Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður:
Lýðsleikjur hafa sameiginlegt eðli með nýsósíalistum. Lýðsleikjur og nýsósíalistar vita allt meira og betur en aðrir af hyggjuviti einu saman. Þekking þeirra er mun meiri en hjá þeim sem lært hafa og rannsakað með hlutlægum hætti.
Nú eru komnar fram lýðsleikjur sem hafa meira vit en smitsjúkdómafræðingar á faraldsfræði sjúkdóma. Fram til þessa hafa lýðsleikjur á Alþingi einbeitt sér að efnahagsmálum. Nú er forsætisráðherra ætlað að taka fram fyrir hendur landlæknis, enda hefur landlæknir viðurkennt að hafa ekki mikið vit á raðgreiningu í veirufræði. Sennilega hefur forsætisráðherra enn minna vit á veirufræði og smitsjúkdómum en landlæknir.
Það er gott stjórnarfar þegar þegnarnir vita ekki nöfn á ráðherrum. Því vona ég að ráðherrar verði við beiðnum og ráðum þeirra sem þekkingu hafa og verði ekki aðalleikendur í þeim vörum sem verður beitt.
Það er ekkert nýtt undir sólinni. Eitt sinn tók dómsmálaráðherra til sinna ráða og rak yfirlækni á Kleppi. Reynslan af því var afleit. Ekki aðeins fyrir sjúklinga, heldur einnig fyrir ráðherra. Ráðherrann hóf starfsdaginn með því að láta aka sér á Klepp til að athuga hvort hinn nýi yfirlæknir á sjúkrahúsinu væri mikið eða lítið frávita af víndrykkju. Og einnig að huga að því hvort yfirlæknirinn gengi stofugang á nærhaldinu. Það var of mikið fyrir ráðherrann þegar yfirlæknirinn gekk með haglabyssu á stofugang. Sennilega hefur yfirlæknir hugsað sem svo að öllum andskotanum mæti menn þegar þeir séu byssulausir.
Lýðsleikjur aldamótanna
Um aldamótin komu fram nýjar lýðsleikjur. Ein slík ók um bæinn á gráum bíl, vel til fara og óaðfinnanlega greidd. Lýðsleikjan brosti til vegfarenda. Allir héldu að lýðsleikjan hefði komið heim með mikla peninga úr Bjarmalandsför. Vegna hins mikla álits sem lýðsleikjan hafði aflað sér með akstri um borgina töldu stjórnvöld að rétt væri að selja lýðsleikjunni gamlan þjóðbanka, sem hafði mikla viðskiptavild vegna íhaldssemi í rekstri. Sennilega var upphafsmaður þessarar viðskiptahugmyndar bankastjóri bankans, en hann naut mikils álits og trausts og reyndist vindhani. Þegar lýðsleikjan í bílstjórasætinu var komin að kjötkatlinum lét hann bankann „sinn“ gefa út og suður. Þetta voru góðverk lýðsleikjunnar. Svona rétt eins og andlegur leiðtogi argentínsku þjóðarinnar, Evita Peron. Ekkert af gjöfum lýðsleikjunnar kom úr eigin vasa. Eins og önnur góðverk á kostnað annarra. Og svo sat þjóðin uppi með gjafmildina. Jafnvel einkagóðgerðarsjóð lýðsleikjunnar! Eins og hjá andlega leiðtoganum í Argentínu!
Til þess að framfylgja hinni alræmdu helmingaskiptareglu var talið eðlilegt að önnur lýðsleikja gæti keypt banka. Sá hafði ekki keyrt reglulega um bæinn enda búsettur í öðru landi. Sá rekur eigin velgjörðarsjóð og skemmtir vinum sínum með því að láta Elton John syngja og leika fyrir gesti sína í afmæli. Þessi lýðsleikja keypti banka án þess að greiða nokkru sinni eina krónu fyrir bankann, varð stærsti eigandi bankans, en fór frá gjaldþroti bankans með því að hirða um 90 milljónir dollara fyrir að stuðla að sameiningu tveggja banka, ef annan bankann skyldi kalla banka. Þessi snúningur var gerður til að allir fengju sitt og hagsmuna Framsóknarflokksins væri gætt. Lýðsleikjusnillingurinn er nefnilega fæddur inn í gamalt Sambandsveldi. Það var viðskiptaarmur Framsóknarflokksins en var horfið af yfirborði jarðar þegar hér var komið sögu.
