Óli Björn Kárason alþingismaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Hvergi í ríkjum OECD er reglubyrði þjónustugreina þyngri en á Íslandi. Þetta er niðurstaða úttektar OECD sem kynnt var fyrir skömmu á fundi ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur. Ekkert bendir til þess að reglubyrðin sé hlutfallslega einfaldari eða léttari á öðrum sviðum atvinnulífsins.
Skiptir þetta máli? Auðvitað – regluverk og umgjörð um íslenskt atvinnulíf er spurning um samkeppnishæfni gagnvart helstu samkeppnislöndum og þar með spurning um lífskjör. Þess vegna er það ein frumskylda stjórnvalda að verja samkeppnishæfni landsins. Með því að setja íþyngjandi kvaðir og reglur – umfram það sem almennt gerist – er aukin hætta á að íslensk fyrirtæki og launafólk verði undir í harðri og óvæginni alþjóðlegri samkeppni.
Í lögum um opinberar eftirlitsreglur segir að þegar „eftirlitsreglur eru samdar eða stofnað er til opinbers eftirlits skal viðkomandi stjórnvald meta þörf fyrir eftirlit, gildi þess og kostnað þjóðfélagsins af því. Slíkt mat getur m.a. falist í áhættumati, mati á alþjóðlegum skuldbindingum um eftirlit, mati á kostnaði opinberra aðila, fyrirtækja og einstaklinga, mati á hvort ná megi sama árangri með hagkvæmari aðferðum eða mati á þjóðhagslegu gildi eftirlits“. Mat af þessu tagi á að fylgja með stjórnarfrumvörpum.
Íþyngjandi og gengið lengra
Í áðurnefndum lögum er forsætisráðherra gert að skipa fimm manna nefnd til ráðgjafar um eftirlit á vegum hins opinbera og framkvæmd laganna. Að eigin frumkvæði vann þáverandi nefnd skýrslu um um þróun reglubyrði atvinnulífsins á 143. til 145. löggjafarþingi [2013-2016]. Í skýrslunni er yfirlit yfir þau frumvörp sem urðu að lögum og leggja auknar byrðar á atvinnulífið eða einfalda það regluverk sem fyrirtæki starfa eftir. Vert er að hafa í huga að í sama frumvarpi geta jafnt verið íþyngjandi ákvæði og einföldun regluverks.
Á umræddu tímabili voru samþykkt 35 frumvörp sem áhrif höfðu á reglubyrði. Aðeins sex frumvörp sem urðu að lögum mæltu einvörðungu fyrir um einföldun regluverks, 17 fólu í sér íþyngjandi reglur og 12 bæði íþyngjandi og einfaldara regluverk. Af þeim 17 sem voru eingöngu íþyngjandi voru 14 vegna innleiðingar EES-reglna.
Í skýrslu ráðgjafarnefndarinnar er bent á að ef „litið er til þess í hversu mörgum tilvikum gengið var lengra í innleiðingu en viðkomandi gerðir mæla fyrir um, sem leiðir til þess að atvinnulífinu er íþyngt meira en þörf var á til að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt EES-samningnum, kemur í ljós að í sjö tilvikum var um slíkt að ræða“. Þetta þýðir að eitt af hverjum þremur lagafrumvörpum sem samþykkt voru gekk lengra og var meira íþyngjandi en nauðsyn bar til.
