að gera hluti sem áður voru ómögulegir. Staðreyndin er enda sú að eftir að þessu tímabundna ástandi lýkur þá verða báðar þessar undirstöðuatvinnugreinar okkar Íslendinga að vera reiðubúnar til að grípa þau tækifæri sem þá munu blasa við.
Það verður í forgangi í mínu ráðuneyti á næstu dögum og vikum að framfylgja þessum aðgerðum og aðstoða íslenska matvælaframleiðslu í gegnum þetta ástand. Grípa til frekari aðgerða sem nauðsynlegar verða og gera það sem þarf til þess. En mögulega er mikilvægasta aðgerðin af þeim öllum hins vegar sú sem hver og einn Íslendingur hefur í hendi sér á hverjum degi; að velja íslensk matvæli.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. mars 2020.