Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
Í ríflega áratug hefur makríll gengið í verulegu magni inn í íslenska lögsögu í fæðuleit í samkeppni við aðra stofna. Áhrif þess eru óumdeild enda á sér stað mikil þyngdaraukning þess makríls sem hingað gengur og er talið að um fjórðungur stofnsins dvelji hér að jafnaði sumarlangt á hverju ári. Veiðar íslenskra skipa urðu fyrst umtalsverðar á árinu 2007 og jukust síðan hröðum skrefum. Með tímanum varð það afstaða Íslands að sanngjörn hlutdeild í heildarveiðum makríls væri á bilinu 16-17%.
Í 10 ár hafa Íslendingar lagt sig fram um að ná samningi um nýtingu stofnsins og í því sambandi varpað fram nýjum hugmyndum og staðið fyrir sérstökum samningalotum. Því miður hefur öll sú viðleitni reynst árangurslaus. Árið 2014 gerðu Noregur, Færeyjar og Evrópusambandið með sér samning til fimm ára sem síðan var endurnýjaður óbreyttur síðasta haust til tveggja ára. Samningurinn kveður á um að þessir aðilar skipta með sér 84,4% heildaraflans en ætla 15,6% til Íslands, Grænlands og Rússlands sem sameiginlega veiddu um 32% á síðasta ári. Svigrúmið sem skilið er eftir er ekki stórt. Ísland tekur alvarlega alþjóðleg réttindi og skyldur strandríkja þar sem skýrt er kveðið á um samstarf. Það er allra hagur að stunda veiðar og stjórna nýtingu sameiginlegra auðlinda á ábyrgan hátt. Því eru það mikil vonbrigði að Noregur, Færeyjar og Evrópusambandið hafa synjað Íslendingum um rétt til að taka þátt í ákvörðunum um nýtingu þessa mikilvæga stofns. Nýlegt dæmi um þetta er frá fundi strandríkja í maí sl. þegar íslenskum vísindamönnum var meinuð þátttaka í vinnu við mótun aflareglu fyrir makrílstofninn í samvinnu við Alþjóðahafrannsóknaráðið, ICES.
Síðan samningur Noregs, Færeyja og Evrópusambandsins var gerður 2014, hefur verið stuðst við þá aðferð að miða kvóta Íslands við 16,5% af þeim viðmiðunarafla sem samningsaðilarnir hafa sett sér. Það var gert í þeirri trú að samið yrði við Ísland um þátttöku í sameiginlegri stjórn veiðanna. Nú er ekkert útlit fyrir að svo verði í bráð. Því hefur verið ákveðið að miða heildarafla Íslands við 16,5% af áætluðum heildarafla þessa árs. Miðað við þær ákvarðanir sem önnur strandríki og úthafsveiðiríki hafa tekið er áætlað að heildarafli ársins 2019 verði 850 þúsund tonn. Í samræmi við þetta er kvóti Íslands fyrir árið 2019 ákveðinn 140 þúsund tonn.
Ísland mun hér eftir sem hingað til vinna að því að ná heildarsamkomulagi allra strandríkja um sameiginlega stjórn makrílveiða. Það er réttmæt krafa okkar Íslendinga að við fáum að taka þátt í ákvörðunum um nýtingu stofnsins til jafns við önnur strandríki. Það er óréttmætt að gerð sé krafa á eitt ríki umfram önnur að það dragi úr veiðum einhliða.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. júní. 2019