Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
Í síðustu viku var kynnt áætlun um eflingu starfsemi stofnana á landsbyggðinni sem heyra undir mig sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Unnið hefur verið að gerð áætlunarinnar frá því í haust að mínu frumkvæði en hún var útfærð í samráði við forstöðumenn þeirra stofnana sem átakið nær til, þ.e. Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar og Matvælastofnunar og að hluta Matís ohf. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem slík áætlun er unnin og fjármögnuð með þessum hætti.
Áætlunin er viðbragð við þeirri sjálfsögðu kröfu að opinberum störfum sé dreift með sem jöfnustum hætti um allt land. Þrátt fyrir reglulega umræðu í þessa veru undanfarin ár sýna m.a. tölur frá Byggðastofnun að fjöldi opinberra starfa er ekki í samræmi við íbúafjölda og þar hallar á landsbyggðina. Stefna ríkisstjórnarinnar er að snúa þessari þróun við og hafa bæði forsætisráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra boðað aðgerðir í þá veru.
Fjármögnuð á þessu ári
Grunnmarkmið áætlunarinnar er að fjölga starfsmönnum stofnana á landsbyggðinni sem heyra undir ráðuneytið. Til að ná þessu markmiði mun ráðuneytið ráðstafa 50 milljónum króna af verkefnafé ráðuneytisins til þessa verkefnis á árinu 2020. Framgangur áætlunarinnar er því í forgangi í ráðuneytinu.
Sett hafa verið fram tölusett markmið um fjölgun árin 2021, 2023 og 2025. Með þessu er ekki verið að fjölga starfsmönnum þessara stofnana, heldur verður þessi fjölgun á landsbyggðinni framkvæmd með sameiginlegum áherslubreytingum ráðuneytisins og stofnana. Þannig munu stofnanirnar bjóða starfsmönnum sínum upp á aukinn sveigjanleika varðandi val á starfsstöð. Störf sem ekki eru staðbundin verða að jafnaði auglýst með valmöguleika um staðsetningu á fleiri en einni starfsstöð að gættum markmiðum um eflingu starfsstöðva á landsbyggðinni. Þá munu bæði Hafrannsóknastofnun og Matvælastofnun á næstu þremur árum ráða í nýjar stöður tengdar fiskeldi annaðhvort á Austurlandi eða á Vestfjörðum. Loks má nefna að stofnanirnar munu leitast við að ná fram hagræði í rekstri með því að hafa starfsstöðvar í sama húsnæði.
Til hagsbóta fyrir samfélagið allt
Sérstökum stýrihóp ráðuneytisins og forstöðumanna stofnana hefur verið falið að tryggja framkvæmd áætlunarinnar og verður árangur hennar metinn árlega. Ég bind vonir við að afrakstur þessa verði til þess að efla þjónustu hins opinbera á landsbyggðinni og stuðla að jafnari dreifingu opinberra starfa um allt land. Um leið er ég sannfærður um að áætlunin er til þess fallin að stuðla að fjölbreyttara og öflugra atvinnulífi á landsbyggðinni. Slíkt er ekki einungis til hagsbóta fyrir landsbyggðina heldur samfélagið allt.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. janúar 2020.