Hildur Sólveig Sigurðardóttir bæjarfulltrú í Vestmannaeyjum:
Vestmannaeyjar eru eyjaklasi við suðurströnd Íslands þar sem á fimmta þúsund Íslendinga hefur kosið sér búsetu. Eyjarnar eru þekktar fyrir stórbrotna náttúrufegurð, ævintýralega byggðasögu, fjölbreytt dýralíf og ekki síst elju, samstöðu og gleði eyjaskeggja. Það sem færri þekkja þó er að Vestmannaeyingar hafa lengi verið í fremstu röð á heimsvísu hvað varðar vistvæna orkuframleiðslu.
Hraunhitaveitan
Eins ótrúlegt og það hljómar er enginn jarðhiti í Vestmannaeyjum og upphaflega voru hús hituð með kolum, olíu en loks rafmagni. Í ársbyrjun 1974 í kjölfar Heimaeyjargossins var settur upp einfaldur varmaskiptir á Eldfellshrauni sem kalt vatn rann í gegnum. Vatnið hitnaði í heitu hrauninu og var leitt inn á hitakerfi húsa. Um 1978 voru flest hús í Vestmannaeyjum tengd hraunhitaveitu sem hitaði upp hús í Vestmannaeyjum í yfir 10 ár eða þar til hraunið fór að kólna. Hraunhitaveitan var fyrsta og eina sinnar tegundar sem starfrækt hefur verið í heiminum svo vitað sé.
Sorp til húshitunar
Þegar sorporkustöð var starfrækt í Vestmannaeyjum á árunum 1993-2013 var það í fyrsta skipti á landinu sem sorp var notað sem orkugjafi til húshitunar en í kjölfar hertra umhverfisreglugerða var þeirri stöð lokað og tekið að flytja sorp frá Vestmannaeyjum með ferju sem siglir á olíu og að sama skapi þurfti á ný að kynda húsnæði Eyjaskeggja með ótryggri raforku og olíu.
Landsnet lagði nýjan sæstreng til Eyja sem var tekinn í notkun árið 2013 og tryggði stórbætt afhendingaröryggi orkunnar. Framkvæmdin gekk mjög hratt og vel fyrir sig, eða á methraða, enda var ekki neinu málþófi fyrir að fara hvað þann sæstreng varðaði.
Sjóvarmadælustöð
Í síðustu viku var vígð ný og glæsileg sjóvarmadælustöð HS veitna í Vestmannaeyjum og sú næststærsta í heiminum, en varmadælustöðin er að mati HS veitna ódýrasti virkjunarkosturinn um þessar mundir. Tilgangurinn með framkvæmdinni var að leita að hagkvæmasta úrræði til upphitunar húsnæðis í Eyjum til framtíðar litið og um leið að treysta orkuöflunina en þar er sjór nýttur sem endurnýjanlegur orkugjafi í húsum í fyrsta skipti á Íslandi.
Nýr Herjólfur rafknúinn
Ný Vestmannaeyjaferja er loksins á leið heim frá Póllandi og verður þar með fyrsta rafknúna farþegaferjan á Íslandi. Samgönguráðherra ákvað í byrjun árs 2018 í ljósi áherslna ríkisstjórnarsáttmálans í loftslagsmálum að rafvæða ferjuna að fullu þannig að þegar hún siglir á milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar getur hún siglt á raforkunni einni saman en hún þarf hins vegar að reiða sig á olíu í lengri siglingum.
Stuðningur hins opinbera
HS Veitur er gott dæmi um það hvernig einkafyrirtæki á samkeppnismarkaði tekur af skarið og leiðir samfélagið inn á nýjar og spennandi slóðir, umhverfinu og samfélaginu til heilla. Hið opinbera getur veitt ýmsan stuðning við slík jákvæð verkefni, með lagasetningum, í styrkjaformi líkt og í varmadæluverkefninu, beinni íhlutun líkt og í nýrri Vestmannaeyjaferju, fræðslu eða í formi skattaívilnana. Sveitarfélögin geta að sama skapi komið til móts við slíka starfsemi í formi samvinnu við deiliskipulag og framkvæmdir, stuðnings og hvatningar til nýsköpunar o.fl. líkt og hefur verið keppikefli Vestmannaeyjabæjar á undanförnum árum.
Framtíðin í okkar höndum
Framtíð Vestmannaeyja líkt og allrar jarðkringlunnar veltur fyrst og fremst á möguleikum mannskynsins til að takast á við okkar alvarlegustu vandamál sem eru m.a. afleiðingar okkar eigin hegðunar. Lausn þessara alvarlegu vandamála er að miklu leyti fólgin í þessari sömu hegðun og þá ýmist tregðu okkar eða vilja til að breyta henni, veröldinni til vansa eða vegsemdar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. júní 2019.