Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:
Ísland mælist ofarlega og gjarna efst á ýmsum mælikvörðum sem við notum þegar við berum okkur saman við önnur lönd. Það er oft ánægjulegt að mælast efst en alla lista er þó ekki eftirsóknarvert að toppa. Þar á meðal er það hvaða lönd eru með flóknasta eftirlitsregluverkið en Ísland mælist þar hæst allra OECD-þjóða. Á öllum mælikvörðum listans um eftirlitsregluverk er Ísland það hagkerfi þar sem reglukerfið er mest.
Þetta er ekki jákvæð þróun. Eftirlitskerfi er dýrara fyrir íslenskt atvinnulíf og hefur þannig töluverð áhrif á samkeppnishæfni okkar. Það hefur síðan bein áhrif á hagvöxt og atvinnutækifæri. Þetta er þróun sem við þurfum að snúa við. Það er ljóst að umhverfið í dag hefur tilhneigingu til að ofregluvæða hlutina og borið hefur til að mynda á því að gengið sé lengra við innleiðingu EES-gerða en nauðsyn krefur. Oft reynist erfitt að greina hvaða hluti lagafrumvarps er á grundvelli EES-samningsins og hvaða hluti er að frumkvæði íslenskrar stjórnsýslu.
Utanríkismálanefnd samþykkti fyrr á árinu breytingar sem einfalda en umfram allt gera innleiðingu EES-reglugerða skilvirkari hér á landi. Það felur meðal annars í sér að ekki verði hægt að læða inn aukareglugerðum eða íþyngjandi ákvæðum eins og gjarnan vill gerast. Ráðherrarnir tveir í atvinnuvegaráðuneytinu hafa einnig sett af stað vinnu um einföldun regluverks og það mættu fleiri ráðherrar taka sér til fyrirmyndar. Það er sjálfsagt hægt að réttlæta ofsetningu reglugerða með góðum tilgangi – líkt og svo mörg önnur afskipti hins opinbera af einstaklingum og atvinnulífi. Þegar upp koma mál, t.d. um vafasama viðskiptahætti, er það yfirleitt fyrsta verk að kanna hvort hið opinbera hafi verið búið að setja lög eða reglur um viðeigandi starfsemi og í kjölfarið kannað hvort hið opinbera hafi fylgt því eftir með nægu eftirliti. Ef svo er ekki er misgjörðum manna oft velt yfir á ábyrgð hins opinbera. Á móti kemur að við veltum því sjaldan fyrir okkur hvaða fórnir við færum með eftirliti í kjölfar íþyngjandi reglugerða. Það er að hluta til eðlilegt, því það er erfitt að mæla árangur sem aldrei varð.
Við eigum að búa til skýrar og góðar reglur í því umhverfi sem atvinnulíf og almenningur starfar og lifir í. Á sama tíma og öflugt eftirlit er mikilvægt og að fyrirtæki séu varin fyrir ólögmætri háttsemi í atvinnurekstri má umhverfið ekki vera of íþyngjandi og kostnaðarsamt. Það er hagsmunamál okkar allra að búa þannig um hnútana að hinn frjálsi markaður fái að njóta sín. Um leið og hinn frjálsi markaður refsar skussunum verðlaunar hann þá sem standa sig vel. Hið opinbera mun aldrei – og á aldrei – ná þannig utan um atvinnulífið að það teljist fullkomið á mælikvarða reglugerða.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. maí 2019.