Tilþrifalítil, róleg og þróttlítil umræða
'}}

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar:

Fyr­ir áhuga­fólk um rík­is­sjóð er alltaf áhuga­vert að fylgj­ast með af­greiðslu fjár­laga. Að þessu sinni var þó frem­ur dauft yfir allri umræðunni og hið sama má segja um tvö mik­il­væg tekju- og skattafrum­vörp rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Allt sigldi þetta frem­ur ró­lega og átaka­lítið í gegn­um þingið. Ég er ekki viss um að slíkt sé gott – ekki fyr­ir rík­is­stjórn eða stjórn­ar­and­stöðuna og alls ekki fyr­ir skatt­greiðend­ur, sem njóta yf­ir­leitt ekki mik­ils skjóls í aðdrag­anda jóla.

Fyr­ir þann sem hér skrif­ar var á marg­an hátt erfitt að af­greiða fjár­lög með þeim hætti sem gert var. Þótt staðan í efna­hags­mál­um sé góð – öf­undsverð í aug­um flestra annarra þjóða – verður ekki um það deilt að út­gjöld hafa auk­ist gríðarlega á síðustu árum. Aukn­ing­in á sér í mörgu eðli­leg­ar skýr­ing­ar en aug­ljóst er að það hef­ur slaknað á kröf­um sem gera verður um hag­kvæma ráðstöf­un sam­eig­in­legra fjár­muna. Varla er hægt að kom­ast að ann­arri niður­stöðu en að vandi rík­is­sjóðs liggi ekki í skorti á fjár­magni held­ur í því með hvaða hætti fjár­mun­irn­ir eru nýtt­ir.

Gríðarleg aukn­ing út­gjalda

Meiri­hluti fjár­laga­nefnd­ar dreg­ur fram í nefndaráliti að frá 2017 til kom­andi árs hafi út­gjöld rík­is­sjóðs hækkað um 158 millj­arða sem er 18,9% að raun­gildi. Mesta aukn­ing­in hef­ur verið til vel­ferðar­mála; heil­brigðis­kerf­is­ins, trygg­inga­kerf­is­ins og fjöl­skyldu­mála. Þá er mik­il og skyn­sam­leg aukn­ing í fjár­fest­ing­um, ekki síst í vega­mál­um.

Sam­kvæmt fjár­lög­um sem samþykkt voru áður en nóv­em­ber var úti munu rík­is­út­gjöld nema að meðaltali rúm­lega 19 millj­örðum króna í hverri ein­ustu viku kom­andi árs – alls rétt tæp­um eitt þúsund millj­örðum í heild.

Eins og svo oft áður voru ekki all­ir sátt­ir við að út­gjöld ykj­ust ekki enn meira. Sam­fylk­ing­in var á kunn­ug­leg­um slóðum við af­greiðslu fjár­laga: Útgjöld skal auka. Full­trúi flokks­ins í fjár­laga­nefnd lagði til 18,5 millj­arða aukn­ingu og und­ir­strikaði þar með góðmennsku sína. Flokk­ur fólks­ins bauð enn bet­ur. Auka skyldi út­gjöld um 39 millj­arða frá frum­varpi – sem er fimm millj­örðum hærri fjár­hæð en fram­lög til allra fram­halds­skóla lands­ins.

Yf­ir­boð af þessu tagi eru fylgi­fisk­ar fjár­laga­gerðar og að lík­ind­um ekki til ann­ars en „heima­brúks“. Jafn­vel fjöl­miðlar eru hætt­ir að veita þeim mikla eft­ir­tekt.

Skatta­lækk­un – en samt

En þrátt fyr­ir mikla aukn­ingu út­gjalda er hægt að gleðjast yfir því að tek­ist hef­ur að tryggja veru­lega skatta­lækk­un til ein­stak­linga. Í nefndaráliti meiri­hluta efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar vegna breyt­inga á lög­um um tekju­skatt kem­ur fram að á næsta ári lækki tekju­skatt­ur ein­stak­linga um 5,5 millj­arða og 21 millj­arð árið 2021. Gangi áformin eft­ir er ljóst að upp­söfnuð lækk­un tekju­skatts ein­stak­linga er um 31,6 millj­arðar króna á kjör­tíma­bili rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Hitt skal játað að nokk­ur skuggi fell­ur á þessa veru­legu skatta­lækk­un. Skattþrep­um verður fjölgað að nýju í þrjú. Þetta þýðir að verið er að flækja skatt­kerfið að nýju, þvert á það sem ég hef bar­ist fyr­ir. Mark­mið breyt­ing­anna er að tryggja að tekju­lægstu hóp­arn­ir njóti hlut­falls­lega meiri ávinn­ings af skatta­lækk­un­inni en aðrir hóp­ar. Þessu mark­miði hefði hins veg­ar verið hægt að ná með því að inn­leiða flat­an tekju­skatt með stig­lækk­andi per­sónu­afslætti eft­ir því sem tekj­ur hækka. (Ég gerði grein fyr­ir nýju tekju­skatt­s­kerfi m.a. á síðum Morg­un­blaðsins 24. janú­ar 2018).

