Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Það er sama af hvaða sjónarhóli horft er á íslenskt samfélag. Við getum horft á framtíðina með augum ungs fólks sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði eða þeirra sem eru að ljúka eða hafa lokið góðri starfsævi. Við getum sett okkur í spor barna sem full tilhlökkunar setjast á skólabekk í fyrsta skipti eða foreldra þeirra sem eiga sín bestu ár eftir á vinnumarkaði. Sjónarhóllinn kann að vera mismunandi en öllum ætti að vera ljóst hve mikilvægt það er að kynslóðirnar mæti sameiginlega áskorunum sem fylgja breyttri aldurssamsetningu á komandi áratugum.
Gleðifréttirnar eru þær að Íslendingar verða stöðugt eldri. Lífslíkur karla hafa aukist um níu ár síðustu 40 ár eða svo. Meðalævilengd karla var 71,6 ár árin 1971-75. Árið 2017 var meðalaldurinn 80,6 ár. Meðalævilengd kvenna hefur einnig lengst – úr 73,5 árum í 83,9.
Vondu fréttirnar eru þær að frjósemi heldur áfram að minnka. Árið 2018 var frjósemi íslenskra kvenna 1,7 börn á ævi hverrar konu og hefur hún aldrei verið minni frá því að mælingar hófust árið 1853, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Árið 1971 eignaðist hver kona að meðaltali 2,9 börn, árið 1960 um 4,3 börn. Líkt og bent er á í frétt Hagstofunnar í apríl síðastliðnum er miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið.
Eitt það besta í heiminum
Í heild er íslenska lífeyriskerfið sterkt – eitt það besta í heiminum. Hlutfallslega fjölgar þeim stöðugt sem fá greiddan lífeyri frá lífeyrissjóðunum og þeim eldri borgurum sem þurfa að treysta eingöngu á greiðslu frá almannatryggingum fækkar. Þetta eru góðar fréttir.
Samkvæmt upplýsingum Fjármálaeftirlitsins [FME] nam lífeyrissparnaður landsmanna 4.439 milljörðum króna í árslok 2018. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu nemur lífeyrissparnaðurinn 160% sem er hátt í alþjóðlegum samanburði. Aðeins Danmörk og Holland eru með hærra hlutfall eða 199% og 171%. Séreignarsparnaður í vörslu lífeyrissjóðanna nam 425 milljörðum. Séreignarsparnaður í vörslu annarra en lífeyrissjóða nam 202 milljörðum. FME bendir á að með tilkomu svokallaðrar tilgreindrar séreignar hafi eignir séreignarsparnaðar aukist hratt og muni gera það á komandi árum.
Því hefur verið haldið fram að lífeyrissjóðirnir séu fjöregg okkar Íslendinga. Okkur hefur tekist flestum þjóðum betur að búa í haginn fyrr framtíðina í stað þess að ýta vandanum yfir á komandi kynslóðir. Að þessu leyti er fyrirhyggjan meiri hér á landi en í flestum öðrum löndum.
Margar þjóðir Evrópu horfa fram á gríðarlegan vanda við að fjármagna svimandi lífeyrisskuldbindingar og standa undir hækkandi útgjöldum vegna heilbrigðismála vegna hækkandi aldurs. Sú hætta er raunveruleg – ekki síst í mörgum löndum Evrópusambandsins – að rof myndist milli kynslóða. Átök verði á milli yngri og eldri. Lífeyrisskuldbindingarnar eru svo þungar að við þær verður ekki staðið án þess að skerða lífskjör þeirra sem eru á vinnumarkaði (t.d. með stöðugt hærri sköttum) eða lækka verulega lífeyrisgreiðslur eldri borgara. Ég hef líkt þessari stöðu við tímasprengju.
