Hildur Sólveig Sigurðardóttir bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum:
Það fer ekki framhjá einum einasta Íslendingi að farsótt geisar á landinu, upplýsingaflæði um smitfjölda, stökkbreytingu, dánartölur, sóttkví og samkomubönn vekja óneitanlega áhyggjur, kvíða og aðrar óþægilegar tilfinningar hjá mörgum. Vandað og faglegt upplýsingaflæði er þó af hinu góða þar sem vanþekking elur á fordómum og hræðslu.
Þrátt fyrir erfiða óvissutíma mun þessi faraldur að öllum líkindum leggja mikilvæga hornsteina að framtíð samfélaga í heiminum og á endanum auka lífsgæði, fjölga tækifærum og efla þjónustu við íbúa og þá ekki síst þeirra sem búa í dreifðari byggðum. En hvað gefur tilefni til slíkrar bjartsýni?
Neyðin kennir naktri
Við þær fordæmalausu aðstæður sem við stöndum frammi fyrir í dag þar sem margar stórþjóðir hafa gripið til örþrifaráða á borð við að loka skólum, loka stórum vinnustöðum, hjúkrunarheimilum og sett heilu héruðin í sóttkví myndast ákveðin eftirspurn. Mikil og vaxandi eftirspurn eftir öflugum tæknilausnum mun þvinga mannkynið hraðar og lengra inn í 21. öldina og þau tækifæri sem aukin starfsemi í gegnum tölvuskjái getur veitt okkur.
Framtíðin felst í fjartækni
Takmarkaðasta auðlind einstaklingsins og því um leið sú dýrmætasta er án efa tíminn. Það er orðið æ algengara að báðir foreldrar séu útivinnandi, sinni ekki bara börnum og starfi heldur áhugamálum, líkamsrækt, sjálfum sér og hvort öðru. Frá aldamótum hefur nemendum á háskólastigi fjölgað um ríflega 76%. Á sama tíma eru aukin samgönguvandamál, meiri umferð og þ.a.l. aukin mengun orðin að skipulags- og loftslagsvandamálum sem snerta nær alla. Með þeim heimsfaraldri sem við stöndum frammi fyrir í dag munu án efa skapast tækifæri sem leiða til betri nýtingar á þessari mikilvægu auðlind mannkynsins, tímanum, og um leið draga úr þörf einstaklinga fyrir mengandi samgöngur. Frelsi einstaklinga mun aukast til muna hvað varðar möguleika á fjarvinnu, fjarnámi og að sækja sér fjarheilbrigðisþjónustu svo dæmi séu tekin.
Fjarvinna, fjarnám og fjarheilbrigðisþjónusta
Fjarvinna hefur aukist á undanförnum árum, en slíkt fyrirkomulag getur dregið úr rekstrarkostnaði og yfirbyggingu fyrirtækja og aukið starfsánægju starfsmanna. Fjarvinna hefur aukist stórkostlega víða um heim í kjölfar útbreiðslu faraldursins og verður Ísland þar engin undantekning. Nauðsynlegt er að innviðir samfélagsins séu í stakk búnir fyrir slíka þróun en í lok síðasta árs voru rétt rúmlega 80% íslenskra heimila tengd ljósleiðara og er Ísland í öðru sæti í Evrópu hvað varðar hlutfall virkra ljósleiðaratenginga á heimilum næst á eftir Lettlandi, en betur má ef duga skal.
Í 20 blaðsíðna stefnu Háskóla Íslands til ársins 2021, háskóla allra landsmanna, er orðið fjarnám einungis að finna á einum stað og í 19 blaðsíðna drögum menntamálaráðuneytisins að nýrri menntastefnu til ársins 2030 kemur fjar- og dreifnám fyrir þrisvar sinnum án útfærslna eða skýringa á því hvernig og með hvaða hætti eigi að efla fjarnám á Íslandi. Áhersla á fjarnám þarf að vera mun umfangsmeiri, ákveðnari og afmarkaðri í þeirri stefnumörkun að mati undirritaðrar.
Nýverið auglýsti Landlæknisembættið eftir verkefnastjóra um málefni fjarheilbrigðisþjónustu en Ísland er nokkuð á eftir öðrum löndum hvað varðar þróun slíkrar þjónustu. Ísland hefur aftur á móti alla burði til að geta orðið leiðandi afl í veitingu fjarheilbrigðisþjónustu og á sama tíma bætt þannig grunnþjónustu við alla íbúa landsins sama hvar á landinu þeir búa en landsbyggðin hefur undanfarin ár mætt miklum niðurskurði hvað heilbrigðisþjónustu varðar.
Stuðningur hins opinbera lykilatriði
Þrátt fyrir verðugt verkefni sem ríkisstjórn Íslands stendur frammi fyrir í dag hvað faraldurinn varðar þá er nauðsynlegt á sama tíma að undirbúa jarðveginn fyrir framtíðina. Mikilvægt er að heildræn stefna um fjarþjónustu á Íslandi sé mörkuð af þeim ráðuneytum sem eru í fararbroddi hvað slíka þjónustu varðar, þar gegna heilbrigðisráðherra, menntamálaráðherra, nýsköpunarráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra lykilhlutverkum.
Undirrituð hvetur ríkisstjórn Íslands til að sjá tækifærin, hamra járnið, auðvelda regluverkin, búa til hvata og stuðning til að hið opinbera en ekki síst einkaaðilar sem sjá tækifæri í veitingu og notkun fjarþjónustu hafi umhverfi sem nærir það og gerir þjónustunni kleift að vaxa og dafna íbúum til hagsbóta og samfélaginu til framfara. Landsmenn alla hvet ég til að halda ró sinni, gleymum ekki að anda með nefinu, þvoum okkur vel um hendurnar og fylgjum tilmælum Landlæknisembættisins. Öll él birtir upp um síðir.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. mars 2020.