Tíðindamikil vika
'}}

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Þrennt þykir mér standa upp úr þegar ég lít til baka yfir síðustu sjö daga. Í fyrsta lagi mjög vel heppnaður flokksráðsfundur okkar Sjálfstæðismanna um liðna helgi. Í öðru lagi skýrsla OECD um Ísland. Og í þriðja lagi hið merkilega nýmæli að taka upp velsældarmælikvarða sem víðara sjónarhorn á þá viðleitni okkar að hámarka hamingju og lífsgæði landsmanna.

Góð einkunn

Efnahags- og framfarastofnunin OECD er merkilegur samstarfsvettvangur 36 ríkja sem í grunninn gengur út á að miðla af reynslu til að bæta lífskjör og stuðla að hagvexti. Hún var stofnuð 1961 á grunni eldri stofnunar sem hafði verið sett á laggirnar 1948 til að hafa umsjón með Marshall-áætluninni um endurreisn Evrópu. Marshall-áætlunin gekk nefnilega ekki bara út á peningastyrki heldur líka stefnu um bætta viðskiptahætti, umbætur á regluverki í þágu frjálsra viðskipta og niðurfellingu á viðskiptahindrunum.

Í vikunni var kynnt ítarleg skýrsla OECD um íslensk efnahagsmál í þremur hlutum. Fyrsti hlutinn fjallar um efnahagsmál okkar almennt, annar hlutinn um menntun og hæfni og þriðji hlutinn um umbætur á ríkisútgjöldum til að viðhalda hagvexti og almennri hagsæld.

Meginniðurstaðan er að íslenskt efnahagsumhverfi er heilbrigt, jöfnuður með því mesta sem þekkist og staða ríkissjóðs traust. Lífskjör hér eru einhver hin bestu sem þekkjast meðal aðildarríkja OECD, þökk sé miklum hagvexti undanfarin ár með litlu atvinnuleysi, lágri verðbólgu og jákvæðum ytri skilyrðum. Á sama tíma hefur umgjörð hins opinbera verið styrkt og fjármálastjórnin einkennst af varfærni og lækkun skulda. Staða hins opinbera er því bæði sterk og sjálfbær.

Tillögur til úrbóta

Tilgangur OECD er ekki síst að miðla af reynslu aðildarríkjanna og leggja til umbætur. Fjölmargar slíkar tillögur eru í nýju skýrslunni.

Varðandi opinberan rekstur er lagt til að haldið verði áfram að lækka skuldir og virða umgjörð opinberra fjármála. Haldið verði áfram með áætlanir um sölu banka. Aukin áhersla verði lögð á endurmat útgjalda og slíkt mat verði einnig látið ná til stærstu útgjaldaflokka ríkisins, ekki síst heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins. Fjárfestingar í innviðum verði auknar, til að mynda í vegum, fjarskiptum og raforkukerfi. Veggjöld verði tekin upp sem stýringar- og fjármögnunartæki. Dregið verði úr áherslu á bótagreiðslur í því skyni að styðja við atvinnuþátttöku.

Varðandi framleiðni og samkeppnishæfni íslenska hagkerfisins er lagt til að dregið verði úr rekstrarhindrunum, ekki síst í þjónustu- og flutningsgreinum. Við ákvörðun launa verði fylgt framleiðnivexti og umgjörð kjarasamninga treyst. Stuðlað verði að auknum hreyfanleika vinnuafls yfir í verðmætari störf með aukinni menntun.

Ég fagna þessum tillögum til úrbóta og tel mikilvægt að horfa til þeirra í okkar störfum á næstu misserum.

Velsældarmælikvarðarnir

Æ meiri skilningur er á því að hagvöxtur og landsframleiðsla eru ekki einu mælikvarðarnir sem máli skipta þegar við mælum árangur ríkja í að hámarka hamingju, velferð og lífsgæði borgaranna.

Það voru því ánægjuleg tímamót í vikunni þegar kynntar voru tillögur að þrjátíu og níu velsældarmælikvörðum, sem nefnd um hagsæld og lífsgæði vann fyrir forsætisráðherra. Þetta er mjög spennandi og mikilvæg viðleitni til að gefa heildstæðari mynd af stöðu okkar og árangri.

Með tillögunum fylgja einnig niðurstöður skoðanakönnunar um það hvað almenningi finnst skipta mestu máli varðandi lífsgæði. Fróðlegt er að bera þær niðurstöður saman við mælikvarðana þrjátíu og níu.

Tillögurnar eru í samráðsferli í samráðsgátt Stjórnarráðsins og geta allir sagt sitt álit á þeim þar.

Flokksráðsfundur um orkumál og umfang hins opinbera

Fyrir viku héldum við Sjálfstæðisfólk fjölmennan flokksráðsfund sem var einkum helgaður tveimur málefnum: umfangi hins opinbera og orkumálum.

Mikill samhugur var á fundinum og almenn ánægja með umræður þar og árangur af þeim. Skoðanaskipti voru lífleg en málefnaleg og þetta var ekki „hitafundur“ eins og stundum er sagt.

Stjórnmálaályktun fundarins fjallar að verulegu leyti um orkumál og þar er tekið sterkt og afdráttarlaust til orða: Forræði yfir orkuauðlindum skal vera í höndum okkar Íslendinga. Orkuauðlindir í opinberri eigu skulu vera það áfram. Ríkja skal jafnræði milli landsmanna varðandi dreifikostnað raforku. Tryggja skal nægt framboð af raforku og nýta kosti frjálsrar samkeppni. Koma þarf í veg fyrir að almennir notendur séu berskjaldaðir gagnvart orkufátækt. Tryggja skal landsmönnum ábata af hagnaði orkufyrirtækja í eigu ríkisins með beinum hætti. Fleira mætti telja en það var einstaklega jákvætt hve djúpar og málefnalegar umræður sköpuðust um orkumál á þessum stóra flokksráðsfundi okkar.

Þá áréttaði fundurinn mikilvægi þess að einfalda regluverk atvinnulífsins til að styrkja samkeppnishæfni fyrirtækja, lækka vöruverð og auka framleiðni og svigrúm til launahækkana.

Ég hlakka mjög til að fylgja áherslum fundarins eftir.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 21. september 2019