Eftir Eyþór Arnalds:
Grein Skúla Helgasonar fimmtudaginn 7. nóvember sem rituð var undir fyrirsögninni Viðrar vel til loftárása? vakti athygli. Enn eina ferðina tilkynnir Skúli að loka eigi Korpuskóla áður en skólaráðið sjálft fái ráðrúm til að taka endanlega afstöðu til lokunar grunnskóla í norðanverðum Grafarvogi. Það skýtur skökku við að Skúli skuli tilkynna að búið sé að taka ákvörðun um lokun Korpuskóla áður en fundur er haldinn í skóla- og frístundaráði. Ekki síst vegna þess að einmitt sama dag og fundurinn er haldinn, þriðjudaginn 12. nóvember, rennur út umsagnarfrestur foreldraráða og skólaráða.
Við í Sjálfstæðisflokknum höfum lagt til markvissar tillögur til að koma í veg fyrir lokun Korpuskóla. Í fyrsta lagi höfum við lagt til samrekstur leik- og grunnskóla í skólahúsnæðinu. Í öðru lagi að fjölga í árgöngum þannig að unglingar komi til baka sem sendir voru burt á sínum tíma. Í þriðja lagi höfum við lagt til að heimila uppbyggingu í Staðahverfi til að tryggja nægan nemendafjölda í skólanum. Þetta eru skynsamlegar tillögur sem myndu tryggja rekstur Korpuskóla til frambúðar.
Skákað í skálkaskjóli
Skúli fullyrðir að þar sem unglingar voru tímabundið sendir í Víkurskóla árið 2008 vegna myglu í útikennslustofum sé búið að fækka í skólanum. Þessi ráðstöfun fyrir meira en áratug var tímabundin og það á formaður skóla- og frístundaráðs að vita. Reyndar er Samfylkingin á sínu þriðja kjörtímabili í meirihluta í Reykjavík og getur ekki skýlt sér bak við aðra. Samfylkingin hefur farið með formennsku í skóla- og frístundaráði allan tímann. Níu ár hafa ekki dugað Samfylkingunni til að draga þessa tímabundnu ráðstöfun til baka en í staðinn er hún notuð sem skálkaskjól. Staðreyndin er sú að nægt pláss er í Korpuskóla fyrir alla nemendur Staðahverfis. Þetta vita Grafarvogsbúar og eru ósáttir við gerræðið í ráðhúsinu.
Við skulum vona að fyrirsögn greinar Skúla „Viðrar vel til loftárása?“ verði ekki orð að sönnu hvað skólastarf í Grafarvogi snertir. Í stað þess að leggja til atlögu við skólastarf í Grafarvogi ráðlegg ég meirihlutanum að sýna sóma sinn í því að draga þessa tillögur sínar til baka og finna farsæla lausn í sátt og samlyndi við íbúa og starfsfólk.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 11.11.2019