Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Hafa fullorðinsárin
valdið vonbrigðum?
Kjóstu mig og ég mun borga þér
Þú þarft ekki að þroskast, satt er það
Allir þínir reikningar verða greiddir
Fullorðinsárunum frestað,
og ég mun gefa þér alla þessa peninga
Alla þessa peninga
þú færð frá Jóa
Alla þessa peninga
ef ég næ kosningu
Launin þín hækka
Allar skuldir niður falla
Leikskólagjöldin greidd
Fæðingarorlofið frítt þér veitt
Gefðu mér þitt atkvæði
og ég mun gefa þér alla þessa peninga
Alla peningana hans Jóa
ég mun færa þér
Alla peningana hans Jóa
ef ég næ kjöri
Þannig syngur bandaríski háðfuglinn og söngvarinn Remy Munasifi og sækir lag úr smiðju Bítlanna; All My Loving. Remy er hæfileikaríkur tónlistarmaður og flugbeittur í þjóðfélagádeilu sinni. Hann gerir grín að pólitískum rétttrúnaði, hæðist að valdastéttum, gefur ekkert fyrir forréttindahópa og hefur stjórnmálamenn stórra loforða að háði og spotti. Eins og textinn (sem ég snaraði að hluta yfir á íslensku) ber með sér er Remy frjálshyggjumaður. Repúblikanar eru ekki óhultir en demókratar eru yfirleitt betri uppspretta, ekki síst nú þegar tekist á um hver skuli verða forsetaframbjóðandi þeirra í kosningum í nóvember næstkomandi.
Sósíalistinn Sanders
Það er alltaf fróðlegt að fylgjast með bandarískum stjórnmálum. Oft beinist athygli mín meira að repúblikönum en á stundum er forvitnilegra og skemmtilegra að huga að demókrötum. Eftir forval í tveimur ríkjum stendur sósíalistinn Bernie Sanders best að vígi og það er ekki síst að honum sem Remy beinir spjótum sínum. Um Sanders er sagt að hann lofi dönsku velferðarkerfi með því að innleiða efnahagsstefnu sósíalista í Venesúela. En hvað sem segja má um Sanders er ljóst að hann er maður sannfæringar og heillar marga kjósendur, ekki síst þá yngri.
Í Bandaríkjunum líkt og svo víða í Evrópu hefur fennt yfir söguna. Hungursneyðir, fangabúðir og milljónir fórnarlamba sósíalískra tilrauna hafa litla þýðingu í hugum stórs hluta íbúa lýðræðisríkja vestan hafs og austan. Þrátt fyrir blóði drifna sögu lifir í glæðum sósíalismans.
Auðvitað er langur vegur eftir fyrir Sanders að tryggja sér útnefningu demókrata, en hann stendur vel að vígi og meðaltal allra skoðanakannana gefur til kynna að hann hafi forystu yfir landið allt.
Átta frambjóðendur standa eftir hjá demókrötum. Í upphafi voru vonbiðlarnir nær 30 talsins. John Delaney, fyrrverandi fulltrúadeildarþingmaður, reið á vaðið sumarið 2017 og nokkru síðar tilkynnti Andrew Yang, lögfræðingur og frumkvöðull, framboð sitt. Delaney hætti í byrjun árs og Yang gafst upp eftir forkosningar í Iowa og New Hampshire. Aðrir höfðu ekki sama úthaldið.
Eftir standa átta frambjóðendur sem keppast um að sannfæra samflokksmenn sína um að þeir séu líklegastir til að fella Donald Trump úr forsetastóli. Fáa „hata“ demókratar meira en Trump.
Auðkýfingurinn Michael Bloomberg mætti síðastur til leiks og raunar alls ekki í Iowa og New Hampshire. Þessi fyrrverandi borgarstjóri New York og stofnandi Bloomberg-upplýsingaveitunnar ætlar að leggja keppinautana að velli á Stóra þriðjudeginum (3. mars) þegar forval fer fram í 14 ríkjum, þar af í tveimur af fjölmennustu ríkjunum; Kaliforníu og Texas. Bloomberg hefur lýst því yfir að hann fjármagni kosningabaráttuna úr eigin vasa og hefur þegar varið um 350 milljónum dollara í auglýsingar. Hann hefur verið sakaður, af eigin flokksmönnum, um að ætla að „kaupa“ kosningarnar.
Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Barack Obama, var lengi vel talinn öruggur um að verða valinn forsetaefni. Allt síðasta ár hafði hann góða forystu, utan nokkurra daga í október þegar Elizabeth Warren öldungadeildarþingkona tók fram úr honum. Allt frá þeim tíma hefur Warren horft upp á stöðugt minnkandi fylgi. Hún hefur verið í óformlegri keppni við Sanders um hvort þeirra sé meira til vinstri. Og varaforsetinn fyrrverandi hefur misst vindinn úr seglunum. Meðaltal skoðanakannana sýnir að Biden hefur misst yfir 10 prósentustig frá því í janúar og yfir 20 prósentustig frá maí á síðasta ári þegar staðan hans var sterkust. Ögurstund Bidens verður 3. mars.
Aldur afstæður
Fyrir þá sem telja að aldur sé afstæður – í stjórnmálum og á öðrum sviðum – er á margan hátt gott að horfa yfir þann átta manna hóp sem eftir stendur í forvali demókrata:
• Meðalaldur frambjóðenda er liðlega 62 ár.
• Fjórir frambjóðendanna eru 70 ára eða eldri.
• Einn er yfir sextugu.
• Einn á eitt ár í sextugt.
• Tveir eru 38 ára.
• Þeir frambjóðendur sem njóta mests stuðnings á landvísu eru allir yfir sjötugu.
Það eru því allar líkur á því að í nóvember næstkomandi verði keppinautar um forsetaembætti Bandaríkjanna – valdamesta embætti heims – komnir vel á eftirlaunaaldurinn. Donald Trump fagnar 74 ára afmæli í júní næstkomandi. (Kannski minnir þetta okkur Íslendinga á hversu fráleitt það er að neyða fólk sem hefur vilja og getu út af vinnumarkaði).
En svo kann að vera að Pete Buttigieg, 38 ára gamall fyrrverandi borgarstjóri South Bend í Indíana (svipuð og Reykjavík), nái að velgja gamla liðinu undir uggum. Hann hefur þegar vakið athygli og gefur árangur hans í fyrstu forkosningunum tilefni til að fylgjast vel með honum. Þótt á brattann sé að sækja og líkur litlar á að hann verði forsetaefni að þessu sinni á hann framtíðina fyrir sér. Fyrrverandi hermaður, samkynhneigður og hófsamur a.m.k. í samanburði við Sanders og Warren.
Kannski nær Biden sér á strik á Stóra Þriðjudeginum. Ef til vill dugar Bloomberg-auðurinn til að verða forsetaefni. En miðað við stöðuna nú stendur sá sem leikur á strengi sósíalismans og lofar að gefa kjósendum „alla peningana hans Jóa“ best að vígi.
Hvernig frjór jarðvegur fyrir sósíalisma varð til í Bandaríkjunum er önnur saga. Kannski sú sama og er að baki kosningasigri Donalds Trumps fyrir tæpum fjórum árum.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. febrúar 2020.