Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:
Heildarumfang efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar gæti numið yfir 230 milljörðum króna. Aðgerðunum er öðru fremur ætlað að vinna gegn atvinnuleysi og tímabundnum tekjumissi einstaklinga. Fyrirtækjum verður skapað svigrúm til að lækka starfshlutfall hjá launafólki tímabundið og viðhalda þar með ráðningarsambandi á meðan erfiðustu mánuðirnir ganga yfir. Sérstakur barnabótaauki verður greiddur út í júní með hverju barni yngra en 18 ára og þannig hugað sérstaklega að barnafjölskyldum. Þessar aðgerðir og fleiri til munu minnka efnahagslega áfallið sem við horfum fram á.
Ljóst er að tekjur fjölda fyrirtækja munu skerðast vegna ástandsins. Að öllu óbreyttu hefðu mörg þeirra gripið til uppsagna. Með aðgerðum stjórnvalda er þó lagt kapp á að verja störfin. Þá er aðgerðunum ætlað að auðvelda heimilum og fyrirtækjum að takast á við það tímabundna tekjutap sem þau kunna að verða fyrir. Þannig er dregið úr óvissu og hjólum atvinnulífsins haldið gangandi.
Það er dýrmætt fyrir Ísland að vera í þeirri stöðu að geta varið störf og gripið til nauðsynlegra aðgerða til að minnka höggið á hagkerfið. Ástæðan er sú að þetta ástand mun á einhverjum tímapunkti líða hjá og þá er mikilvægt að við séum vel í stakk búin til að láta hjólin snúast á nýjan leik. Hið frjálsa markaðshagkerfi þarf að fá svigrúm til að starfa á ný þegar þessu ástandi lýkur, því þannig munum við ná árangri til lengri tíma.
Þetta eru fyrstu aðgerðir og líkast til ekki þær síðustu. Vegna skynsamrar hagstjórnar síðustu ára er möguleiki að bregðast við ef og þegar nauðsyn krefur. Það eru ekki öll ríki sem búa svo vel, en það gerum við sem betur fer.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. mars 2020.