Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:
Haustið 2013 samþykkti borgarstjórnarmeirihlutinn nýtt aðalskipulag. Helstu áherslur þess voru mikil „þétting byggðar“ og breyttir samgönguhættir.
Afleiðingar 95% þéttingar
Málsvarar nýja aðalskipulagsins töluðu eins og þeir hefðu fundið upp þéttingu byggðar en það var öðru nær. Í fyrra aðalskipulagi var gert ráð fyrir 75% þéttingu. En nú skyldi þéttingin verða 95%. Þessi mikla þétting útilokaði strax að byggt yrði á ódýrum lóðum í eigu borgarinnar. Þess í stað hefur einkum verið byggt í og við Miðbæinn, á fokdýrum lóðum í eigu banka, sjóða eða forríkra einstaklinga.
Nú þessa dagana eru fjölmiðlar að fjalla um nokkurra hundraða offramboð á lúxusíbúðum í Miðbæ Reykjavíkur og næsta nágrenni. Verðlag þessara íbúða er á bilinu frá 700 þúsund krónum fermetrinn og upp í og yfir milljón krónur fermetrinn. Á sama tíma og reyndar sl. átta ár, hefur verið viðvarandi meiri skortur á venjulegu fjölskylduhúsnæði í Reykjavík en dæmi eru um í áratugi, lóðaverð sem hlutfall af íbúðaverði hefur margfaldast og íbúðaverð og húsaleiga hafa hækkað meira og hraðar í Reykjavík en sögur fara af. Auk þess hefur svokölluð þétting byggðar í Reykjavík leitt af sér meiri dreifingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu en nokkurn tíma fyrr: Hundruð, ef ekki þúsundir ungra Reykvíkinga. hafa flúið í nærliggjandi sveitarfélög, m.a. á Akranes, í Árborg og Reykjanesbæ, starfa enn í Reykjavík. en aka nú margfalda vegalengd til og frá vinnu. Þessi þróun hefur aukið umferðarálag, umferðarmengun, slysahættu og tímaskatt vegfarenda.
Þessar tvær meginforsendur Aðalskipulagsins, 95% þétting og eindregin andstaða við ríkjandi samgönguhætti borgarbúa, eru líklega einhver skelfilegustu skipulagsmistök sem gerð hafa verið í sögu Reykjavíkur. En það grátlega við þessi mistök er sú staðreynd að þau voru fullkomlega fyrirséð, öllum þeim sem vildu hugsa málið til enda. Í raun snerist málið aldrei um forpokaða flokkapólitík, heldur almenna skynsemi, og þann hæfileika að hlusta á gagnrýni og réttmætar efasemdir.
Fimm ára gömul aðvörun
Þegar Aðalskipulagið var samþykkt greiddu ég, Júlíus Vífill Ingvarsson og Kjartan Magnússon, atvæði gegn því og sömdum bókun þar að lútandi. Það er vel við hæfi að rifja nú upp þessa bókun, í tilefni af því að borgarstjórn hefur nú tekist að skapa hvort tveggja í senn, skort og offramboð á íbúðarhúsnæði í Reykjavík. Í bókun okkar segir m.a.:
„Uppbygging á skipulagstímanum er takmörkuð við þéttingarreiti í eldri hluta borgarinnar. Slík ofurtrú á einni leið til uppbyggingar stríðir gegn eðlilegri borgarþróun. Hún mun auk þess ýta undir að stór hluti fólks sem vill búa í Reykjavík mun leita þangað sem framboð er fjölbreyttara. Horft er framhjá margvíslegum göllum þess að þétta byggð, m.a. þeim aukna byggingarkostnaði sem því fylgir, aukinni umferð og meiri mengun.“
Í bókun okkar frá 2013 segir einnig:
„Sú forsenda aðalskipulagsins að flestir vilji búa á þéttingarreitum í vesturborginni stenst ekki. Verði skipulagið samþykkt munu ungar fjölskyldur í ríkara mæli leita til annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu enda er með þessu skipulagi ekki verið að skapa þeim aðstæður til að hefja sinn búskap í borginni. Reynslan sýnir að barnafjölskyldur eru ekki kaupendur íbúða á þéttingarreitum þar sem lóðarverð er hátt og íbúðir eru óhjákvæmilega dýrar. Við styðjum þéttingu byggðar þar sem því verður við komið en farsæl skipulagsvinna sem styður við eðlilega borgarþróun byggist á að svara ólíkum óskum íbúa og atvinnulífs. Úthverfum er í texta aðalskipulagsins lýst sem meinsemd sem verður að stöðva eftir „áratugalanga gegndarlausa útþenslu“. Í samræmi við það er ekki gert ráð fyrir uppbyggingu í nýju eða nýlegu hverfi í útjaðri borgarinnar á aðalskipulagstímanum. Þau hverfi hafa í áranna rás verið eftirsóttustu byggingarsvæðin á höfuðborgarsvæðinu. Framtíð Reykjavíkur byggist á því að skapa ungu fólki tækifæri og aðstæður til uppbyggingar. Meginstefna aðalskipulagsins er að þétta byggð í Reykjavík en það mun leiða til meiri dreifingar byggðar á höfuðborgarsvæðinu.“
Brauð og kökur
Allar þær afleiðingar sem hér var varað við hafa nú komið á daginn, skýrt og greinilega. Þeir sem enn berja höfði við steininn og neita tölfræðilegum upplýsingum þar að lútandi, ættu ekki að vera í pólitík. Frægasta setning mannkynssögunnar sem lýsir fullkomnu skilningsleysi á tilteknum mannlegum aðstæðum og pólitískri stöðu, er með réttu eða röngu eignuð Marie Antonette, Frakklandsdrottningu og eiginkonu Lúðvíks XVI. Tilefnið var krafa hungraðra Parísarbúa um brauð, skömmu fyrir stjórnarbyltinguna miklu, 1789: „Si le peuple n'a pas de pain qu'il mange de la brioche.“ Þetta hefur útlagst á ensku: „Let them eat cakes“, en á íslensku: „Af hverju borða þau ekki bara kökur.“
Nú er offramboð á lúxsusíbúðum í og við Miðbæ Reykjavíkur, rétt eins og það var offramboð á kökum í sölum Versala. Skyldi borgarstjórnarmeirihlutinn vera að velta því fyrir sér hvers vegna venjulegt, ungt fólk í Reykjavík kaupi sér ekki bara lúxusíbúð í Miðbænum á milljón krónur fermetrann?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. maí. 2019