Flatur tekju­skatt­ur með stig­lækk­andi per­sónu­afslætti þjón­ar bet­ur mark­miði sínu en margþrepa skatt­kerfi sem tek­ur við á nýju ári. Það er ein­fald­ara og staða lág­launa­stétta og milli­tekju­hópa er sterk­ari. Ýtt er und­ir fólk í stað þess að berja það niður með háum jaðarskött­um með til­heyr­andi tekju­teng­ing­um og hærra skattþrepi. Ekki skipt­ir minna máli að flatur tekju­skatt­ur, eins og ég hef talað fyr­ir, er lík­legri til að hemja skattaglaða stjórn­mála­menn. Það verður póli­tískt erfiðara fyr­ir þá sem líta á skatt­greiðend­ur sem hlaðborð fyr­ir rík­is­sjóð að hækka skatt­pró­sent­una sem all­ir þurfa að greiða en þegar skatt­pró­sent­an er mis­jöfn eft­ir tekj­um.

Ég vona að fórn­ar­kostnaður­inn (flókn­ara skatt­kerfi) við að tryggja veru­lega lækk­un tekju­skatts ein­stak­linga reyn­ist ekki of mik­ill þegar upp verður staðið.

Af­leiðing góðrar stöðu?

Tilþrifa­lít­il umræða um fjár­lög og um­fangs­mikl­ar kerf­is­breyt­ing­ar á tekju­skatt­s­kerf­inu eru ef til vill af­leiðing af góðri stöðu í efna­hags­mál­um, þrátt fyr­ir áföll – gjaldþrot WOW og loðnu­brest. Við slík­ar aðstæður get­ur lífið í stjórn­ar­and­stöðu verið erfitt, jafn­vel svo óbæri­leg að ekki er tal­in ástæða til að skila inn nefndarálit­um um helstu tekju­frum­vörp rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Eitt helsta mark­mið hag­stjórn­ar er að búa svo um hnút­ana að hag­kerfi geti tek­ist á við það óvænta, ekki síst efna­hags­lega erfiðleika. Íslenska þjóðarbúið hef­ur siglt í gegn­um al­var­leg áföll síðustu mánuði og flest bend­ir til að þegar á næsta ári taki efna­hags­lífið við sér. OECD spá­ir 1,6% hag­vexti á næsta ári og 2,6% árið 2021. Stjórn­völd­um hef­ur því tek­ist ágæt­lega að ná mark­miðum hag­stjórn­ar. Þar skipt­ir sam­spil pen­inga­stjórn­ar og rík­is­fjár­mála ekki síst máli.

Sam­kvæmt bráðabirgðayf­ir­liti Seðlabank­ans námu er­lend­ar eign­ir þjóðarbús­ins 3.870 millj­örðum í lok sept­em­ber en skuld­ir 3.156 millj­örðum. Hrein staða við út­lönd var því já­kvæð um 714 millj­arða eða 24,5% af vergri lands­fram­leiðslu. Staðan hef­ur aldrei verið betri og sýn­ir þann styrk sem ís­lenskt sam­fé­lag býr yfir.

Verðbólga er lág og vext­ir hafa ekki verið lægri. Í fyrsta skipti í ára­tugi eru óverðtryggð fast­eignalán raun­hæf­ur kost­ur fyr­ir launa­fólk. Lífs­kjara­samn­ing­ar al­menna vinnu­markaðar­ins hafa lagt grunn að frek­ari kjara­bót­um. Frá 2011 hef­ur launa­vísi­tal­an hækkað um 78% en neyslu­verðsvísi­tal­an aðeins um 28%. Meiri­hluti fjár­laga­nefnd­ar full­yrðir að hér sé um eins­dæmi að ræða í hag­sögu lands­ins, þ.e. að laun hækki svona mikið um­fram verðlag yfir margra ára tíma­bil.

Stjórn­ar­andstaða sem stend­ur frammi fyr­ir þess­um efna­hags­legu staðreynd­um er ekki í öf­undsverðri stöðu. Hitt er svo annað að þótt stjórn­ar­andstaðan eigi erfitt með að kljást við um­fangs­mestu mál rík­is­stjórn­ar­inn­ar – fjár­lög og tekju- og skattafrum­vörp – ger­ir það starf stjórn­arþing­manns ekki létt­ara.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. desember 2019.