Áfram í fremstu röð
'}}

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:

Sam­fé­lög fara í gegn­um ákveðin þroska­skeið, al­veg eins og mann­fólkið. Við Íslend­ing­ar höf­um fram til þessa verið hálf­gerðir ung­ling­ar í sam­fé­lagi vest­rænna þjóða. Verið ung þjóð í ýms­um skiln­ingi, með marg­ar vinn­andi hend­ur og átt mikla mögu­leika á því að vaxa. Þetta er að breyt­ast hratt. Fallandi fæðing­artíðni og hár líf­ald­ur hef­ur áhrif á sam­setn­ingu þjóðar­inn­ar og því fylgja ýms­ar áskor­an­ir sem við þurf­um að tak­ast á við.

Sam­fé­lagið er líka að breyt­ast með opn­ari vinnu­markaði og þeim liðsauka sem okk­ur hef­ur borist með er­lendu vinnu­afli. Lífs­gæði hér eru mik­il, laun ein­hver þau hæstu í heimi, hvort sem litið er til lægstu launa eða meðaltals og launa­jöfnuður mik­ill. Við höf­um lagt áherslu á að búa í hag­inn fyr­ir framtíðina með því að greiða niður skuld­ir og tryggja sjálf­bærni líf­eyri­s­kerf­is­ins um leið og við leggj­um áherslu á að styrkja ýmsa innviði í land­inu.

En áskor­an­irn­ar eru til staðar, sum­ir myndu jafn­vel kalla þær ógn­ir. Ég lít á þær sem hvatn­ingu til að hugsa hluti upp á nýtt og taka þess­ari áskor­un framtíðar­inn­ar sem nálg­ast hratt. Til að ein­falda málið lang­ar mig að brjóta viðfangs­efnið niður í fjóra þætti: Öldrun, inn­flytj­end­ur, sam­keppn­is­hæfni og innviði.

Öldrun

Það stytt­ist í að stór­ir ár­gang­ar sem fædd­ir eru fyr­ir 1960 hverfi af vinnu­markaði. Á næstu fimm árum mun þeim sem eru 67 ára og eldri fjölga um fjórðung, eða nærri 10.000 manns. Það fjölg­ar einnig hratt í elsta hópn­um. Til árs­ins 2025 er gert ráð fyr­ir að 85 ára og eldri fjölgi um nærri 500 manns eða 10%.

Þetta kall­ar á nýja nálg­un í þjón­ustu við þenn­an ald­urs­hóp. Við þurf­um líka að bregðast við núna sem sam­fé­lag og ein­stak­ling­ar til að tryggja okk­ur sem besta heilsu og lífs­gæði á eldri árum. Fyr­ir þá sem þegar eru komn­ir á þenn­an ald­ur eða nálg­ast hann er heilsu­efl­andi þjón­usta mik­il­væg, en einnig auk­in virkni, hvort sem er í einka­lífi eða á vinnu­markaði. Þannig þurf­um við að skoða af fullri al­vöru sveigj­an­leg starfs­lok, sem þýðir ekki ein­ung­is mögu­leik­ann á að hætta fyrr, held­ur einnig til að vinna leng­ur ef heils­an leyf­ir og vilj­inn er fyr­ir hendi.

Við þurf­um að gefa fleir­um tæki­færi til þess að búa leng­ur heima. Við eig­um að vera í far­ar­broddi við að nýta okk­ur nýja tækni sem ger­ir fjarþjón­ustu raun­veru­leg­an kost. Hvort sem það er með tölv­unni, sím­an­um eða snjallúr­um, sem marg­ir ganga með, eða sér­hæfðari lausn­um, eins og víða er verið að þróa, til dæm­is til að fylgj­ast með fólki með hjarta­vanda­mál.

Þrátt fyr­ir þessa breyttu nálg­un verður ekki hjá því kom­ist að öldrun þjóðar­inn­ar leiði til auk­ins kostnaðar. Útreikn­ing­ar fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­is­ins benda til þess að heild­ar­út­gjöld vegna heil­brigðismála vaxi úr 8% af VLF í 11% árið 2050 þegar aðeins er horft til áhrifa af hærra hlut­falli aldraðra. Með öðrum orðum, ef ald­urs­sam­setn­ing þjóðar­inn­ar væri í dag eins og hún verður þá, má áætla að heil­brigðis­kerfið kostaði okk­ur um 100 millj­örðum meira á ári, að öðru óbreyttu.