Yfir 50 íþyngjandi ákvæði voru í þeim frumvörpum sem lögð voru fram; aukið eftirlit, leyfi og tilkynningar, skattar og gjöld, þvingunarúrræði og refsiheimildir og loks ýmsar kvaðir. Á umræddum árum voru samþykkt 26 íþyngjandi ákvæði sem fólu í sér aukningu á stjórnsýslubyrði, þ.e. kröfur um öflun upplýsinga, leyfi eða tilkynningar og aukið eftirlit. Í niðurlagi skýrslu ráðgjafarnefndarinnar segir orðrétt:
„Það sem stingur einna mest í augu varðandi þær upplýsingar sem hér birtast er hve greiningu á hugsanlegum íþyngjandi áhrifum reglna er ábótavant. Það er grundvallaratriði fyrir góða stjórnsýslu að slík greining fari fram. Án hennar er ómögulegt fyrir stjórnvöld, atvinnulíf og almenning að átta sig á ábata og íþyngjandi áhrifum sem fylgja setningu reglna fyrir atvinnulífið. Aðferðir til að meta íþyngjandi áhrif eru vel þekktar. Slík greining þarf að fara fram og mat á kostnaði og ábata af setningu reglnanna þarf að liggja fyrir áður en ákvörðun um setningu þeirra er tekin. Ekki nægir að vísa til umsagna hagsmunaaðila, heldur verður að gera slíkar úttektir með skipulegum og reglulegum hætti af óháðum aðilum.“
Í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir forsætisráðuneytið árið 2004 var beinn árlegur kostnaður fyrirtækja við að framfylgja eftirlitsreglum áætlaður um 7,2 milljarðar króna á verðlagi 2003. Kostnaðurinn er um 14,4 milljarðar á verðlagi síðasta árs. Þetta er þrisvar sinnum hærri fjárhæð en framlög ríkissjóðs til markaðseftirlits, neytendamála og stjórnsýslu atvinnumála á næsta ári samkvæmt fjármálaáætlun.
Frá því að Hagfræðistofnun vann skýrsluna hefur kostnaður örugglega hækkað verulega, enda hefur reglum fjölgað, þær verið hertar og eftirlit stóraukist.
Víða pottur brotinn
Forsætisráðuneytið og ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur fengu Maskínu til að kanna viðhorf fyrirtækja vítt og breitt um landið til eftirlitsmenningar á Íslandi. Niðurstöðurnar voru kynntar á fyrrnefndum fundi ráðgjafarnefndarinnar.
Samkeppniseftirlitið kemur illa út í könnun Maskínu. Um 70% eru ósammála því að stofnunin veiti leiðbeiningar sem auðvelda fyrirtækjum að takast á við lagalega óvissu og afstýra brotum á reglum. Um 58% hafa sömu afstöðu til Fjármálaeftirlitsins. Nær 68% telja að Samkeppniseftirlitið sé mjög eða fremur óskilvirkt í störfum sínum.
Þessu er öfugt farið með Póst- og fjarskiptastofnun. Yfir 68% fyrirtækja eru á því að stofnunin sinni leiðbeinandi hlutverki sínu og ber stofnunin nokkuð af í þessum efnum. Ferðamálastofa kemur þar á eftir, en um 60% eru á því að stofnunin veiti leiðbeiningar sem koma að notum.
Um 39% fyrirtækja telja að sá tími sem fer í að framfylgja reglum sé íþyngjandi. Að fylla út eyðublöð, skila gögnum, halda upplýsingum til haga og önnur skriffinnska er íþyngjandi að mati 44% fyrirtækja.
Yfir 53% segja að samráð sem haft er við atvinnulífið áður en reglum er breytt sé mjög eða frekar slæmt. Rúm 48% fyrirtækja telja að stjórnvöld upplýsi atvinnulífið ekki skilmerkilega eða með nægilegum fyrirvara þegar reglum er breytt.
Aðeins 27% er á því að reglur sem gilda um atvinnurekstur sé sanngjarnar og gangi ekki lengra en nauðsynlegt er.
Niðurstöður könnunar Maskínu eru um margt forvitnilegar, sumar sláandi og hljóta að vekja löngun stjórnvalda til að stokka hressilega upp í kerfinu – gera það einfaldara og skilvirkara. Sé vilji fyrir hendi er hægt að gera ótrúlega hluti á þeim tveimur árum sem eftir eru af kjörtímabilinu. Regluverkið allt er fyrir almenning og atvinnulífið, ekki kerfið sjálft. Nauðsynleg uppstokkun verður að taka mið af þessum einföldu sannindum.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. apríl 2019.