Stjórnvöldum hælt fyrir rétt viðbrögð
'}}

Rétt viðbrögð við efnahagsstjórn hafa mildað höggið á hagkerfið samkvæmt áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Þetta kemur fram í frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins – sjá hér.

Þar segir að stoðir íslensks efnahagslífs séu sterkar og að grundvöllur sé fyrir því að hagvöxtur taki senn við sér að nýju. AGS segir að nægt svigrúm sé til staðar til að bregðast við ef hagvöxtur reynist lakari en búst sé við og að umgjörð ríkisfjármála sé til þess fallin að auka svigrúm og trúverðugleika fjármálastefnunnar.

Búist er við að skuldahlutfall hins opinbera lækki enn frekar á næstu árum. AGS segir trúverðugleika peningastjórnunar mikinn og verðbólguvæntingar nálægt markmiði.

Í frumniðurstöðum sendinefndarinnar segir að hagstjóranrviðbrögð í kjölfar falls WOW air og fleiri efnahagsáfalla á þessu ári hafi verið rétt og hröð. Þar er vísað til slökunar á aðhaldi ríkisfjármála og lækkun stýrivaxta.

Eins segir að hóflegar launahækkanir á kjarasamningum hafi stuðlað að minna atvinnuleysi en ella hefði getað orðið. Jöfnuður á íslenskum vinnumarkaði sé með þeim mesta sem gerist í þróuðum hagkerfum.

Þá kemur fram að styrkar stoðir íslensks efnahagslífs og trúverðugleiki hagstjórnaraðila hafi orðið til þess að niðursveiflan sé mildari en ella. Þá segir AGS að hagkerfið sé í stakk búið til að taka við sér á ný og að útlit sé fyrir 2% hagvaxtaraukningu.

AGS telur sameiningu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka til bóta og að það stuðli að öflugra og sjálfstæðara fjármálaeftirliti.