Staða sjúkraflugs óviðunandi
'}}

Hafdís Gunnarsdóttir formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og Hildur Sólveig Sigurðardóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum:

Öflugt sjúkra­flug er einn mik­il­væg­asti liður í ör­yggi lands­manna sem búa utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Aðgengi að heil­brigðisþjón­ustu er sann­ar­lega víðsveg­ar um landið en þegar kem­ur að sér­hæfðri bráðaþjón­ustu er hún fyrst og fremst veitt í Reykja­vík og þá skipt­ir hver mín­úta við sjúkra­flutn­inga íbúa á lands­byggðinni lífs­spurs­máli. Íbúar Vest­manna­eyja og Vest­fjarða reiða sig mikið á sjúkra­flug til að sækja bráðaþjón­ustu, en skurðstofu var lokað í Vest­manna­eyj­um árið 2013 og er hún ekki til staðar á sunn­an­verðum Vest­fjörðum.

Óviðun­andi aðstæður í sjúkra­flugi

Al­var­leg líf­sógn­andi veik­indi á borð við kran­sæðastíflu og blóðtappa í heila, vanda­mál við fæðingu og lífs­hættu­leg slys eru þess eðlis að stutt­ur viðbragðstími fyr­ir aðkomu sér­hæfðrar bráðaþjón­ustu er oft­ar en ekki for­senda lífs­bjarg­andi meðferðar. Árið 2013 kom út skýrsla rík­is­end­ur­skoðunar um viðbragðstíma sjúkra­flugs og þróun þess. Þar kom skýrt fram að viðbragðstími vegna sjúkra­flutn­inga til Vest­fjarða og Vest­manna­eyja hef­ur auk­ist í kjöl­far þess að miðstöð sjúkra­flugs var flutt til Ak­ur­eyr­ar. Sam­kvæmt skýrsl­unni jókst viðbragðstími að meðaltali um tvær mín­út­ur fyr­ir Vest­f­irði en 24 mín­út­ur fyr­ir Vest­manna­eyj­ar og stend­ur þar svart á hvítu „að ljóst er að þessi mun­ur get­ur í ein­hverj­um til­vik­um skipt sköp­um“. Grein­ar­höf­und­ar þekkja dæmi úr sín­um sam­fé­lög­um þar sem slík­ar dýr­mæt­ar mín­út­ur hafa haft óaft­ur­kræf­ar af­leiðing­ar fyr­ir sjúk­linga. Í raun er ómögu­legt að segja hversu oft auk­inn viðbragðstími sjúkra­flugs hef­ur haft óbæt­an­leg áhrif á íbúa þess­ara landsvæða. Við und­ir­bún­ing flutn­ings sjúkra­flugs­ins til Ak­ur­eyr­ar ályktuðu ýms­ir hags­munaaðilar, s.s. fé­lag ís­lenskra lands­byggðarlækna, heil­brigðis­stofn­an­ir og sveit­ar­fé­lög á lands­byggðinni, þar sem tekið var und­ir hug­mynd­ir um að sér­hæfð sjúkra­flug­vél yrði staðsett á Ak­ur­eyri. Marg­ir höfðu þó áhyggj­ur af sér­stöðu Vest­manna­eyja og Ísa­fjarðar og vildu að flug­vél­ar yrðu einnig þar.

Ein sjúkra­flug­vél sinn­ir öllu land­inu

Eins og staðan er í dag er aðeins ein sjúkra­flug­vél sem sinn­ir sjúkra­flugi á öllu land­inu og er hún staðsett á Ak­ur­eyri. Slíkt fyr­ir­komu­lag býður þeirri hættu heim að sjúkra­vél­in sé upp­tek­in í út­kalli í ein­um lands­hluta þegar bráðaút­kall kem­ur í öðrum. Við F1-út­kall, sem þýðir bráð líf­sógn, setja Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands þær kröf­ur að viðbragðstími skuli ekki vera lengri en 35 mín­út­ur en ef sjúkra­flug­vél er að sinna öðru verk­efni leng­ist viðbragðstím­inn í allt að 105 mín­út­ur. Til viðbót­ar við sjúkra­flug­vél­ina sjá björg­un­arþyrl­ur Land­helg­is­gæsl­unn­ar um brýna sjúkra­flutn­inga þegar þeim verður ekki viðkomið með bíl­um eða flug­vél. Vanda­málið er þó að viðbragðstími þeirra er yf­ir­leitt lengri en sjúkra­flug­véla þar sem þær fara al­mennt hæg­ar yfir.