Gjá milli kynslóða
Sterk staða íslensku lífeyrissjóðanna gefur okkur tækifæri til að forðast að gjá myndist milli kynslóða hér á landi. En þá verðum við að horfast í augum við áskoranir og takast á við þær. Í heild er tryggingafræðileg staða sjóðanna neikvæð – skuldbindingar eru umfram eignir – og þar ræður mestu að lífeyrisskuldbindingar ríkis og sveitarfélaga eru ekki að fullu fjármagnaðar. Samkvæmt upplýsingum FME nam útgreiddur lífeyrir samtryggingardeilda lífeyrissjóðanna á síðasta ári 136 milljörðum og jókst um 11 milljarða eða 8,8%. Ljóst er að lífeyrisþegum fjölgar hratt á næstu árum og réttindi þeirra verða að jafnaði meiri en þeirra sem nú eru á lífeyri. Útgreiddur lífeyrir mun því aukast verulega um leið og það dregur úr aukningu iðgjalda. Á móti þessu kemur að þeim sem treysta á almannatryggingar mun fækka á komandi áratugum. Almenna lífeyrissjóðakerfið tekur við.
Í liðinni viku vakti ég athygli á að við stöndum frammi fyrir breyttri lýðfræðilegri samsetningu. Hlutfall fólks, 67 ára og eldra, hækkar úr 12% í 19% árið 2040. Þá verða eldri borgarar orðnir 76 þúsund. Tuttugu árum síðar verður hlutfallið 22% og fjöldi eldri borgara 97 þúsund. Eldri borgarar verða um 114 þúsund árið 2066. Þess er ekki langt að bíða að eldri borgarar utan vinnumarkaðar verði fleiri en þeir sem eru undir tvítugu. Að óbreyttu verða æ fleiri utan vinnumarkaðar. Við sem þjóð höfum ekki efni á því – jafnvel þótt lífeyriskerfið standi sterkar hér en í flestum öðrum löndum.
Samvinna kynslóðanna
Ekki verður hjá því komist að stokka upp spilin. Hækka þarf eftirlaunaaldurinn, fyrst í 70 ár í skrefum á næstu 10-12 árum og síðan í takt við hækkun lífaldurs á komandi áratugum. Ríki og sveitarfélög verða að afnema hámarksaldur opinberra starfsmanna. Hægt er að orða þetta með einföldum hætti: Lengja verður starfsævi allra Íslendinga í takt við hærri lífaldur. Og til að standa undir bættum lífskjörum verður einnig að auka framleiðni vinnuafls og fjármagns. Framleiðni vinnuafls og fjármagns verður ekki aukin með hærri sköttum, ólíkt því sem margir stjórnmálamenn halda.
Hækkun eftirlaunaaldurs leysir auðvitað ekki allt. Við þurfum hugarfarsbreytingu. Ungt fólk verður að virða rétt þeirra eldri til að taka virkan þátt í vinnumarkaðinum og skynja þau verðmæti sem fólgin eru í reynslu og þekkingu. Að sama skapi verða þeir eldri að gefa yngra fólki svigrúm, vera opnir fyrir nýjum hugmyndum og aðferðum. Hugarfarsbreytingin felst í aukinni samvinnu milli kynslóða.
Margt eldra fólk sem er í fullu fjöri – hefur löngun og styrk til að halda áfram á vinnumarkaði. Það er efnahagsleg firra að koma í veg fyrir að það haldi áfram að vinna, hvort heldur er í fullu starfi eða hluta.
„Ég vona að ég fái að ráða hvenær ég hætti,“ sagði Bjarni Haraldsson, kaupmaður á Sauðárkróki, í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins í tilefni af því að haldið var upp á aldarafmæli Verslunar Haraldar Júlíussonar um liðna helgi. Haraldur var faðir Bjarna sem hefur staðið vaktina í versluninni í 60 ár.
Ég hef þekkt Bjarna alla mína ævi og veit að hann mun ráða sínum örlögum sjálfur. Við eigum að gera sem flestum kleift að „ráða hvenær ég hætti“. Í því er samvinna kynslóðanna fólgin.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. júlí 2019.