Árið 2010 var um það bil einn af hverj­um tíu eldri en 65 ára. Árið 2050 verður þetta hlut­fall einn af hverj­um fjór­um. Sí­fellt dýr­ari tæki og lyf geta svo leitt til enn meiri kostnaðar. Við verðum því sem sam­fé­lag að leita stöðugt betri leiða til þess að fjár­magna og veita heil­brigðis- og öldrun­arþjón­ustu. Á mæli­kv­arða gæða og fram­leiðni þurf­um við ein­fald­lega að verða framúrsk­ar­andi.

Inn­flytj­end­ur

Um 1960 eignuðust ís­lensk­ar kon­ur að meðaltali fjög­ur börn um æv­ina en síðan 2012 hef­ur hlut­fallið ekki farið yfir tvö. Árið 2018 var það 1,7 börn sem þýðir að ef ekk­ert annað kæmi til myndi íbú­um lands­ins fækka. Þeirri þróun hef­ur verið skotið á frest, þar sem upp­gangs­tím­ar hafa laðað að sér tugi þúsunda út­lend­inga. Nú er svo komið að rúm­lega 20% ein­stak­linga á vinnu­markaði eru er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar, sem svar­ar til um það bil 15% af öll­um íbú­um. Um helm­ing­ur þessa stóra hóps hef­ur flutt til lands­ins á ein­ung­is síðustu fjór­um árum.

Án þess­ar­ar inn­spýt­ing­ar hefði ís­lenskt at­vinnu­líf ekki staðið und­ir þeim vexti sem við höf­um séð und­an­far­in ár, en þegar sam­drátt­ur verður er þetta hóp­ur sem get­ur átt und­ir högg að sækja. Það sést nú þegar á því að at­vinnu­leysi meðal er­lendra rík­is­borg­ara er orðið meira en hægt er að sætta sig við. Eru er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar 40% at­vinnu­lausra, mun meira en hlut­deild þeirra á vinnu­markaði gef­ur til­efni til.

Þær at­vinnu­grein­ar sem er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar eru fjöl­menn­ast­ir í hafa sætt mest­um sam­drætti að und­an­förnu sem get­ur skýrt þetta háa hlut­fall að ein­hverju leyti en mennt­un get­ur líka haft áhrif þar sem vís­bend­ing­ar eru um að í þess­um hópi séu færri með iðn- og há­skóla­mennt­un en meðal Íslend­inga. Ný­leg­ar rann­sókn­ir OECD gefa einnig til kynna að mennta­kerfið sinni ekki nógu vel þörf­um barna sem eiga er­lenda for­eldra. Það er skylda okk­ar að sjá til þess að börn er­lendra rík­is­borg­ara njóti sam­bæri­legra tæki­færa og börn ís­lenskra for­eldra. Við þurf­um sömu­leiðis að fjár­festa í mennt­un og end­ur­mennt­un full­orðinna til að gera þeim kleift að taka full­an þátt í ís­lensku sam­fé­lagi.

Mark­mið okk­ar er að all­ir geti blómstrað. Það er til þess sem við berj­umst fyr­ir opnu, frjálsu og rétt­látu sam­fé­lagi. Að all­ir geti notið sín. Það eyk­ur líka lík­urn­ar á því að við get­um sinnt mik­il­væg­um sam­fé­lags­leg­um verk­efn­um, því fram­leiðni vex. Ef stór hluti íbúa lands­ins upp­lif­ir sig utangátta og án þeirr­ar hæfni sem nauðsyn­leg er í nú­tíma­sam­fé­lagi er hætt við að sam­fé­lag­inu og hag­kerf­inu hnigni og minna verði til skipt­anna fyr­ir alla.

Sam­keppn­is­hæfni

Erfið sam­keppn­is­staða hag­kerf­is­ins er þriðja áskor­un­in. Laun hafa hækkað meira hér­lend­is en víðast hvar ann­ars staðar. Há laun og mik­ill launa­jöfnuður birt­ist fyr­ir­tækj­um sem hár launa­kostnaður og skert sam­keppn­is­hæfni. Þar sem launa­kostnaður er orðinn mjög hátt hlut­fall heild­ar­verðmæta­sköp­un­ar­inn­ar í nær öll­um at­vinnu­grein­um er lítið svig­rúm til frek­ari launa­hækk­ana, auk þess sem tak­mörkuð arðsemi dreg­ur úr getu og vilja til fjár­fest­inga.

