Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:
Greint var frá því í fréttum um sl. helgi að annan hvern dag komi kona með áverka eftir heimilisofbeldi á Landspítalann. Þessar upplýsingar koma fram í nýrri skýrslu sem nær yfir 10 ára tímabil. Beinn kostnaður spítalans er sagður um 100 milljónir króna. Raunverulegur kostnaður er mun meiri. Fyrir þolendur er um óbætanlegt tjón að ræða.
Heimilið á að vera friðar- og griðastaður en ekki vettvangur ofbeldis og annarra óhæfuverka, hvorki gegn konum, stúlkum né öðrum heimilismönnum. Kynbundið ofbeldi er mesta ógn gegn frelsi og sjálfsákvörðunarrétti kvenna sem fyrirfinnst í íslensku samfélagi. Jafnrétti kynjanna verður aldrei að veruleika á meðan það fær þrifist.
Árlega leita hundruð kvenna til Kvennaathvarfsins og Stígamóta í leit að skjóli undan líkamlegu og andlegu ofbeldi á heimilum sínum. Ofbeldi á heimilum er skeinuhættast kvenfrelsinu. Þögn og afskiptaleysi er í bandalagi með ofbeldismanninum.
Gerendurnir eru í flestum tilvikum eiginmenn, fyrrverandi eiginmenn, sambýlismenn, kærastar, feður, bræður, frændur eða vinir. Innan við 20% ofbeldismanna eru ókunnugir þeim konum sem þeir beita ofbeldi skv. upplýsingum frá Stígamótum.
Nú stendur yfir árlegt 16 daga alþjóðlegt átak gegn kynbundnu ofbeldi. Það hófst 25. nóvember sl. á alþjóðlegum degi gegn ofbeldi sem beinist að konum og því lýkur 10. desember nk. sem er hinn alþjóðlegi mannréttindadagur. Átakinu er ætlað að opna augu sem flestra fyrir þessu vandamáli. Árangur næst ekki nema með almennri vitundarvakningu meðal þjóðarinnar og þá ekki síst meðal karlmanna. Við verðum öll að stíga fram og hafna hvers kyns áreitni og ofbeldi.
Margt hefur áunnist í þessari baráttu. Sem dæmi má nefna þá mikilvægu breytingu sem gerð var á almennum hegningarlögum árið 2016 að setja sérstakt ákvæði um ofbeldi í nánum samböndum. Fyrst og fremst var það sett í þeim tilgangi að draga athyglina að alvöru heimilisofbeldis. Ákvæðið er rökrétt framhald af viðhorfsbreytingu sem hefur átt sér stað í samfélaginu og lýsir sér m.a. í því breytta verklagi sem lögreglan hefur tekið upp þegar hún er kölluð út vegna brota af þessu tagi.
Ísland fullgilti einnig svonefndan Istanbúlsamning fyrr á þessu ári en samningurinn lýtur að forvörnum og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Fullgildingin felur í sér að Ísland hefur skuldbundið sig til að fara að ákvæðum samningsins og tryggja vernd kvenna gegn ofbeldi og heimilisofbeldi í samræmi við ákvæði hans.
Skilaboðin eru skýr. Á Íslandi líðum við ekki heimilisofbeldi og áfram verður unnið að auknum úrbótum. Hafi einhvern tímann verið talið að ofbeldi fengi að þrífast inni á heimilum og að yfirvöld létu það óátalið er ljóst núna að svo er ekki.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. desember 2019.