Hafdís Gunnarsdóttir formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og Hildur Sólveig Sigurðardóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum:
Öflugt sjúkraflug er einn mikilvægasti liður í öryggi landsmanna sem búa utan höfuðborgarsvæðisins. Aðgengi að heilbrigðisþjónustu er sannarlega víðsvegar um landið en þegar kemur að sérhæfðri bráðaþjónustu er hún fyrst og fremst veitt í Reykjavík og þá skiptir hver mínúta við sjúkraflutninga íbúa á landsbyggðinni lífsspursmáli. Íbúar Vestmannaeyja og Vestfjarða reiða sig mikið á sjúkraflug til að sækja bráðaþjónustu, en skurðstofu var lokað í Vestmannaeyjum árið 2013 og er hún ekki til staðar á sunnanverðum Vestfjörðum.
Óviðunandi aðstæður í sjúkraflugi
Alvarleg lífsógnandi veikindi á borð við kransæðastíflu og blóðtappa í heila, vandamál við fæðingu og lífshættuleg slys eru þess eðlis að stuttur viðbragðstími fyrir aðkomu sérhæfðrar bráðaþjónustu er oftar en ekki forsenda lífsbjargandi meðferðar. Árið 2013 kom út skýrsla ríkisendurskoðunar um viðbragðstíma sjúkraflugs og þróun þess. Þar kom skýrt fram að viðbragðstími vegna sjúkraflutninga til Vestfjarða og Vestmannaeyja hefur aukist í kjölfar þess að miðstöð sjúkraflugs var flutt til Akureyrar. Samkvæmt skýrslunni jókst viðbragðstími að meðaltali um tvær mínútur fyrir Vestfirði en 24 mínútur fyrir Vestmannaeyjar og stendur þar svart á hvítu „að ljóst er að þessi munur getur í einhverjum tilvikum skipt sköpum“. Greinarhöfundar þekkja dæmi úr sínum samfélögum þar sem slíkar dýrmætar mínútur hafa haft óafturkræfar afleiðingar fyrir sjúklinga. Í raun er ómögulegt að segja hversu oft aukinn viðbragðstími sjúkraflugs hefur haft óbætanleg áhrif á íbúa þessara landsvæða. Við undirbúning flutnings sjúkraflugsins til Akureyrar ályktuðu ýmsir hagsmunaaðilar, s.s. félag íslenskra landsbyggðarlækna, heilbrigðisstofnanir og sveitarfélög á landsbyggðinni, þar sem tekið var undir hugmyndir um að sérhæfð sjúkraflugvél yrði staðsett á Akureyri. Margir höfðu þó áhyggjur af sérstöðu Vestmannaeyja og Ísafjarðar og vildu að flugvélar yrðu einnig þar.
Ein sjúkraflugvél sinnir öllu landinu
Eins og staðan er í dag er aðeins ein sjúkraflugvél sem sinnir sjúkraflugi á öllu landinu og er hún staðsett á Akureyri. Slíkt fyrirkomulag býður þeirri hættu heim að sjúkravélin sé upptekin í útkalli í einum landshluta þegar bráðaútkall kemur í öðrum. Við F1-útkall, sem þýðir bráð lífsógn, setja Sjúkratryggingar Íslands þær kröfur að viðbragðstími skuli ekki vera lengri en 35 mínútur en ef sjúkraflugvél er að sinna öðru verkefni lengist viðbragðstíminn í allt að 105 mínútur. Til viðbótar við sjúkraflugvélina sjá björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar um brýna sjúkraflutninga þegar þeim verður ekki viðkomið með bílum eða flugvél. Vandamálið er þó að viðbragðstími þeirra er yfirleitt lengri en sjúkraflugvéla þar sem þær fara almennt hægar yfir.
Aðgerðaleysi í sex ár á meðan kostnaður við sjúkraflug eykst verulega
Í eftirfylgniskýrslu um stöðu sjúkraflugs sem birtist 2016 gagnrýndi ríkisendurskoðun þann seinagang sem ríkt hefur í þessum mikilvæga málaflokki. Jafnframt gagnrýndi hún samskiptaleysi milli þeirra ráðuneyta sem í hlut eiga, en á þeim sex árum frá því skýrslan kom fyrst út hafa aðstæður í sjúkraflugi lítið sem ekkert breyst til þessara dreifðu byggða. Á sama tíma hefur ríkisvaldið dregið úr sérhæfðri heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, á meðan stórfelld aukning erlendra ferðamanna á landinu veldur því að fjöldi og kostnaður vegna sjúkraflugs fer vaxandi frá ári til árs. Til að mynda jókst umfang sjúkraflutninga á árunum 2014-2017 um allt að 37%, mest á Suðurlandi, Suðurnesjum og Akureyri.
Sérútbúin sjúkraþyrla á Suðurland og björgunarþyrla Landhelgisgæslu á Vestfirði
Sérútbúin sjúkraþyrla með staðarvakt sem væri staðsett á Suðurlandi hefði margvíslega kosti í för með sér. Bráðaviðbragð fyrir íbúa og ferðafólk á Suðurlandi væri mun öruggara og hraðara. Slíkir sjúkraflutningar myndu draga úr álagi á sjúkravélinni á Akureyri frá landshlutanum og bæta þannig viðbragð vélarinnar við aðra landshluta. Auk þess gæti fyrirkomulagið skapað svigrúm til þess að staðsetja björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar víðar um landið, t.a.m. að ein þriggja þyrlna Landhelgisgæslunnar yrði staðsett á Vestfjörðum og jafnvel ein á Norðausturlandi. Slíkt myndi auka öryggi og viðbragð við alvarlegum slysum á þessum landshlutum, sem og auka til muna öryggi sjófarenda sem fara um hafsvæði þessara landshluta.
Aðgerða er þörf
Fyrir hönd íbúa í Vestmannaeyjum og á Vestfjörðum skora undirritaðar á þingmenn og viðeigandi ráðuneyti að grípa tafarlaust til aðgerða vegna sjúkraflugs þessara byggðarlaga. Með blönduðu kerfi sjúkra- og björgunarþyrlna, þar sem sérútbúin sjúkraþyrla yrði staðsett á Suðurlandi og björgunarþyrla Landhelgisgæslu á Vestfjörðum, yrðu stigin mikilvæg skref í þá átt að jafna aðgengi landsmanna að sérhæfðri bráðaþjónustu en samkvæmt lögum eiga allir landsmenn að eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita. Hér er um mikið öryggismál að ræða og á það að vera sjálfsögð krafa að slík forgangsmál séu í lagi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. október 2019.