Í hag­sögu okk­ar Íslend­inga hef­ur verið brugðist við slík­um erfiðleik­um með veik­ingu krón­unn­ar og verðbólgu. Það kem­ur verst niður á þeim sem hafa minnst milli hand­anna og þeim sem hafa verið að koma sér þaki yfir höfuðið. Ef gengið helst stöðugt og verðbólg­an sér ekki um að rýra krón­una, eins og venj­an var áður, er fátt sem fyr­ir­tæk­in geta tekið til bragðs, annað en að hagræða. Það get­ur leitt til auk­ins at­vinnu­leys­is, a.m.k. tíma­bundið. Mestu skipt­ir að samn­ing­ar við starfs­menn hins op­in­bera verði í sam­ræmi við lífs­kjara­samn­inga og að þeim stöðug­leika sem við höf­um skapað sam­an verði ekki varpað fyr­ir róða. Einnig þurfa ríki og sveit­ar­fé­lög að leita allra leiða til að liðka til. End­ur­skoða alla reglu­byrði til ein­föld­un­ar og auka kröf­ur um skil­virkni eft­ir­lits. Rík­is­stjórn­in er í miðju átaki við að ein­falda sam­skipti við hið op­in­bera með því að gera þau sem mest sjálf­virk og sta­f­ræn. Það er fylli­lega raun­hæft að Ísland sé til fyr­ir­mynd­ar meðal þjóða við inn­leiðingu tækni­lausna svo létta megi fólki og fyr­ir­tækj­um að reka er­indi sín við stjórn­völd.

Að auki þarf að huga að ann­ars kon­ar sam­keppn­is­hæfni ís­lensks sam­fé­lags sem felst í því að búa þær kyn­slóðir sem nú eru að vaxa úr grasi und­ir breytt­ar þarf­ir vinnu­markaðar­ins. Stór hluti starfa mun breyt­ast mikið eða hverfa en um leið verða önn­ur til sem krefjast nýrr­ar hæfni. Til þess að geta haldið í og helst kom­ist fram fyr­ir þessa þróun þurf­um við að sýna raun­veru­legt þor við að end­ur­skoða mennta­kerfið og skapa með því nauðsyn­leg tæki­færi í nýj­um veru­leika.

Innviðir

Sam­drátt­ur í fjár­fest­ingu eft­ir hrun og mik­il fólks­fjölg­un und­an­far­in ár kalla á fjár­fest­ingu hins op­in­bera. Sú þörf kem­ur til viðbót­ar bygg­ingu nýs Land­spít­ala og því átaki sem nú stend­ur yfir í sam­göngu­kerf­inu.

Við erum í ein­stakri stöðu til að hefja upp­bygg­ing­ar­skeið með því að umbreyta eign rík­is­ins í Íslands­banka á næstu árum í innviði og það er ólík­legt að nokk­ur önn­ur þjóð í Evr­ópu sé í ann­arri eins stöðu til að taka til í efna­hags­reikn­ingi sín­um og leggja grunn að auk­inni verðmæta­sköp­un til framtíðar.

Eigið fé Íslands­banka er rúm­lega 170 millj­arðar króna. Jafn­vel þótt bank­inn myndi selj­ast á lægra verði en eigið fé hans seg­ir til um, myndi sala á 25-50% eign­ar­hlut á næstu árum opna stór tæki­færi til fjár­fest­inga. Þar má nefna allt frá hefðbundn­um sam­göngu­fjár­fest­ing­um í veg­um, brúm og höfn­um yfir í fjar­skipti, svo sem nýj­an gagn­a­streng og aðra grunn­innviði, meðal ann­ars í heil­brigðisþjón­ustu.

Nú er góður tími til að huga að átaki í þess­um efn­um, efna­hags­lífið er til­búið fyr­ir op­in­ber­ar fram­kvæmd­ir og þannig get­um við stutt við hag­kerfið á tím­um hagræðing­ar í einka­geir­an­um og skotið stoðum und­ir hag­vöxt til fram­búðar.

Eft­ir vel heppnaða end­ur­reisn efna­hags­lífs­ins und­an­far­in ár er brýnt að beina sjón­um að framtíðinni. Mark­miðið er ein­falt: Ísland áfram í fremstu röð.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. febrúar 2020.