Fólk hefur ekki ímyndunarafl til að skilja stjórnmál. Fólk er of saklaust.
Sósíalismi nútímans
Nú er helst talinn góður málstaður að nefna sig sósíalista og að berjast gegn fátækt. Ekki það að sósíalistar hafi greint fátækt betur og dýpra en aðrir. Og alls ekki að þeir hafi betri og skjótvirkari ráð til að útrýma fátækt en þau sem áður hefur verið beitt.
Ungur maður sagði eitt sinn: „Það er blindur maður sem sér ekki að sameignarskipulagið er þjóðskipulag framtíðarinnar.“
Sameignarskipulagið var reynt víða og gekk sér til húðar. Í kjölfar þess voru glæpasamtök fyrst til að skipuleggja sig. Þau glæpasamtök voru af tvennum toga; þau sem hirtu eignir, sem voru í sameign, og þau, sem stunduðu glæpastarfsemi sem kennd er við mafíu og undirheima í eiturlyfjum, vændi og mansali.
Sameignarskipulagið er reynt í Venesúela og nú er svo komið að flóttamenn frá því landi eru viðurkenndir í alþjóðasamfélaginu sem flóttamenn frá hættulegu svæði.
Arði af auðlindum Venesúela er annaðhvort rænt ellegar að hann fer í afborganir af lánum sem kínverskir bankar veittu landinu. Andvirði lánanna fór í eitthvað sem lýðsleikjur í Venesúela klúðruðu.
Annað sameignarskipulag er reynt. Það er í Norður-Kóreu. Það er einfalt að bera saman lífskjör og fátækt í Norður-Kóreu og Suður-Kóreu. Sennilega er hungursneyð í Norður-Kóreu ekki minni en hungursneyð í Úkraínu á tíma Stalíns, en hann var sósíalisti.
Gleymum ekki Kúbu. Það tókst að varðveita ástandið á Kúbu frá 1959. Það er sérstakt rannsóknarefni fyrir félagsvísindi. Á Kúbu geta þeir sem einhvern aur eiga lifað í allsnægtum án þess að hagur heimamanna vænkist. Viðskipti aðkomufólks við heimafólk fara fram með gjaldmiðli, sem heitir „Cuba Convertible“. Þetta eru seðlar svipaðir þeim sem Kaupfélag Ísfirðinga og Kaupfélag Berufjarðar gáfu út.
Hugmyndafræðingur sósíalista á Íslandi í dag var í liði með hrunverjum í svokallaðri útrás. Þeirri liðveislu ber að gleyma. Blaðaútgáfa hugmyndafræðingsins tapaði nokkrum milljörðum á kostnað íslensks almennings. Þegar leikurinn stóð sem hæst mældist íslenski nýsósíalistinn milljarðamæringur en sennilega er hann snauður núna. Sennilega er himnaríki hans aðeins ropvatn.
Hættuleg ráðdeild
Það skapast ávallt hættulegar aðstæður þegar lýðsleikjur komast til valda eftir að ráðdeildarríkisstjórn hefur leyst úr bráðum vanda og myndað varasjóði.
Nú vilja nýsósíalistar breyta verkalýðsfélögum í stjórnmálaflokka. Sennilega yrði slík þróun endalok verkalýðsfélaga, enda er félagafrelsi í landinu. Og það er einnig samningafrelsi.
Lífeyrissjóðir hafa haft ákveðin tengsl við verkalýðsfélög og starfsgreinar. Þegar lífeyrissjóðir verða leiktæki fyrir lýðsleikjur er ástandið orðið hættulegt. Vissulega kom upp meðal lýðsleikja krafa um að lífeyrissjóðir stæðu undir hagvexti framtíðarinnar. Það voru ekki sósíalistar sem þess kröfðust. Lýðsleikjurnar leynast víða.
Lýðsleikjur eru fljótar að eyða varasjóðum og fyrningum. Sameignarsinnar og lýðsleikjur í Venesúela voru fljótar að klára þjóðarauðinn.
Dýrlingar
En spyrja má: Hvenær hefur verið til almennilegur dýrlingur sem ekki var þjófur í byrjuninni? Dýrlingar láta aldrei af þrá sinni að syndga.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. mars 2020.