Aðgerðal­eysi í sex ár á meðan kostnaður við sjúkra­flug eykst veru­lega

Í eft­ir­fylgni­skýrslu um stöðu sjúkra­flugs sem birt­ist 2016 gagn­rýndi rík­is­end­ur­skoðun þann seina­gang sem ríkt hef­ur í þess­um mik­il­væga mála­flokki. Jafn­framt gagn­rýndi hún sam­skipta­leysi milli þeirra ráðuneyta sem í hlut eiga, en á þeim sex árum frá því skýrsl­an kom fyrst út hafa aðstæður í sjúkra­flugi lítið sem ekk­ert breyst til þess­ara dreifðu byggða. Á sama tíma hef­ur rík­is­valdið dregið úr sér­hæfðri heil­brigðisþjón­ustu á lands­byggðinni, á meðan stór­felld aukn­ing er­lendra ferðamanna á land­inu veld­ur því að fjöldi og kostnaður vegna sjúkra­flugs fer vax­andi frá ári til árs. Til að mynda jókst um­fang sjúkra­flutn­inga á ár­un­um 2014-2017 um allt að 37%, mest á Suður­landi, Suður­nesj­um og Ak­ur­eyri.

Sér­út­bú­in sjúkraþyrla á Suður­land og björg­un­arþyrla Land­helg­is­gæslu á Vest­f­irði

Sér­út­bú­in sjúkraþyrla með staðar­vakt sem væri staðsett á Suður­landi hefði marg­vís­lega kosti í för með sér. Bráðaviðbragð fyr­ir íbúa og ferðafólk á Suður­landi væri mun ör­ugg­ara og hraðara. Slík­ir sjúkra­flutn­ing­ar myndu draga úr álagi á sjúkra­vél­inni á Ak­ur­eyri frá lands­hlut­an­um og bæta þannig viðbragð vél­ar­inn­ar við aðra lands­hluta. Auk þess gæti fyr­ir­komu­lagið skapað svig­rúm til þess að staðsetja björg­un­arþyrl­ur Land­helg­is­gæsl­unn­ar víðar um landið, t.a.m. að ein þriggja þyrlna Land­helg­is­gæsl­unn­ar yrði staðsett á Vest­fjörðum og jafn­vel ein á Norðaust­ur­landi. Slíkt myndi auka ör­yggi og viðbragð við al­var­leg­um slys­um á þess­um lands­hlut­um, sem og auka til muna ör­yggi sjófar­enda sem fara um hafsvæði þess­ara lands­hluta.

Aðgerða er þörf

Fyr­ir hönd íbúa í Vest­manna­eyj­um og á Vest­fjörðum skora und­ir­ritaðar á þing­menn og viðeig­andi ráðuneyti að grípa taf­ar­laust til aðgerða vegna sjúkra­flugs þess­ara byggðarlaga. Með blönduðu kerfi sjúkra- og björg­un­arþyrlna, þar sem sér­út­bú­in sjúkraþyrla yrði staðsett á Suður­landi og björg­un­arþyrla Land­helg­is­gæslu á Vest­fjörðum, yrðu stig­in mik­il­væg skref í þá átt að jafna aðgengi lands­manna að sér­hæfðri bráðaþjón­ustu en sam­kvæmt lög­um eiga all­ir lands­menn að eiga kost á full­komn­ustu heil­brigðisþjón­ustu sem á hverj­um tíma eru tök á að veita. Hér er um mikið ör­ygg­is­mál að ræða og á það að vera sjálf­sögð krafa að slík for­gangs­mál séu í lagi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. október 2019.