Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:
Þegar einstaklingar hljóta fangelsisdóm gera margir ráð fyrir því að afplánun fylgi fljótlega í kjölfarið. Því miður er það ekki raunin því biðtími eftir fangelsisvist getur verið nokkuð langur. Það á einkum við um þá sem hafa framið smærri afbrot. Fangelsisplássum er forgangsraðað með þeim hætti að þar eru nær eingöngu síbrotamenn og fangar sem afplána fyrir alvarlegustu brotin.
Um 550 manns eru nú á boðunarlista Fangelsismálastofnunar og getur biðin tekið allt upp í fimm ár. Þetta er auðvitað óviðunandi ástand fyrir alla þá sem eiga hlut að máli. Fyrir flesta er það að hljóma refsidóm þungt áfall og óvissan um það hvenær hægt er að hefja afplánun gerir dómþolum erfitt fyrir og veldur þeim miklum sálarkvölum. Það er ekki tilgangur réttarkerfisins því við viljum að allir eigi möguleika á því að koma lífi sínu í lag.
Fælingarmáttur mögulegrar fangelsisvistar verður minni þegar vitað er að bið eftir fangelsisvist getur tekið nokkur ár. Löng bið eftir afplánun getur haft í för með sér fyrningu refsingar. Á sama tíma eru einnig dæmi þess að einstaklingar hafi náð bata, t.d. frá áfengis- og vímuefnaneyslu, en eiga síðan eftir að afplána nokkrum árum síðar. Það er engum greiði gerður með þessu fyrirkomulagi, hvorki viðkomandi einstaklingum né samfélaginu í heild.
Reynt hefur verið að bregðast við þessum vanda með ýmsum hætti. Nýtt og fullkomið fangelsi var opnað á Hólmsheiði fyrir örfáum árum. Rýmum í opnum fangelsum hefur verið fjölgað, skilyrði fyrir reynslulausn hafa verið rýmkuð gagnvart ungum föngum eftir þriðjung refsitíma og aukin áhersla hefur verið lögð á afplánun utan fangelsa með samfélagsþjónustu og rafrænu eftirliti. Þrátt fyrir allt þetta hefur ekki tekist að ná ásættanlegum árangri hvað varðar styttingu biðtíma eftir afplánun.
Til að bæta úr þessu hafa verið ræddar ýmsar hugmyndir, t.d. að bæta tímabundið við afkastagetu við afplánun refsidóma með nýtingu á fangaklefum sem til eru, til afplánunar stuttra dóma, eða með öðrum húsnæðisúrræðum. Einnig hvort fjölga ætti rýmum í opnum fangelsum. Þá þyrfti einnig að skoða hvort auka eigi samfélagsþjónustu og rafrænt eftirlit enn frekar og skoða hvernig brugðist hefur verið við sams konar vandamálum meðal nágrannaþjóða okkar á Norðurlöndum.
Í því skyni að greina þetta vandamál og finna leiðir til að ná betri árangri mun ég í dag skipa fimm manna átakshóp sem skila á tillögum í vor, bæði að lausnum til skemmri og lengri tíma. Við viljum stuðla að betrun þeirra sem hafa misstigið sig í lífinu og við þurfum að laga þennan vanda. Það er ekki og hefur aldrei verið tilgangur samfélagsins að bæta viðbótarrefsingu á þá einstaklinga í samfélaginu sem hlotið hafa fangelsisdóm.
Greinin var fyrst birt í Morgunblaðinu 9. mars 2020.