Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2018
'}}

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

Síðustu ár höfum við upplifað einstaka tíma, fordæmalaust hagvaxtarskeið. Hagvaxtarskeið sem heimilin og ríkissjóður hafa verið dugleg að nýta sér til þess að greiða niður skuldir. Nú sér fyrir endann á þessu tímabili, því miður. Því hefði verið óskandi að Reykjavíkurborg hefði nýtt þetta tímabil til þess að greiða niður skuldir, lækkað fjármagnskostnað og hagræða í rekstri. Það væri óskandi að ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 staðfesti að aðhalds hefði verið gætt. Þess væri óskandi að ráðdeild í rekstri hefði ráðið för. En þegar maður spyr sig hvort svo hafi verið með ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 að skuldir hafi verið lækkaðar og borginn hafi undirbúið sig fyrir mögur ár þá er það því miður ekki svo. Afkoma borgarinnar er lakari en árið 2017, annar rekstrarkostnaður vex, fjármagnskostnaður vex, skuldir vaxa. Já, skuldir jukust á þessu fordæmalausa hagvaxtarskeiði, um 2 milljarða á mánuði árið 2018. Þrátt fyrir auknar tekjur borgarinnar.

Klúðraði Reykjavíkurborg góðærinu ?

Núna stöndum við á þröskuldi samdráttartíma og tekjur borgarinnar gætu dregist saman. Hvernig getum við mætt samdrætti? Ætlar Reykjavíkurborg að hækka skatta og gjöld? Nei, sem betur fer má segja, verður ekki hægt að auka álögur á borgarbúa með löglegum hætti,  sú leið hefur þegar verið nýtt, allt er í hámarki.

Eftir bankahrunið varð að draga  úr þeim fjármunum sem lagðir voru í viðhald á húsnæði leikskóla, grunnskóla, frístunda og félagsmiðstöðva. Það var leið til þess að spara til að halda úti grunnþjónustu. En þegar birti til og tekjur borgarinnar jukust var viðhaldsfríu stefnunni haldið áfram og peningum borgarbúa eytt í gæluverkefni

Nú er í óefni komið og langt í land að mikilli og brýnni uppsafnaðri viðhaldsþörf í leikskólum, grunnskólum, Félags og  frístundamiðstöðvum verði mætt.

Ef við sinnum ekki viðhaldi á húsnæði þá er vandinn fljótur að verða mjög kostnaðarsamur, það höfum við heldur betur rekið okkur á, á þessu ári. Í Breiðholtsskóla er lokuð heil álma vegna myglu, Fossvogsskóli er allur lokaður vegna myglu, leikskólar og frístundamiðstöðvar hafa líka verið í vanda. Vanda sem bitnar á fjölda barna og foreldrum þeirra.

22 leikskólar á samtals 26 starfsstöðvum og 12 grunnskólar sendu upplýsingar um að Umhverfis- og skipulagssvið hafi ekki brugðist við síðustu athugasemdum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 2018. Það eru því 38 starfstöðvar þar sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur komið með athugasemdir við og þeim hefur ekki verið sinnt. Það er mikilvægt að brugðist sé hratt og vel við athugasemdum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.  Ég virkilega vona það að á þessum málum verði tekið af meiri festu en hefur verið hingað til. Það er ótækt að athugasemdum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sé sinnt seint og illa.

Við verðum að forgangsraða mun meira fjármagni til viðhalds, það er allt of dýrt fyrir okkur þegar að húsnæði okkar Reykvíkinga liggur undir skemmdum. Miða við þann mikla tekjuafgang sem meirihlutinn í Reykjavík vill meina að sé þá ætti að vera lítið mál að ganga í verkið. Við getum að minnst kosti ekki búið við sinnuleysið áfram.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. maí.