Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:
Nú hefur verið fallið frá því að ráðast í breytingar í haust á skólum í norðanverðum Grafarvogi sem meirihlutinn í borgarstjórn var að reyna að keyra í gegn. Íbúar eru gríðarlega ósáttir við þessar hugmyndir um breytingar. Þeir risu upp á móti meirihlutanum í borgarstjórn og höfðu sigur í þessari orrustu. Það er merkilegt þegar íbúar þurfa orðið að verjast gegn valdhafanum til þess að halda í þá lögbundnu grunnþjónustu sem sveitarfélaginu ber skylda til þess að reka. Það er sorglegt að horfa upp á það hvernig meirihlutinn hefur miss tengingu við íbúana, þau hlusta ekki heldur reyna allt sem þau geta til þess að troða sínum hugmyndum áfram. Hugmyndum sem íbúarnir kæra sig ekkert um og eiga að fá að hafa mikið um þær að segja. Við skulum vona að þessar hugmyndir eigi ekki eftir að skjóta upp kollinum aftur. Enda algerleg fráleitt að loka og sameina skóla í hverfi sem er í mikilli endurnýjun og til stendur að byggja á svæðinu.
Þegar hefur þetta þó leitt til þess að ungt barnafólk sem hefur komið sér fyrir í norðanverðum Grafarvogi hefur ákveðið að flytja burtu. Það var að kaupa í hverfi þar sem öll þjónusta var fyrir börnin þeirra. Fólk hefur misst traust og trú á meirihlutanum og þeim vinnubrögðum sem eru viðhöfð. Íbúar hafa verið að missa af sölum á húsnæði þar sem ungt fólk hefur dregið til baka tilboð í eignir sem hafa verið til sölu. Þar er möguleiki að Reykjavíkurborg sé að skapa sér skaðabótaskyldu, enda má ekki samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis gera breytingar sem eru í andstöðu við aðalskipulag.
Ungt fólk vill búa þar sem þjónusta er góð. Það er því óskiljanlegt að ætla að draga úr þeirri þjónustu sem er í Grafarvoginum. Það er aðför að okkur íbúunum. Það skýtur einnig skökku við að nú er verið að milda áhrif sameiningar Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla sem voru sameinaðir fyrir sjö árum. Þar varð gríðarlegt rót á skólastarfinu. Nú sjö árum síðar er verið að ráða inn auka skólastjóra. Það verða því tveir skólastjórar yfir þessum tveim skólum. Aftur og aftur er verið að gera tilraunir með börnin okkar, það er ekki verið að gera tilraunir í þá átt að auka gæði kennslunnar. Þó svo þetta sé auðvitað allt gert í nafni þess að auka gæði kennslu. Hér er verið að spara, spara í þeirri grunnþjónustu sem Reykjavíkurborg á að veita. Hefur Reykjavíkur borg ekki burði til þess að reka þessa grunnþjónustu. Mistókst Reykjavíkurborg verkefnið. Höfum við sé líðan barna á grunnskólaaldri batna, sjáum við betri árangur í lestri, hefur viðhaldi skólahúsnæðis verið sinnt? Þetta eru spurningar sem þeir sem eru við völd og hafa verið lengi verða að spyrja sig.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. júní 2019.